Jafnréttislög

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 14:22:38 (3881)

1999-02-18 14:22:38# 123. lþ. 69.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[14:22]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er komið á dagskrá frv. til nýrra jafnréttislaga. Ég get ekki annað en lýst ánægju minni með að við skulum fá tækifæri til að ræða stöðu þeirra mála og get lýst því hér í upphafi míns máls að ég er að flestu leyti ánægð með frv. Hér er um margvíslegar nýjungar að ræða og ég held að það væri mikill fengur að því að fá frv. samþykkt. En það verður að viðurkennast að tíminn sem við höfum til stefnu er ákaflega stuttur og við verðum að sjá hvernig málið vinnst.

Hér er verið að gera ýmsar breytingar. Það er kannski rétt að minna á að frá því að forveri jafnréttislaganna, þ.e. frv. Svövu Jakobsdóttur, var samþykkt árið 1976 hafa margsinnis verið gerðar breytingar á jafnréttislögunum, síðast árið 1991. Þau lög sem við nú styðjumst við eru frá 1991, en það hafa verið gerðar breytingar á þeim.

Stóra spurningin við jafnréttislögin og það sem mér finnst að við þurfum að glíma við við meðferð þessa frv. er framkvæmdin. Í raun og veru finnst mér framkvæmd jafnréttislaga vera mesti vandinn. Við höfum góð lög og fallegan lagabókstaf en það hefur gengið heldur illa að fá þeim lögum framfylgt. Og það er einmitt vakin athygli á því greinargerðinni, í athugasemdum við lagafrv. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Meginástæðan fyrir endurskoðun laganna var tvíþætt, annars vegar þær breytingar sem orðið hafa í jafnréttismálum, jafnt breytingar á verkefnum og aðferðafræði, frá því að núgildandi lög tóku gildi og hins vegar sú staðreynd að þrátt fyrir lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hefur lítið miðað í jafnréttisátt á ýmsum mikilvægum sviðum samfélagsins.``

Þetta er kjarni málsins, hvernig hægt sé að styrkja lagabókstafinn þannig að hægt verði að ýta á framkvæmd laganna. Mér finnst að við þurfum að skoða sérstaklega í vinnu nefndarinnar hvort hér sé gengið nógu langt í því að styrkja framkvæmdina og hvort þær breytingar sem hér er verið að leggja til muni verða til þess að við megum frekar vænta þess að jafnréttislögin verði virt.

Ég tel mjög mikilvægt að í frv. eru komnar nýjar skilgreiningar. Það eru ný markmið. Það er verið að taka skýrar á ýmsum málum, samanber skilgreiningu á kynferðislegri áreitni. Það er verið að herða á ýmsum málum. Ég nefni 12. gr. þar sem sérhverju ráðuneyti er skylt að skipa jafnréttisfulltrúa. Ég held að það sé mjög gott mál að einhverjir í stjórnkerfinu og í ráðuneytunum fylgist með stöðu mála á hverjum stað. Við erum að fjalla annars vegar um stjórnkerfið, það sem snýr að stjórnkerfinu og hlutverki stjórnvalda, og hins vegar það sem snýr að skólunum og vinnumarkaðnum, þ.e. það sem er utan hins hefðbundna stjórnkerfis.

Ég vík fyrst að því kerfi sem hér er verið að koma upp. Það er töluverð breyting á núverandi kerfi og ein af spurningunum sem vakna er: Hvers vegna er verið að breyta kerfinu á þennan hátt og verður þessi breyting til þess að efla umræðuna og gera framkvæmd jafnréttislaganna skilvirkari?

Hér er um það að ræða að Skrifstofa jafnréttismála verður gerð að meiri stofnun en hún er nú. Jafnréttisráð er skilið frá og það fær breytt hlutverk. Eins er kærunefndinni breytt í úrskurðarnefnd jafnréttismála sem fær þá meira vægi. Það hefur einmitt verið einn vandinn að kærunefndin hefur ekki haft vald, hún hefur fellt sína úrskurði en síðan hefur fólk orðið að leita til dómstólanna og þarf þess svo sem áfram ef þeir sem úrskurðirnir snerta verða ekki við eða virða ekki úrskurðina. Auðvitað getur komið til þess í framhaldinu.

Við getum spurt okkur að því hvernig þessi skipting muni reynast. Ég held að það sé einfaldlega best bara að láta á það reyna, sjá hvernig þetta virkar.

