Raforkuver

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 13:06:56 (3868)

1999-02-18 13:06:56# 123. lþ. 69.3 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[13:06]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyrði það fyrr við þessa umræðu að það er auðvitað ekki hægt að krefjast þess af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að hann tali fyrir samfylkinguna í einstökum málum vegna þess að stefnan er ekki til og það muni einhvern tíma taka. Ég hafði hins vegar þá trú, a.m.k. fyrir prófkjörið í Reykjavík, að hv. þm. hefði verulega áhrif á það hvernig sú stefnumótun liti út. Það hefur hins vegar eitthvað dregið úr áhrifum hans í því efni eftir það prófkjöf en við sjáum nú til þegar þar að kemur.

Fyrir Alþingi liggur frv. til laga um raforkuver. Í því frv. er óskað eftir tveimur nýjum virkjanaheimildum, annars vegar tilfærslu á Villinganesinu. Þar þurfti ekki að fara fram mat samkvæmt ströngustu túlkun laganna um mat á umhverfisáhrifum. Það er hins vegar gert og gengið út frá því í þessu frv. að sá virkjanakostur skuli fara í mat á umhverfisáhrifum vegna þess að verið er að færa virkjanakostinn til frá Landsvirkjun, það er verið að taka réttinn af Landsvirkjun og færa hann yfir til annars fyrirtækis. Þess vegna fannst mér hárrétt að nota tækifærið um leið hér frá þinginu til að ákveða að nýi aðilinn skyldi þurfa að beygja sig undir það, þrátt fyrir lögin um mat á umhverfisáhrifum, að mat skyldi fara fram vegna þess að verið er að færa réttindin til frá einum aðila til annars.

Í hinu tilfellinu er rétturinn hjá Landsvirkjun. Málið er algjörlega í eðlilegum farvegi. Það er verið að rita frummatsskýrsluna sem er hlutverk framkvæmdaraðilans. Ég treysti mér ekki til að segja til um það á þessari stundu hvenær sú skýrsla verður til. Áætlanir voru uppi um það fyrri hluta hluta vetrar að hún yrði tilbúin um áramót, síðari hluta desember. Það hefur breyst. Það mun taka lengri tíma og sá tími getur verið af hinu góða vegna þess hún verður vandaðri þegar hún kemur fram.