Raforkuver

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 12:10:53 (3846)

1999-02-18 12:10:53# 123. lþ. 69.3 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[12:10]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Lítt hugnast mér nú að hlýða á mál hv. þm. Péturs Blöndals þegar hann ræddi um umhverfisáhrif virkjana. En læt ég það nú vera.

Ég er sammála því sem hv. þm. drap á varðandi 2. mgr., þ.e. um þá aðferð sem bersýnilega vantar inn í frv. til þess að skera úr um það ef fleiri en einn aðili vilja mynda félag með Rafmagnsveitum ríkisins til að virkja þarna.

En af því að hv. þm. talaði mikið um að sovétfyrirkomulag væri ríkjandi í ýmsum atvinnugreinum og m.a. í orkugeiranum og hefði nú ekki haft mjög heillavænleg áhrif á framvindu þeirra greina, þá langar mig til þess að lesa hér fyrir hann það sem stendur á bls. 2 þar sem verið er að skýra út af hverju það eigi að fara þessa leið með Villinganesvirkjun. Þar er talað um að breytt viðhorf séu uppi, m.a. um að raforka eigi að nýtast þeim byggðarlögum þar sem hún verður til og síðan kemur skýringin á því af hverju verið er að gera þessa breytingu, með leyfi forseta:

,,... og með tilliti til samstarfs Rafmagnsveitna ríkisins við aðila í Skagafirði og nágrannabyggðum um virkjun Villinganess í því skyni að efla atvinnulíf á svæðinu.``

Hvað segir hv. þm. um þetta? Er þetta ekki partur af því gamla sovétskipulagi atvinnugreinanna sem hann var að ráðast gegn hérna? Ég get ekki lesið út úr frv. önnur rök fyrir því að það eigi að ráðast í þessa virkjun heldur en þau að það þurfi að efla atvinnulíf. Það eru einu rökin sem koma þarna fram. Mig langar til þess að inna hv. þm. eftir afstöðu hans til þessa.