Raforkuver

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 12:58:18 (3863)

1999-02-18 12:58:18# 123. lþ. 69.3 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[12:58]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi síðasta atriðið sem hæstv. ráðherra nefndi, þá liggur fyrir tillaga í umhvn. um að Alþingi álykti um málið, að skora á ríkisstjórnina að hlutast til um að samkvæmt lögum fari fram formlegt mat á umhverfisáhrifum. Formaður þeirrar nefndar, Ólafur Örn Haraldsson, hefur margoft lýst viðhorfum sínum í því. Ég treysti því að þessi tillaga verði afgreidd fyrir þinglok. Hæstv. umhvrh. hefur talað fyrir því að slíkt lögformlegt mat fari fram. Ég vona því sannarlega að þingviljinn fái framgang í þessu máli.

Í öðru lagi, varðandi Kyoto-bókunina, losun gróðurhúsalofttegunda og framleiðslu á vistvænu eldsneyti í framtíðinni, þá væri æskilegt að fram kæmi hjá hæstv. ráðherra hvort ríkisstjórnin fyrirhugar að staðfesta eða setja nafn sitt undir Kyoto-sáttmálann, viðaukann við sáttmálann um loftslagsbreytingar. Ég vona að hæstv. ráðherra geti tjáð sig um það í andsvari.

Í þriðja lagi, varðandi spurninguna um virkjanakosti, er alveg rétt og ekki ágreiningsefni milli okkar hæstv. ráðherra að mikla orku þarf til að framleiða hér vistvænt eldsneyti í framtíðinni. Það mikla orku þarf til þess að algert óráð er að ganga lengra í að beisla orkuna fyrir málmiðnað í landinu. Þá erum við að þrengja að náttúrunni eða að útiloka að við getum framleitt hið vistvæna eldsneyti sem um er að rætt. Af þeim sökum eiga menn ekki að ganga lengra. Menn verða að takmarka sig. Það þýðir ekki að vísa út í heim í sambandi við loftslagsmálin. Það eru mál sem þjóðríkin bera ábyrgð á í þessu samhengi með vissum sveigjanleika og Ísland jafnframt. Það þýðir ekki að segja að við munum fórna vistvænum orkugjöfum okkar til að bæta stöðuna á heimsvísu. Þannig gerast hlutirnir ekki í samhengi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna.