Jafnréttislög

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 14:44:41 (3884)

1999-02-18 14:44:41# 123. lþ. 69.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[14:44]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Sumt fólk hefur fundið sannleikann. Og það þarf ekki að spyrja. Sannleikurinn er þarna og síðan skal honum haldið fram hvað sem á dynur.

Ég tel mjög mikilvægt að þegar hv. þm. kemst að því að það er enn þá nánast sama staða og fyrir 20 árum, að hún velti kannski vöngum yfir því hvort sannleikurinn sem hún heldur fram sé hugsanlega rangur og hún fari að spyrja spurninga. Getur verið að eitthvað annað valdi þessu? Það finnst mér mjög mikilvægt. Og að tala um að það séu 200 ár síðan þessi barátta hófst. Það eru 200 ár síðan baráttan fyrir frelsi einstaklingsins hófst, fyrir mannréttindum einstaklingsins, ekki bara kvenna. Það skyldi ekki vera að við séum í rauninni að berjast fyrir jafnrétti fólks en ekki jafnrétti kvenna?