Töluverð breyting verður á Jafnréttisráði. Það verður áfram sjö manna ráð en skipað öðruvísi en áður, annars vegar samkvæmt tilnefningum, einn fulltrúi skipaður af ráðherra og síðan þrír kjörnir á jafnréttisþingi. Mér finnst það vera mjög góð breyting. Ég er mjög sátt við það, sátt við að aðilar vinnumarkaðarins fari út og þeir sem raunverulega eru að vinna að þessum málum og hafa áhuga á þeim komi í Jafnréttisráð. Ég held að það sé góð breyting. Ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að ég hef ekki orðið vör við að verkalýðshreyfingin eða Vinnuveitendasambandið hafi lagt jafnréttisbaráttunni mikið lið með setu sinni þarna og stundum lagst á ýmis mál. Það verður bara að segja það alveg eins og er. Og þeir hafa auðvitað ekki áskrift að öllum nefndum og ráðum.

Ég ætla ekki að fara hérna í hvert einasta atriði eða það sem velta má vöngum yfir. Ég velti því aðeins fyrir mér varðandi 3. gr., hvort veita hefði átt einhvers konar lagastoð fyrir karlanefndina. Í 3. gr. um Skrifstofu jafnréttismála segir í e-lið, að það eigi að ,,auka virkni í jafnréttismálum, m.a. með aukinni aðild karla að jafnréttisstarfi`` og kannski er það betra og nóg að möguleikarnir séu ýmsir. Það verður forvitnilegt að heyra hvað karlanefndin segir um þetta, hvort hún vildi sjá sín að einhverju getið í lögunum. En auðvitað eru það skrifstofan og Jafnréttisráð sem eiga að koma með tillögur um verkefni og hvers er þörf á hverjum tíma.

[14:30]

Því má velta fyrir sér hvort jafnréttisþingið eigi að vera opið. Ég skil það svo að það sé fyrst og fremst ætlað ýmsum fulltrúum félagasamtaka og annarra. Ég á ekki von á því að áhugasömum yrði meinuð þátttaka og má huga að því hvort það eigi að vera opið en auðvitað snýst þetta um hverjir muni hafa kosningarrétt til þess að kjósa fulltrúa þingsins.

Varðandi 14. gr. þar sem komið er að vinnumarkaðnum, og ég ætla bara að skauta yfir þetta, hæstv. forseti, til þess að koma að launamálunum sem mér finnst vera eitt stærsta málið í þessu öllu saman. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Atvinnurekendur og stéttarfélög skulu vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.``

Hvað þetta varðar er ljóst að við eigum mjög langt í land og einmitt þarna vaknar spurningin um hvernig hægt er að fylgja málum eftir. Hvaða stöðu hafa Skrifstofa jafnréttismála, jafnréttisþingið og úrskurðarnefndin til þess að ýta á vinnumarkaðinn? Ég verð að segja það sem skoðun mína og það er tilfinning mín að búið sé að koma mjög skýrt til skila út í samfélagið því atriði að konur eigi að vera fulltrúar. Konur eigi að vera á þingum, í sveitarstjórnum og víðar þar sem þær sinna fulltrúahlutverki en hvað varðar stöðu kvenna á vinnumarkaði eigum við gríðarlega mikið óunnið. Því finnst mér að það þurfi að huga mjög rækilega að því hvernig hægt er að fylgja nákvæmlega þessari grein betur eftir.

Í framhaldinu segir: ,,Fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn skulu setja sér jafnréttisáætlun til þriggja ára í senn.`` Þetta finnst mér vera gott ákvæði og þarf að fylgja því eftir að fyrirtækin geri þetta.

Í 17. gr. er komið inn á samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Ég var einmitt fyrir tveimur dögum að mæla fyrir tillögu sama efnis þar sem ég var að reyna að skilgreina þessi verkefni og hvað átt væri við með þessu og þarna er einmitt annað atriði sem þarf að beina mjög sterklega til vinnumarkaðarins og fylgja eftir.

Varðandi menntun og skólastarf er það skoðun mín að þar sé líka mjög margt óunnið, en öll þessi atriði eru í samþykktri framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum en enn og aftur kemur að þessu sama: Hvernig er lögunum framfylgt? Hvaða tæki hefur ríkisvaldið til þess að fylgja þeim eftir? Það er fyrst og fremst það sem á skortir.

Ég ætla ekki að víkja að fleiri atriðum nema því sem snertir launamálin og launajafnrétti. Það hefur lengi verið í jafnréttislögum og er reyndar í mun eldri lögum ákvæði þess efnis að greiða beri körlum og konum sömu laun fyrir sömu vinnu eða jafnverðmæt störf eins og það hefur jafnan verið orðað síðan. Ef ég man rétt eru fyrstu lögin frá 1961 og voru flutt af Hannibal Valdimarssyni. Hann var baráttumaður jafnréttis og er ágætt að minnast þess.

