Fjölbreyttara nám á Vestfjörðum

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 19:04:53 (3801)

1999-02-17 19:04:53# 123. lþ. 68.16 fundur 276. mál: #A fjölbreyttara nám á Vestfjörðum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SighB
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[19:04]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Í nýlegri samþykkt frá norrænu ráðherranefndinni er lögð áhersla á nýja framkvæmd í umhverfismálum sem er sú að reyna að varðveita mannlíf og menningu á jaðarbyggðum þar sem hætta er á að búseta leggist að öðrum kosti niður. Nú háttar svo til að í Árneshreppi á Ströndum er nákvæmlega þetta að gerast. Þar eru ekki nema um tíu býli í byggð, þar er mannlíf að leggjast niður og sú menning og sérstæða atvinnustarfsemi sem þar er stunduð. Lögð hefur verið fram tillaga frá Landvernd og fleiri aðilum um að þessari samþykkt norrænu ráðherranefndarinnar verði hrint í framkvæmd á þeim stað. Verulegur þáttur í því er að taka upp samvinnu um tölvukennslu á grunnskólastigi og í fyrstu bekkjum framhaldsskólans og kennslu heima fyrir svo börnin þurfi ekki að fara burt úr byggðarlaginu. Það eru engar vetrarsamgöngur á milli Hólmavíkur og Árnesshrepps, eins og öllum er kunnugt. Ég vil spyrja hæstv. menntmrh. hvort hann hafi frétt eitthvað af þessum hugmyndum og hvort hann sé reiðubúinn að skoða þær hugmyndir sem Landvernd hefur mælt fyrir.