Réttur íbúa landsbyggðar til læknisþjónustu

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 19:39:58 (3818)

1999-02-17 19:39:58# 123. lþ. 68.19 fundur 277. mál: #A réttur íbúa landsbyggðar til læknisþjónustu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., SighB
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[19:39]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég fæ nú lítið annað út úr þessu svari en að ekkert hafi gerst síðan sambærilegri fyrirspurn var svarað fyrir hálfum mánuði en þess sé að vænta að eitthvað fari að gerast bráðlega. Í seinni hluta fyrirspurnarinnar er spurt sérstaklega um í hverju þessi vinna, sem verið er að vinna, endurskoðun á kostnaði landsbyggðarfólks sem sækja þarf sérfræðiþjónustu á höfuðborgarsvæðinu, sé fólgin. Það komu ekki nein svör við því.

En fyrst svona stutt er í að hæstv. ráðherra skrifi undir nýja reglugerð gæti hæstv. ráðherra kannski sagt okkur eitthvað um efnisatriði í reglugerðinni. Ég vil þá leyfa mér að spyrja: Er hugmyndin sú að þessi endurgreiðsla á kostnaði nái aðeins til sjúklinganna sjálfra eða er hugsanlegt að endurgreiðslan nái til aðstandenda t.d. veikra barna sem þurfa að sækja sérfræðiþjónustu á höfuðborgarsvæðinu? Er gert ráð fyrir því að þessi greiðsla sé miðuð við einhverja ákveðna vegalengd eða einhvern ákveðinn flutningsmáta, eitthvert hlutfall af því?

Í þriðja lagi. Er gert ráð fyrir því að þessi kostnaður sé greiddur án tillits til þess hvort viðkomandi sjúklingur er með tilvísun frá heimilislækni sínum til sérfræðingsins eða hvort hann leitar sérfræðiaðstoðar samkvæmt eigin ákvörðun án slíks samráðs við heimilislækni sinn áður?