Túlkun stjórnmálaumræðna í Ríkisútvarpinu fyrir heyrnarlausa

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 19:10:14 (3804)

1999-02-17 19:10:14# 123. lþ. 68.17 fundur 459. mál: #A túlkun stjórnmálaumræðna í Ríkisútvarpinu fyrir heyrnarlausa# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[19:10]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Þegar ég lagði þessa fyrirspurn fram fyrir hæstv. menntmrh. var enn einu sinni hafin sú þrautaganga heyrnarlausra og heyrnarskertra fyrir kosningar að fá sambærilega möguleika og aðrir þjóðfélagsþegnar til að mynda sér skoðanir á lýðræðislegan hátt eða taka afstöðu í kosningum. En þá hafði Félag heyrnarlausra farið fram á það bréflega við sjónvarpið að stjórnmálaumræður fyrir alþingiskosningar 8. maí yrðu túlkaðar jafnhliða á táknmáli. Þegar fyrirspurn mín var lögð fram hafði þessari málaleitan verið synjað af framkvæmdastjóra sjónvarpsins, en fyrirspurn mín hljóðaði á eftirfarandi hátt:

,,Hvernig hyggst ráðherra tryggja að heyrnarlausir og heyrnarskertir geti fylgst með almennri stjórnmálaumræðu í Ríkisútvarpinu fyrir alþingiskosningarnar 8. maí?``

Nú gerðist það í dag að framkvæmdastjóri sjónvarpsins sendi bréf til Félags heyrnarlausra þar sem þeir ákváðu eða tilkynntu að þeir væru tilbúnir að koma til móts við þessa kröfu Félags heyrnarlausra og buðu að þeir mundu senda út stjórnmálaumræðurnar, sem eru kvöldið fyrir kjördag, í lok dagskrár og þá túlkaðar og textaðar og yrðu þær einnig endurútsendar að morgni kjördags. Þar sem aðstæður eru breyttar spyr ég hæstv. ráðherra: Finnst honum það boðlegt að þessi stóri hópur heyrnarlausra og heyrnarskertra fylgist með umræðu um stjórnmál fyrir kjördag í lok dagskrár, jafnvel eftir miðnætti eða snemma morguns á kjördag? Það hefur nú ekki viðgengist venjulega að sjónvarpið væri að senda út stjórnmálaumræður á kjördag, en þarna er stór hópur, um 25 þús. manns sem eru heyrnarskertir og þó sem betur fer mun minni hópur sem eru heyrnarlausir, og ég spyr hæstv. ráðherra hvort honum finnist þetta eðlilegt. Reyndar fagna ég því að komið skuli vera til móts við þessa hópa en þarna er engu að síður verið að mismuna mjög stórum hópi Íslendinga með því að ætla að endursenda þetta út seint um nótt eða kvöld, og ég er sannfærð um að þessi leið sem sjónvarpið er að bjóða er dýrari en túlkun og textun á beinni útsendingu. Ég er sannfærð um það. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hafi athugað hvort þarna sé verið að fara dýrari leið og hvort eðlilegt sé að þessi hópur fái ekki sömu þjónustu og aðrir við stjórnmálaumræður fyrir alþingiskosningarnar í vor.