Raforkuver

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 12:42:09 (3856)

1999-02-18 12:42:09# 123. lþ. 69.3 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[12:42]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég nenni ekki að fara í neitt skæklatog um stefnu eða stefnuleysi samfylkingarinnar. Það mun allt liggja fyrir fyrir kosningar og síðan kemur það í ljós í vor hvernig gengi hennar verður. Ég held að gengi hennar verði miklu meira en ég sjálfur átti von á fyrir svona sex vikum síðan. Ég held að þetta sé að verða að öflugri og sterkri hreyfingu sem jafnvel hinn kjarkaði hv. þm. Jón Kristjánsson hefur fyllstu ástæðu til að óttast í náinni framtíð.

Herra forseti. Ég ítreka það síðan að ég hef marglýst þeirri skoðun minni, alveg án tillits til þess hvað góðvinur hv. þm., hv. þm. Ágúst Einarsson, kann að segja um það mál, að ég er þeirrar skoðunar að það eigi að slá öllum stóriðjuáformum á frest og það eigi að endurmeta virkjunarstefnu Íslendinga. Það er alveg klárt.