Jafnréttislög

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 14:20:35 (3880)

1999-02-18 14:20:35# 123. lþ. 69.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[14:20]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Á þessum síðustu og verstu tímum er reyndar nokkuð flókið að átta sig á hverjir eru í hvaða þingflokki. Það er mikil hreyfing á fólki og þingflokkarnir eru ekki þeir sömu og voru hér að störfum í haust þegar þessi vinna fór af stað. (RG: Flestir eru nú enn þá í stjórnarandstöðu.) Ekki allir.

Ég vil ítreka það að þrátt fyrir að það hafi verið formleg afstaða sumra forustumanna í stjórnarandstöðunni að vilja ekki ræða við nefndina sem undirbjó frv. þá þáðu ýmsir stjórnarandstæðingar þetta boð og komu með mjög gagnlegar athugasemdir og ábendingar og á þeim var að sjálfsögðu tekið mark.

Það er svo annað mál að þegar verið er að vinna slíka endurskoðun á lögum þá er alltaf spurning hvað skynsamlegt sé að hafa þann hóp stóran sem á að draga vagninn, þ.e. þegar mjög stórar nefndir standa að endurskoðun eða vinna verkið þá geta menn vafið það meira fyrir sér og vinnan þarf ekki að verða skilvirkari þó að margir séu samábyrgir fyrir að klára verkið.

Hitt er svo aftur mikilvægt að þeir sem eru í fyrirsvari og koma að vinnunni leiti eftir skoðunum annarra.