Málefni aldraðra

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 19:29:17 (3813)

1999-02-17 19:29:17# 123. lþ. 68.20 fundur 306. mál: #A málefni aldraðra# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., MagnM
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[19:29]

Fyrirspyrjandi (Magnús Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég er með fyrirspurn frá Þórunni H. Sveinbjörnsdóttur. Það er alllangt síðan hún var lögð fram.

Fyrri fyrri liðurinn hljóðar svo: Hvað líður vinnu við endurskoðun laga um málefni aldraðra?

Ég fékk þær upplýsingar í dag að málið væri komið frá þeirri nefnd sem vann þetta í hendurnar á ríkisstjórninni og það hafi farið í gegnum ríkisstjórnina og sé komið hér fram í þingið sem þskj. 847, en ráðherra fer væntanlega yfir þetta á eftir.

En seinni liðurinn er: Er það framtíðarsýn ráðherra að nota Framkvæmdasjóð aldraðra til annarra verkefna en honum var upphaflega ætlað?

[19:30]

Í reglugerð um Framkvæmdasjóð aldraðra stendur að heimilt sé að veita allt að þriðjungi af árlegu ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs aldraðra til verkefna samkvæmt 3., 4. og 5. tölulið.

3. tölul. er svohljóðandi: ,,Að styðja sveitarfélög, einkum deifbýlissveitarfélög, til að koma á fót heimaþjónustu fyrir aldraða.

4. tölul.: Að veita tímabundið rekstrarfé til stofnana aldraðra sem breyta eða hefja starfsemi eftir að fjárlagaár hefst.

5. tölul.: Önnur verkefni sem sjóðstjórn mælir með og heilbrigðisráðherra samþykkir.``

Í bréfi frá Öldrunarráði Íslands, sem er dags. 15. mars 1998, kemur fram að úthlutun framlaga úr Framkvæmdasjóði aldraðra á því ári hefur verið með talsvert öðrum hætti en undanfarin ár, en það sé þó tvennt sem geri þessa úthlutun afbrigðilega. Það var búið að ráðstafa talsverðum hluta fjárins fyrir fram með ýmsum samningum sem stjórn sjóðsins kom á engan hátt að, eða um 110 millj. kr. miðað við 8--20 millj. á ári síðustu fjögur árin á undan, og hins vegar var úthlutun lokið þegar ný stjórn sjóðsins kom loks saman til síns fyrsta fundar, því að dregist hafði að tilnefna í stjórn sjóðsins. Öldrunarráðið skrifar þetta bréf til heilbr.- og trmrh. og segir að mikilvægt sé að heyra skoðun ráðherra á því hvernig beri að standa að úthlutun úr sjóðnum framvegis og hvort áætlað sé að auka framkvæmdahluta sjóðsins.

Einnig varðandi 4. tölul. og ég kom inn á áðan, að veita tímabundið rerkstrarfé til stofnana aldraðra, sem segir að heimilt sé að nota allt að þriðjungi af árlegu ráðstöfunarfé sjóðsins, þá segir í fundargerð aðalfundar Öldrunarráðs frá 11. nóv. 1998, úr skýrslu þar sem verið er að fara yfir starfsárið 1997--1998, að aðeins 45% af tekjum sjóðsins hafi farið til uppbyggingar öldrunarþjónustu en 55% til rekstrar. Og einnig að ráðherra hafi þegar verið búin að ráðstafa töluverðum hluta teknanna í tiltekið verkefni og að stjórn sjóðsins hafi komið þar að orðnum hlut.

Það er meining þeirra sem að þessari fyrirspurn standa að þarna sé ósamræmi á milli þess sem stendur í reglugerð og þess sem menn standa frammi fyrir. Því hef ég mikinn áhuga á því að heyra svar hæstv. ráðherra við fyrirspurn hv. fyrrv. 15. þm. Reykjavíkur.