Raforkuver

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 11:31:01 (3840)

1999-02-18 11:31:01# 123. lþ. 69.3 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[11:31]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir um breytingu á lögum um raforkuver felur í sér að leitað er heimilda til tveggja virkjana, eins og fram kemur í 1. gr. frv., og að breyta um virkjunaraðila í einu tilviki í sambandi við Villinganesvirkjun í Skagafirði.

Framlagning þessa frv. og grg. með því gefur tilefni til að fara yfir nokkra þætti sem snúa að orkustefnu núv. hv. ríkisstjórnar og ég mun koma að nokkrum atriðum sem það mál varða.

Í fyrsta lagi vil ég nefna að ég tel það mikið álitamál að Alþingi sé að veita heimildir til nýrra virkjana með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir án þess að fyrir liggi athuganir á ýmsum þáttum sem snerta muni framkvæmdirnar. Þar hef ég í huga bæði markaðsforsendur en einnig og ekki síður umhverfisáhrif. Ég tel að við þurfum að hverfa frá því ráði að veita almennar heimildir fyrir virkjunum með lögum frá Alþingi áður en búið er að fara yfir grundvallarþætti sem varða nýtingu. Og þar eru það þessir tveir þættir, þ.e. notkun orkunnar, ráðstöfun orkunnar og áhrifin á umhverfið. Þetta ætti reynslan að vera búin að kenna okkur og þau mjög breyttu viðhorf sem uppi eru í sambandi við orkumál og viðhorf manna til áhrifa orkuvera á umhverfið og þá ekki síst vatnsaflsvirkjana.

Ég tel því að athuga þurfi mjög vandlega, áður en heimildir eru veittar til frekari virkjana, þessi almennu viðhorf til stefnumótunar og þar fyrir utan að sjálfsögðu að fara yfir þær hugmyndir um nýjar virkjanir sem hér er verið að leita eftir heimild Alþingis að reistar verði.

Þetta var um efni frv. og þá kemur að því sem blasir við í grg. með frv., að tilefni þess að verið er að leita þessara heimilda er fyrst og fremst áform um frekari sölusamninga við stóriðjufyrirtæki og ráðstöfun orkunnar í málmbræðslu.

Ég tel að staðan í sambandi við orkumál landsmanna gefi tilefni til þess að skoða mjög vandlega hvert horfir til framtíðar litið í sambandi við ráðstöfun þeirrar orku sem hugsanlega er hér úr að spila á næstu áratugum. Ég hef ásamt öðrum hv. þm. í þingflokki óháðra lagt fram till. til þál. um sjálfbæra orkustefnu þar sem þessi viðhorf okkar flutningsmanna eru dregin fram. Sú tillaga gerir ráð fyrir að iðnrh. undirbúi í samvinnu við umhvrh. og þingflokka sjálfbæra íslenska orkustefnu sem hafi að markmiði að orka frá endurnýjanlegum orkugjöfum leysi innflutta orku af hólmi. --- Þar er átt við jarðefnaeldsneytið sem flutt er til landsins og er stór þáttur í orkubúskap landsmanna nú. Og í öðru lagi að dregið verði markvisst úr orkusóun og losun gróðurhúsalofttegunda. Í þriðja lagi að ríkulegt tillit verði tekið til náttúruverndar og umhverfis við áætlanir og ákvarðanir um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Að forsenda þessarar stefnumótunar verði að Ísland gerist fullgildur aðili að Kyoto-bókuninni frá 12. des. 1997 við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

