Starfsmannavandi sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 19:44:56 (3821)

1999-02-17 19:44:56# 123. lþ. 68.21 fundur 330. mál: #A starfsmannavandi sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[19:44]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Þessi fyrirspurn er eins og hin fyrri orðin nokkuð gömul margra hluta vegna. En svarið kemur frá stóru sjúkrahúsunum á Reykjavíkursvæðinu. Svarið er ekki heilbrigðisráðuneytisins heldur frá sjúkrahúsunum og er svohljóðandi:

[19:45]

Það er því miður ekkert nýtt að það vanti starfsfólk í ræstingu á sjúkrahúsum. Á Sjúkrahúsi Reykjavíkur eru í október 83% stöðugilda setin, eða 79 stöðugildi af 95 stöðugildum. Því vantar 16 stöðugildi en ekki 30 eins og fullyrt er í spurningunni. Skorturinn er mismikill eftir deildum, t.d. vantar á Grensásdeild í flest stöðugildi frá og með þessum áramótum og á Landakoti í fimm stöður af 20.

Það er mikið um hlutastörf í ræstingum. Viðræður hafa verið milli Sóknar, ríkis og Reykjavíkurborgar um framgang til launahækkunar fyrir starfsfólk ef það uppfyllir ákveðnar kröfur. Leitað hefur verið til atvinnumiðlunar Reykjavíkurborgar og auglýst hefur verið eftir starfsfólki í dagblöðum. Auk þess hefur sjúkrahúsið fengið nokkuð af erlendum starfskröftum. Jafnframt eru uppi hugmyndir hjá stjórnendum spítalanna að bjóða út ræstingu á ákveðnum deildum eða sviðum en ekki liggur fyrir nein ákvörðun í því máli.

Síðan spurði hv. þm.: Verður hægt að halda uppi starfsemi eldhúss Landspítala þó að tæplega tíu stöðugildi séu ómönnuð? Svar sjúkrahússins er:

Það verður hægt að halda uppi starfsemi í eldhúsi Landspítalans með svipuðu sniði og verið hefur. Það vantar að einhverju leyti í stöður fagmenntaðra yfirstjórnenda og millistjórnenda og matvælafræðingar eru enn fámenn stétt. Engar lausar stöður eru fyrir ófagmenntað starfsfólk nú. Mikið er um fjarvistir, eins og kom fram hjá hv. þm. og fyrirspyrjanda, og kalla þær á miklar aukavaktir og yfirvinnu. Starfsemi er þó alltaf haldið gangandi en verkefnum er forgangsraðað. Helstu lausnir eru að dregið er úr framleiðslu á réttum fyrir starfsfólk og þeir keyptir utan úr bæ. Fæði fyrir sjúklinga gengur alltaf fyrir, sérfæði er alltaf afgreitt. Sundum er notaður einnota borðbúnaður þegar vantar fólk í uppþvott.

Síðan spyr hv. þm.: Hyggst ráðherra láta gera úttekt á vanda stóru sjúkrahúsanna sem stafar af gífurlegum mannabreytingum?

Í svari sjúkrahúsanna kemur fram að almennt eru ekki gífurlegar mannabreytingar, hvorki hjá hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum né læknum. Þar eru mannabreytingar ekki miklar en þær eru meiri hjá ófagmenntuðu fólki. Í svari sjúkrahússins kemur fram að úttekt á mannabreytingum sem slík mun ekki leiða neitt nýtt í ljós, eins og þeir segja, sem stjórnendum og starfsfólki er ekki kunnugt um. Auðvitað vitum við, hv. þingmaður, að skortur á starfsfólki er alltaf áhyggjuefni og menn verða alltaf að hafa það í endurskoðun hvað valdi þeim skorti, sé skortur á starfsfólki, og hvað sé til bóta.