Raforkuver

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 13:11:09 (3870)

1999-02-18 13:11:09# 123. lþ. 69.3 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[13:11]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ef ræðurnar eru orðnar fimm, þá held ég að ég hafi tekið fram í þeim öllum að málið væri í alveg eðlilegum og löglegum farvegi (ÖS: Hyggstu beita þér fyrir því?) vegna þess að framkvæmdaaðilinn á að sjá um að gera frummatsskýrsluna. Frummatsskýrslan er síðan lögð fram og þá kemur fyrst að þeirri ákvörðun hvernig hún verði kynnt, hvort hún fari þá í kynningu samkvæmt lögunum um mat á umhverfisáhrifum. Að þessari ákvörðun er ekki komið og ég fann að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson var alveg rólegur yfir þessu öllu saman, ekki nærri eins órólegur eða a.m.k. miklu rólegri en hv. þm. Össur Skarphéðinsson, vegna þess að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson er með till. til þál. hér í þinginu --- hann var að tala fyrir henni áðan --- í umhvn., (Gripið fram í.) um að þetta skuli gera. Þess vegna er það svo, hv. þm., að það er ekki iðnrh. að taka ákvörðun um þetta og það hef ég margoft farið hér yfir. Það er Alþingis að taka ákvörðun um það að taka þennan rétt sem Alþingi afhenti Landsvirkjun á sínum tíma. Og ef það á að afturkalla réttindin þarf að taka þau af með lögum frá þinginu.