Jafnréttislög

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 15:19:17 (3889)

1999-02-18 15:19:17# 123. lþ. 69.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[15:19]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig ekki á hverjum degi sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson kemur hér upp og lýsir því yfir að hann sé sammála mér. Ég veit ekki hvort það á að vera áhyggjuefni fyrir mig eða hvort það segir meira um mig eða hv. þm. Hjörleif Guttormsson að við skulum vera orðnir sammála.

Varðandi það sem hann sagði um umboðsmann jafnréttismála, þá er það auðvitað rétt að ekki á að hengja sig í formið. Ég held að við eigum að stíga þau skref sem í frv. eru og láta reyna á þau. Sé umboðsmaður Alþingis sokkinn í verkefnum er það okkar hlutverk á hv. Alþingi að reyna að hjálpa honum til þess að komast fram úr þeim. Og ég efast ekkert um að við munum í framtíðinni takast á við það verkefni og leysa það vel.