Jafnréttislög

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 14:15:47 (3877)

1999-02-18 14:15:47# 123. lþ. 69.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[14:15]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég kýs að koma í stutt andsvar vegna orða félmrh. þar sem ég sé að ég er aftarlega á mælendaskrá í þessu máli og fundi verður ekki fram haldið mjög lengi í dag þannig að væntanlega kemst ég ekki að fyrr en þetta mál verður tekið fyrir aftur.

Vegna þessara orða ráðherrans vil ég taka undir það að málið er afskaplega mikilvægt og sumum okkar mjög kærkomið. Þetta er mál sem Alþingi ætti að ræða mjög ítarlega, helst bæði karlar og konur. Þetta er mál sem á að fá góða umfjöllun í nefnd og góðan tíma og helst eigum við öll að vera sátt við afgreiðslu þess því það er í eðli sínu ekki mál stjórnar og stjórnarandstöðu.

Að þessum orðum töluðum hefði ég kosið að ráðherrann hefði valið það að fulltrúar stjórnarandstöðunnar kæmu að vinnslu málsins. Hann kaus að hafa þetta ekki þannig og þarf ég ekki að rekja það frekar. En vegna þeirra orða minna að stjórnarandstaðan hefur ekki komið öðruvísi að málinu en vera boðuð á fund og vegna þess hve mér finnst þetta mikilvægt mál þá þykir mér miður hve seint það kemur fram. Hins vegar sýnist mér að í frv. séu mörg nýmæli. Þar eru mörg atriði sem mér finnst jákvæð þó að e.t.v. eigum við eftir að ræða og takast á um einhver sérstök, afmörkuð ákvæði frv.

Ég mun leggja mitt af mörkum til þess að hægt verði að vinna málið og ljúka því fyrir þinglok. En öllum ráðherrum sem hafa verið að mæla fyrir málum þessa dagana finnst þeir vera að koma með mjög mikilvæg mál og okkur eru miklar skorður settar þannig að það þarf gott samkomulag og mikla samvinnu til að þetta geti orðið.