Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 11:10:51 (3837)

1999-02-18 11:10:51# 123. lþ. 69.2 fundur 523. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[11:10]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. 5. þm. Reykn. Í þessu efni geta komið upp álitamál. Nú er það svo að það er engan veginn þannig að bak við framboð standi alltaf skipulögð samtök eða að tilteknir séu í reynd í forustu fyrir framboðið þegar kosningar eru afstaðnar. Því er erfitt að gera sérstakar kröfur til þess að samtök eða framboð hafi formlega verið lagt niður. Í mörgum tilvikum er ekki staðið að þeim þannig að það sé neitt form í kringum framboðið. Það getur valdið erfiðleikum í þessu efni en það þarf að hafa hliðsjón af þeim listabókstöfum sem í kjöri voru við síðustu kosningar. Auðvitað getur alltaf komið til mat á aðstæðum og mikilvægt að tryggja ákveðna festu þannig að það ekki verði hringl með þessa bókstafi. Hagsmunir kjósenda eru að þar á sé nokkur festa en þetta getur vissulega leitt til álitaefna sem fjalla þarf um og geta verið viðkvæm.