Jafnréttislög

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 14:45:37 (3885)

1999-02-18 14:45:37# 123. lþ. 69.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[14:45]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef heyrt þessa ræðu þingmannsins nokkuð oft. Hann hefur iðulega komið inn á þetta mál. (PHB: Ekki skilið hana.) Nei, það er vegna þess að hv. þm. skilur ekki hvernig þjóðfélagið er upp byggt og á hvaða sögulega og siðferðilega grunni við byggjum. Andstæður í þjóðfélaginu eru margvíslegar. Við getum horft á ýmsa hópa í samfélagi okkar og við þurfum alltaf að gæta þess að tekið sé tillit til þeirra. Andstæðurnar birtast m.a. í því sem snýr að körlum annars vegar og konum hins vegar. Við gætum eins talað um fatlaða, þá sem hafa orðið undir í þjóðfélaginu, bændur o.s.frv. Við þurfum að skoða ýmsa hópa.

Ég er hins vegar ekki sammála hv. þm. um mannréttindabaráttuna. Hún hófst miklu fyrr meðal karla. Það má m.a. sjá á því þegar Englendingar hálshjuggu konunginn 1688 eftir mikla baráttu sem þá hafði staðið um lýðréttindi, réttinn til þess að stjórna. Sú barátta hafði lengi staðið yfir án þess að mönnum fyndist hún koma konum nokkurn skapaðan hlut við. Það tók býsna langan tíma að fá viðurkennt að mannréttindi, rétturinn til þess að sjá fyrir sér, til að ráða yfir launum sínum, til að hafa einhver áhrif á uppeldi barnanna sinna eða yfirleitt að ráða yfir þeim, kæmi konum nokkurn skapaðan hlut við. Við erum þannig að tala um mjög gamlar hefðir og þjóðfélagsskipan sem á rætur sínar að rekja langt aftur í aldir. Það hefur og mun kosta konur mikla baráttu að öðlast þann rétt að ráða lífi sínu sjálfar, geta ráðið hvað þær eru og hvað þær gera.