Fjölbreyttara nám á Vestfjörðum

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 19:01:29 (3800)

1999-02-17 19:01:29# 123. lþ. 68.16 fundur 276. mál: #A fjölbreyttara nám á Vestfjörðum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[19:01]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég átta mig ekki almennilega á hvert fyrirspyrjandi er að fara þegar talað er um að ,,beita sér fyrir því að slíkt nám verði í boði víðar á Vestfjörðum en nú er``. Það sem um er að ræða á Vestfjörðum er það að samstarf hefur verið við Þróunarsetur Vestfjarða um fjarkennslu og Framhaldsskóli Vestfjarða hefur einnig skapað þar aðstæður. Fyrirspurnin var lögð fram 20. nóvember sl. og margt hefur gerst síðan. Fyrir liggur m.a. að við afgreiðslu fjárlaga hafa fjármunir verið veittir til að efla þessa starfsemi á Vestfjörðum og að því er unnið að sjálfsögðu. Hvort sett verði upp fleiri slík setur á Vestfjörðum en á Ísafirði, ef það er fyrirspurnin, þá get ég ekki fullyrt um það. En hitt er annað mál að það sem er að gerast í þessu er auðvitað að með nýtingu tölvutækninnar getur hver og einn sem hefur aðgang að tölvum nýtt sér fjarnám frá háskólum, ekki aðeins íslenskum háskólum heldur háskólum erlendis og það er meira undir frumkvæði einstaklinganna komið en vilja menntmrh., sem hins vegar hefur beitt sér fyrir því að sem flestir átti sig á þeim kostum sem í boði eru og nýti sér þá.

Ef spurningin er um það að komið verði upp fleiri svipuðum setrum og eru á Ísafirði, þá er það ekki á dagskrá í sjálfu sér. Hins vegar er eðlilegt að menn hugi að því hvernig eigi að nýta þessa tækni sem best á Vestfjörðum eins og annars staðar og hvernig eigi að vekja athygli almennings á því að hann hefur aðgang að menntun með allt öðrum hætti en áður, þótt ekki sé um fjarfundabúnað að ræða eins og þann sem fjárfest hefur verið í á Ísafirði og Þróunarsetur Vestfjarða hefur staðið að með framhaldsskólanum. Ef Þróunarsetur Vestfjarða vill hafa frumkvæði að þessu á öðrum stöðum á Vestfjörðum og ef slíkur búnaður til fjarkennslu er á fleiri stöðum á Vestfjörðum, þá er að sjálfsögðu unnt að nýta hann þar ekki síður en á Ísafirði og stunda fjarnám með slíkum búnaði.

En af hálfu menntmrn. hefur áherslan verið lögð á að efla þessa aðstöðu sem mest má í Framhaldsskóla Vestfjarða á Ísafirði en vonandi getur það af sér fleiri tækifæri fyrir Vestfirðinga til að nýta sér þessa tækni. Ég legg þó höfuðáherslu á að hér er um einstaklingsbundið framtak manna að ræða í vaxandi mæli og þar ræður áhugi, tölvukunnátta og aðgangur að netinu mestu um hvort menn vilja nýta sér þá möguleika sem eru í boði.