Utanhússviðgerðir á Sjómannaskólahúsinu í Reykjavík

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 19:22:37 (3810)

1999-02-17 19:22:37# 123. lþ. 68.18 fundur 517. mál: #A utanhússviðgerðir á Sjómannaskólahúsinu í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[19:22]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að þetta hefur verið vandamál um margra áratuga skeið í Sjómannaskólahúsinu í Reykjavík og raunar sætir undrun að ekki skuli þá fyrir mörgum áratugum einnig hafa verið gripið til gagnaðgerða og bætt úr þessu ástandi.

Spurt er: Hver er áætlaður kostnaður við utanhússviðgerðir á Sjómannaskólahúsinu í Reykjavík?

Samkvæmt úttekt á ástandi hússins, sem Framkvæmdasýsla ríkisins hefur gert að beiðni menntmrn., munu utanhússviðgerðir, þ.e. viðgerðir á þaki, veggjum og gluggum ásamt tilheyrandi undirbúningsvinnu og rannsóknum kosta 120--135 millj. kr. Margir óvissuþættir eru þó enn í þeirri áætlun, einkum hvað varðar viðgerðir á veggjum.

Þá er spurt: Hvaða ákvarðanir hafa verið teknar um framkvæmdir?

Stefnt er að því að nú á útmánuðum verði viðgerð á þaki hússins boðin út og er þess vænst að framkvæmdinni geti lokið fyrir upphaf næsta skólaárs.

Í þriðja lagi er spurt: Hverjar er áætlanir um verklok utanhússviðgerða?

Í áætlun Framkvæmdasýslu ríkisins er við það miðað að viðgerðum utan húss geti lokið á þremur árum. Framgangur þeirrar áætlunar er þó að sjálfsögðu háður því að auknar fjárveitingar fáist á fjárlögum næstu ára til viðhalds á húsakosti framhaldsskólanna.