Á meðan þessi stefna er í mótun, sem þarna er gert ráð fyrir, verði ekki ráðist í orkufrekan iðnað umfram það sem þegar hefur verið samið um, og frestað verði að innleiða hér reglur Evrópusambandsins um innri markað í raforkumálum. Þetta eru megináherslur þingflokks óháðra varðandi framtíðarstefnu í orkumálum og þá stefnumörkun sem þarf að gera en sem ekki liggur fyrir af hálfu núv. hæstv. ríkisstjórnar öðruvísi en í þeim brotum sem þetta frv. er hluti af, þ.e. að sú stefna sem hæstv. núv. iðnrh. hefur framfylgt, að reyna að koma sem mestu af orku í landinu til nýtingar hjá málmbræðslum, hjá stóriðjufyrirtækjum. Þar eru í rauninni engin mörk dregin því að í þeim efnum hefur hæstv. núv. ríkisstjórn reynt að ganga sem lengst og ber grg. frv. þess ljósan vott hvaða hugmyndir eru þar uppi, því að fyrir utan það sem hér er verið að gera ráð fyrir sem markað fyrir orku frá þessum virkjunum, þá eru áformin um 480 þús. tonna álbræðslu á Austurlandi ítrekuð í þessari tillögu og er það út af fyrir sig athyglisvert í ljósi þess að reynt hefur verið að koma því á framfæri að aðeins sé um að ræða 120 þús. tonna álbræðslu. Það hefur þeim sem hér talar verið ljóst að það er aðeins fyrsti áfangi í stærri heild sem menn eru þar að tala um. Ríkisstjórnin hefur staðið í samningaviðræðum undir þeim formerkjum að þarna geti verið um allt að nærri 500 þús. tonna álbræðslu að ræða, og Norsk Hydro sýnt áhuga á enn þá stærra fyrirtæki eða upp í 720 þús. tonn.

Hins vegar er það svo að þessar ráðagerðir eru út í buska. Það liggur ekkert fyrir um það að Norsk Hydro ætli að fara í fjárfestingar hér á landi eða á Austurlandi sérstaklega. Sú spilaborg, því ég leyfi mér að kalla það því nafni, sem forusta Framsfl. reyndi að reisa fyrir tæpum tveimur árum og kynnti á ágústlok 1997, er hrunin. Hins vegar hefur Norsk Hydro eðlilega fallist á að ljúka þeim athugunum sem lagt var út í haustið 1997 og felur það auðvitað ekki í sér neitt annað en það að yfir þau mál verði farið.

Það er mjög athyglisvert í sambandi við þetta mál, virðulegur forseti, að hæstv. iðnrh. hefur nýverið látið embættismenn sína staðhæfa að í þeim fréttum sem hafa verið að koma fram undanfarna mánuði og síðast á stjórnarfundi Norsk Hydro þann 15. febr. sl., væru ekki neinar breytingar á ferðinni, þær fælu ekki í sér neinar breytingar í sambandi við þessi mál. En annað blasir við landsmönnum og annað segja menn, bæði af hálfu fyrirtækisins og þeir sem fá fréttir frá þeim og miðla þeim í norskum fjölmiðlum, þannig að það er öllum ljóst að hugmyndir um fjárfestingu í álbræðslu á Austurlandi á næstu árum eru fyrir bí og er það vel, virðulegur forseti, því að þar er um að ræða svo óábyrga stefnu að um það mætti hafa mörg orð.

Ég tel, virðulegur forseti, að það sé mikið óráð af hálfu okkar Íslendinga að ráðstafa meiri orku en orðið er í málmiðnað, í þungaiðnað í landinu. Við þurfum að fara yfir þá orku sem við hugsanlega höfum úr að spila, að teknu fullu tilliti og eftir að búið er að ganga frá stefnumörkun um hvernig gengið verði um náttúru landsins, hversu nærri náttúru landsins menn ætla sér að ganga eða ásættanlegt verður í þeim efnum, og ekki eigi að auka þarna neinu við. Fyrir utan það að þær hugmyndir um sölu sem liggja að baki þessu frv. byggja á því að afhenda og binda rjómann af íslensku vatnsafli hvað snertir hagkvæmni í sölusamningum sem fela í sér gjafverð á orkunni, útsöluverð á orkunni. Þetta er auðvitað hið mesta óráð, virðulegur forseti, að halda áfram þessari stefnu sem þarna er um að ræða.