En þó að svo lengi hafi verið ákvæði í íslenskum lögum er langt í frá að hér ríki launajafnrétti. Nýlega birtist yfirlit frá Þjóðhagsstofnun um tekjur, eignir og dreifingu fyrir árin 1996 og 1997 þar sem dregið er út úr skattframtölum hvernig staðan er núna. Það er alveg ömurlegt að horfa á þessi línurit. Á tímabilinu frá 1980--1997 hefur varla orðið nokkur breyting, á 18 eða 19 ára tímabili er breytingin sáralítil. Hún er þó aðeins hvað varðar meðaltalið, að hlutfall atvinnutekna kvenna, miðað við tekjur karla, hefur hækkað úr 46,6% í 52,2%. Auðvitað er um að ræða meðaltöl, þetta er óháð vinnutíma, þetta eru bara hrein og klár meðaltöl. Við vitum að í þessum tölum er munur sem er ekki hægt að skýra með neinu öðru en kynferði og er óþolandi að þetta skuli viðgangast ár eftir ár. Ég minni á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er ákvæði þess efnis að á því kjörtímabili sem nú er alveg að renna út skuli sérstaklega unnið að því að útrýma launamisrétti kynjanna en ég fæ ekki séð að nokkur skapaður hlutur hafi gerst í því.

Ég hef stundum minnst á það, oftar en einu sinni, að hér eru aldagömul lögmál á ferðinni og þegar við förum aftur til 13. aldar var launahlutfallið mjög svipað. Það var mjög svipað um síðustu aldamót og það er svona enn. Það er eins og hinn frjálsi markaður eða aðilar vinnumarkaðarins eða ríkisvaldið leitist mjög við að viðhalda þessum mun. Þetta er einn af strúktúrum samfélagsins sem virðist vera óskaplega erfitt að breyta en er hægt að breyta og það hefur verið gert í öðrum löndum. Hér þarf að taka rækilega á og fyrst og fremst með því að ríki og sveitarfélög gangi á undan með góðu fordæmi og jafni þennan launamun en því miður hefur hann aukist. Kannanir sýna að hann hefur aukist og ekki síst hjá þeim sem hafa meiri menntun.

Í þessu línuriti Þjóðhagsstofnunar er mjög athyglisvert að laun einhleypra kvenna hækkuðu á tímabili, þær voru að nálgast karlana heldur meira en síðan tók þetta hlutfall að lækka. Á síðustu árum hefur hlutfall þeirra launa sem einhleypar konur hafa lækkað og það eru konur ábyggilega að mestu leyti í fullu starfi því að ég hygg að afar fáar einhleypar konur geti leyft sér að vera í hálfu starfi og hvað þá einstæðar mæður. En þegar við horfum á allar konur og alla karla er staðreyndin sú að launabilið hefur aukist og þeim konum fjölgað sem eru í fullu starfi og hlutur hlutastarfanna hefur verið minnkandi.

Ég vildi vekja sérstaka athygli á þessu, hæstv. forseti. Mér finnst þetta vera eitt brýnasta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir í baráttu kvenna fyrir jafnri stöðu og bættri stöðu. En það virðist þokast ákaflega lítið og jafnvel aftur á bak í sumum efnum. Mjög margt spilar þarna inn í en við hljótum að bera okkur saman við aðrar þjóðir og þar erum við einfaldlega aftar á merinni. Við erum aftar á merinni en bæði Norðurlandaþjóðirnar og Bandaríkin, þar sem ég þekki til, þar sem þetta hlutfall er töluvert hærra og þetta kynbundna launamisrétti eða launamunur er minni en hér. Hann er þó til staðar því að við erum að tala um alþjóðlegt fyrirbæri sem er þessi launamunur kynjanna sem, eins og ég nefndi áðan, á sér aldagamlar rætur. Við þurfum þess vegna að velta því rækilega fyrir okkur í þeirri yfirferð sem fram undan er um þetta frv. hvernig hægt er að sjá til þess að þessum lögum verði betur framfylgt en hingað til.

Eins og ég hef áður sagt finnst mér að þær breytingar sem verið er að leggja til séu allar til bóta. Ég get ekki látið hjá líða að nefna að það er t.d. verið að taka hér upp sektir, sem er nýmæli, og er þá hægt að dæma aðila í sektir sem brjóta jafnréttislögin. Gaman verður að sjá hvort þessari lagagrein verður beitt í framtíðinni.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, hæstv. forseti. Fróðlegt verður að sjá hvaða viðbrögð þetta frv. fær og hvaða athugasemdir koma fram. En ég vil hafa það lokaorð mín að ég tel að hér sé um það mörg nýmæli og merk að ræða að það væri mjög til bóta að við næðum að afgreiða þetta frv. fyrir vorið en því er ekki að leyna að það er mjög seint á ferðinni.