Jöfnun á aðstöðu til náms

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 18:51:59 (3796)

1999-02-17 18:51:59# 123. lþ. 68.15 fundur 275. mál: #A jöfnun á aðstöðu til náms# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[18:51]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Spurt er: Hvað er gert til að bæta skilyrði þeirra nemenda á framhaldsskólastigi sem sækja nám utan heimabyggðar?

Því er til að svara almennt að unnið hefur verið að uppbyggingu framhaldsskóla á landsbyggðinni, aukin framlög til jöfnunar á námsaðstöðu, skipulagður skólaakstur í tengslum við framhaldsnám, auknir möguleikar á lánum úr Lánasjóði íslenskra námsmanna og síðast en ekki síst hefur fjarkennsla verið stórefld. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1999 voru fjárveitingar til jöfnunar á námskostnaði hækkaðar um 65 millj. kr. og síðan 1996 hefur þessi útgjaldaliður á fjárlögum aukist um 130% þannig að stórauknu fé hefur verið varið til að geta styrkt nemendur sem þurfa að sækja nám utan lögheimilis og fjarri heimabyggð sinni. Þetta er það sem helst hefur verið gert, að efla þennan sjóð sem veitir styrki fyrir utan fjarkennsluna og aukið framboð á henni sem hefur margfaldast á undanförnum missirum.

Síðan er spurt: Hafa verið gerðar kannanir á vegum ráðuneytisins á þörf fyrir heimavistarrými fyrir nemendur á framhaldsskólastigi?

Svarið er þetta: Síðari helming ársins 1996 var gerð ítarleg úttekt á heimavistarrými í landinu. Hvert einstakt heimavistarhús var skoðað, endurbótaþörf metin, nýting undanfarinna ára athuguð og reynt að meta líkur á aðsókn á næstu árum. Niðurstaðan var í stuttu máli sú að í landinu væri heimavistarrými framhaldsskóla að öllu samanlögðu töluvert umfram þarfir. Hins vegar væri nýting á sumum stöðum slæm en öðrum meiri en hægt er að sinna. Töluverðar sveiflur eru á milli ára þannig að stundum standa heimavistarrými auð í skólum sem árið áður þurftu að vísa nemendum frá vegna skorts á gistirými. Þær ályktanir voru dregnar af fyrrnefndri úttekt að á nokkrum stöðum mundi fjölgun heimavistarrýma ýta undir stækkun skóla og að meiri þörf væri fyrir nemendaíbúðir, líkar þeim sem byggðar hafa verið af samtökum námsmanna á undanförnum árum, en fyrir heimavistir með hefðbundnu sniði.