Raforkuver

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 13:00:42 (3864)

1999-02-18 13:00:42# 123. lþ. 69.3 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[13:00]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Örstutt. Ég vil gera athugasemd við þennan skilning hv. þm. á loftslagsbreytingasamningi Sameinuðu þjóðanna. Þar er um sameiginlega ábyrgð þjóða heims að ræða. Ef allir mundu horfa á samninginn út frá sér og eigin hagsmunum, þá yrði ekkert af slíkum samningi þannig að þar er um sameiginlega ábyrgð að ræða og það var til hinnar sameiginlegu ábyrgðar sem ég var að vitna þegar ég var að segja að okkar framlag gæti verið þetta, en ég geri mér grein fyrir því að um það er ekkert pólitískt samkomulag hér innan lands. En það væri okkar framlag í þá átt, með hreina og endurnýjanlega orkugjafa.

Varðandi spurninguna um Kyoto-bókunina þá er enn nægur tími því ekki er komið að því að fresturinn til að skrifa undir sé útrunninn. Menn mega ekki rugla því saman að skrifa undir eða staðfesta. Það er undirskriftartíminn sem rennur út 15. mars og ég býst við að það liggi fyrir jafnvel áður en þing fer heim hver afstaða ríkisstjórnarinnar verður til þess.