Í öðru lagi, fyrir utan það að ekki á að binda meiri orku í stóriðju en orðið er, þá hefur hæstv. iðnrh. góðu heilli og nefnd á hans vegum verið að skoða möguleika á því að útrýma hér jarðefnaeldsneyti til lengri tíma litið. Slík nýting á okkar orkulindum fellur algerlega að þeim hugmyndum sem við höfum lagt fram í þingflokki óháðra, þ.e. að menn horfi til þess sem framtíðarverkefnis að innlend orka komi smám saman í staðinn fyrir innflutta orku þannig að við verðum sem allra mest óháðir innflutningi á jarðefnaeldsneyti. Við sláum með því tvær flugur í einu höggi, nýtum okkar orkulindir með sjálfbærum hætti til framleiðslu sem ekki veldur mengun, og drögum úr þeirri mengun sem hlýst af stóriðju, af þungaðinaði í landinu og veldur stórfelldri aukningu gróðurhúsalofttegunda.

Þegar litið er til þessa verkefnis, virðulegur forseti, og ég óska hæstv. iðnrh. til hamingju með að stigið er ákveðið skref til að þróa þessa möguleika, þá verða menn auðvitað að fara yfir það hvað þarf mikið til í orku til þess að ná því markmiði, sem ég held að við séum væntanlega sammála um að sé skynsamlegt, að hér verði vetnissamfélag í framtíðinni. Ég tek að vísu fram að menn þurfa auðvitað að horfa til annarra möguleika, vistvænna möguleika á nýtingu orkunnar, útrýmingu jarðefnaeldsneytis, m.a. með rafknúnum farartækjum, en sú þróun er nú á byrjunarstigi en lofar góðu. Þannig að hvort tveggja þarf að gerast.

Þarna er um að ræða, virðulegur forseti, mjög mikið magn orku sem til þarf. Við megum ekki binda orkulindir okkar frekar en orðið er í málmbræðslum með tilliti m.a. til þessa stóra verkefnis og þeirrar stefnumörkunar í umhverfismálum sem þarf að koma til í sambandi við hagnýtingu orkulindanna.

Í þáltill. okkar óháðra höfum við dregið fram upplýsingar sem Orkustofnun lét mér í té á síðasta ári um hvað mikið er þarna um að ræða, hversu mikið orkumagn ef ætti að útrýma núverandi innflutningi á jarðefnaeldsneyti til landsins. Það liggur á bilinu 10--20 tervattstundir eftir því hversu mikið kæmi fram í formi nýrrar tækni, þ.e. með efnarafölum. Ég hef í þeirri uppsetningu í grg. með tillögu okkar miðað við að þetta gætu verið 15 teravattstundir, eitthvað svoleiðis. Þá er ekki reiknað með aukningu í innflutningi eða aukinni orkuþörf heldur bara stöðunni 1996, eins og hún var í innflutningi olíu og jarðefnaeldsneytis. Og þá sjá menn að þarna er um mjög stórt mál að ræða. Þarna er um mjög stórar upphæðir að ræða í orkumagni.

Ef við lítum á þetta og þann 2% vöxt sem orkuspárnefnd er að gera ráð fyrir fram í tímann, allt til ársins 2025, 2050, þá blasir það við að við höfum í reynd engu að ráðstafa frekar en orðið er í formi frekari útfærslu á málmbræðslum í landinu, vegna þess að þar erum við í mjög vandasamri stöðu vegna umhverfismálanna. Þar eru viðhorf í landinu orðin allt öðruvísi en þau voru fyrir örfáum árum og ef menn meina í alvöru eitthvað með því að hlífa umhverfi landsins og taka tillit til kröfu þjóðarinnar um að draga úr áhrifum vegna orkunýtingar, ekki síst vatnsaflsvirkjana, þá verða menn að skoða þessi mál frá grunni í allt öðru ljósi en verið hefur.

[11:45]

Ég hef í umræddu þingmáli, sem er 12. mál þessa þings og er nú í hv. iðnn., dregið upp stöðuna að því er varðar hugsanlega stöðu, miðað við þær forsendur að útrýma jarðefnaeldsneytinu og að við hefðum enga viðbót frá núverandi stóriðju og miðað við 2% vöxt á ári, þá værum við árið 2025 farin að nýta, miðað við að hafa útrýmt um 50% af innfluttu eldsneyti á þeim tíma, 20 teravattstundir, en heildarforðinn eins og hann hefur verið metinn af Orkustofnun án tillits til umhverfisáhrifa er um 50 teravattstundir og er jarðhitinn til raforkuframleiðslu og vatnsaflið reiknað með. Að vísu hefur þessi tala verið hækkuð svolítið alveg nýverið hvað vatnsaflið snertir en það breytir engu í megindráttum hvað þetta varðar. Ef við erum að tala um að útrýma jarðefnaeldsneytinu miðað við núverandi notkun að fullu, þá erum við farin að nýta í þetta og almenn not í landinu 30 teravattstundir. Ég fullyrði, virðulegur forseti, að þar erum við komin yfir þau mörk sem líklegt er að ásættanleg teljist með tilliti til náttúru og umhverfis í framtíðinni, miðað við þá orkugjafa sem við erum að tala um, auðvitað geta fleiri komið inn í þá mynd í framtíðinni, vindur og sjávarföll o.s.frv., það eru möguleikar sem felast í framtíðinni. En við eigum að skoða þetta mál út frá þeim forsendum sem við höfum verið að ræða okkar orkumál fram að þessu og hættuna hér og nú við að binda stóra orkupakka í stóriðjufyrirtækjum við spurninguna um hversu langt verði gengið. Þeirri spurningu verða stjórnvöld að svara á næstu missirum. Eftir því er sterk eftirspurn í landinu og undan því á ekki að víkjast og það má heyra á ráðamönnum að þeir út af fyrir sig gjalda jáyrði við því sem verkefni að ná einhverri sátt um þessi mál. Ef menn meina eitthvað með því verður að ganga í verkið en það verður ekki gert með þeim hætti sem hæstv. iðnrh. leggur hér fyrir. Það er sagt að ósköp óveruleg umhverfisáhrif séu af þessum virkjunum. Þess þá heldur. Þá eigum við að gæta þess að vera ekki að binda þessa virkjunarkosti sem hafa lítil umhverfisáhrif í frekari málmiðnaði, þungaiðnaði. Algert óráð, virðulegur forseti.

Síðan ætla ég að koma að hinum stóra þættinum, virðulegur forseti, sem eru áhrif þessa þungaiðnaðar á alþjóðlegar skuldbindingar okkar, þ.e. á losun gróðurhúsalofttegunda. Miðað við þá stóriðju sem nú er í gangi og eftir þær viðbætur sem hæstv. iðnrh. er hér að gera ráð fyrir, þá förum við 16% fram yfir mörkin frá árinu 1990 sem eru viðmiðunarmörkin í hinum almenna rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, heil 16% fram yfir. Og ætli í því sem hér er felist ekki a.m.k. annað eins, án þess ég hafi gert á því úttekt. Við stöndum því frammi fyrir þeirri brennandi spurningu, virðulegur forseti, hvað ætla íslensk stjórnvöld að gera í samhengi loftslagssamningsins? Ætla íslensk stjórnvöld að staðfesta þann samning fyrir eindagann 15. mars og heita því þar með að verða samferða samfélagi þjóðanna í þessu stóra máli varðandi það að hamla gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum, eða ekki? Ef íslensk stjórnvöld ætla ekki að rita undir, og kannski veitir hæstv. iðnrh. okkur svar við þeirri brennandi spurningu hér og nú í þessari umræðu, ef menn ætla ekki að verða þátttakendur þar fyrir þennan eindaga þá hafa menn þann möguleika einan, ef þeir ætla að verða samferða einhvern tímann, að ganga að samningnum eins og hann er, þ.e. að staðfesta samninginn. Þá eru engin millistig með undirskrift og staðfestingu síðar. Þannig liggur málið eins og umhvrn. hefur túlkað það. Er það hugsanlegt að íslensk stjórnvöld ætli að skerast úr leik í þessu máli? Eftir því verður spurt, virðulegur forseti, og með ákvörðunum í þá veru sem liggja að baki þessu frv. er alveg ljóst að menn eru að segja sig úr þessari samfylgd, að hamla gegn loftslagsbreytingunum, að standa með alþjóðasamfélaginu í því afdrifaríka máli sem ekki snertir Íslendinga minna en aðrar þjóðir. Ef nokkuð er stöndum við kannski frammi fyrir enn þá háskalegri hlutum þar en víða gerist annars staðar í heiminum.