Svör við fyrirspurnum

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 10:38:22 (3896)

1999-02-19 10:38:22# 123. lþ. 70.97 fundur 278#B svör við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[10:38]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna algerlega óviðunandi svars sem mér hefur borist við fyrirspurn sem beint var til hæstv. fjmrh. Nú er það svo að Alþingi setur lög en Alþingi á einnig að sinna aðhalds- og eftirlitshlutverki gagnvart ríkisstjórn og framkvæmdarvaldi. Í þeim anda hefur á liðnum árum margsinnis verið spurt um einkavæðingu á vegum ríkisstjórnarinnar og í framhaldinu hefur stundum verið talað um einkavinavæðingu þegar mönnum hefur þótt að verið væri að hygla einstaklingum og fyrirtækjum í tengslum við einkavæðingu eða pólitíska hagræðingu í stofnunum hins opinbera.

Oft hefur komið í ljós hve mikilvægt er að upplýsingar um opinber viðskipti séu ekki felumál. Eitt þeirra fyrirtækja sem virðist hafa verið í sérstöku uppáhaldi hjá ríkisstjórnum Davíðs Oddssonar er VSÓ-verkfræðistofan en til þess að fá upplýsingar um viðskipti ríkisstjórnarinnar við þetta fyrirtæki beindi ég tveimur einföldum spurningum til hæstv. fjmrh.:

1. Hvaða verkefnum hefur VSÓ-verkfræðistofan sinnt fyrir opinberar stofnanir frá árinu 1991 og fram á þennan dag?

2. Hve miklar greiðslur hefur VSÓ fengið fyrir verk sín í heild og hvernig skiptist sú fjárhæð eftir einstökum verkum og ráðuneytum?

Nú bregður svo við að ríkisstjórnin neitar að gefa þessar upplýsingar. Að vísu kemur fram hve mörg þúsund millj. kr. er árlega varið til aðkeyptrar ráðgjafarþjónustu en neitað er að upplýsa um sundurgreiningu.

Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni mjög alvarlegt mál. Þetta er grundvallarmál og ég beini þeirri spurningu til hæstv. forseta þingsins hvort hann hafi tekið eftir þessu svari og hvort hann hafi tekið afstöðu til þeirra grundvallarsjónarmiða sem um er að tefla. Ég leyfi mér að beina því til hæstv. forseta að forsn. þingsins fjalli um þetta mál, taki afstöðu til þess og greini Alþingi frá því strax í upphafi næstu viku.