Raforkuver

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 13:09:21 (3869)

1999-02-18 13:09:21# 123. lþ. 69.3 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[13:09]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það má a.m.k. gleðjast yfir þeim þroskamerkjum sem er að finna í ræðu hæstv. iðnrh. Drambið sem var einkennandi í umræðum af hans hálfu í lok síðasta árs er að mestu horfið. Við höfum fyrir framan okkur tiltölulega auðmjúkan og vel meinandi iðnrh. sem virðist hafa það ofarlega í sinni forgangsröð að koma þessari virkjun í eðlilegt og lögformlegt umhverfismat, þ.e. nú er ég að tala um Fljótsdalsvirkjun. En hvernig stendur á því að eftir allan þennan orðaflaum sem hefur farið milli manna um tveggja, þriggja klukkustunda skeið, hefur hæstv. ráðherra alltaf skotið sér undan því að svara spurningum sem ég og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson höfum beint til hans um þetta umhverfismat á Fljótsdalsvirkjun? Ég spyr hæstv. iðnrh. í fimmta sinn í þremur eða fjórum ræðum sem millum okkar hafa farið. Ég spyr hann í fimmta sinn: Hyggst hann beita sér fyrir því að Fljótsdalsvirkjun verði sett í lögformlegt umhverfismat? Og ef hann hyggst ekki gera það, hvar er þá að finna merki um þann sáttavilja sem hæstv. ráðherra sagði sjálfur í framsöguræðu sinni að væri fyrir hendi hjá honum gagnvart þeim andstæðingum hans sem hann hefur mætt á síðustu mánuðum í umræðum um orkumál og hálendið? Mér þætti vænt um að hæstv. ráðherra lyki ekki þessu máli án þess að svara þessari spurningu. Ef ekki þá er ég reiðubúinn að vera hér lengi dags og koma með hana fimm sinnum í viðbót.