Svör við fyrirspurnum

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 10:53:51 (3907)

1999-02-19 10:53:51# 123. lþ. 70.93 fundur 281#B svör við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[10:53]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég átti þess því miður ekki kost að vera hér við upphaf fundarins en varð þess áskynja að gerð var athugasemd við svar sem ég hef lagt fram við fyrirspurn frá Ögmundi Jónassyni, um verkefni tiltekins fyrirtækis hér í bæ. Reyndar er hér um að ræða tvær fyrirspurnir og er verið að útbýta svari við hinni síðari sem kemur frá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni, um verkefni annarra fyrirtækja á sama sviði. Þetta eru tvær fyrirspurnir nákvæmlega sama eðlis um viðskipti tiltekinna verkfræðistofa, annars vegar nafngreinds fyrirtækis og hins vegar allra hinna.

Nokkuð er orðið um liðið síðan þessar fyrirspurnir komu fram og ekkert launungarmál að ástæðan fyrir því að dregist hefur að útbýta svari er sú að hér koma til umfjöllunar upplýsingar um viðskipti eða einkahagsmuni tiltekinna aðila. Eftir mjög ítarlega lögfræðilega athugun í fjmrn., þar sem m.a. hefur verið höfð hliðsjón af merku áliti prófessors Stefáns Más Stefánssonar sem hann skrifaði í fyrra að beiðni forsrh. og var dreift hér sem þingskjali út af öðru máli, varð niðurstaðan sú að ekki væri heimilt að veita upplýsingar um einkahagsmuni eins og hér eru í húfi. Það var ekki talið heimilt á grundvelli upplýsingalaganna. Enda þótt hér væri um að viðskipti opinberra aðila sem væru opinber, þá væri skv. 5. gr. upplýsingalaganna ríkari skylda að vernda þessa hagsmuni. Það er ástæðan fyrir því að svarið er eins og það er.

Svarið við báðum fyrirspurnunum er eins, efnislega. Það er ekki farið út í að sundurliða greiðslur til einstakra fyrirtækja eins og um er beðið.

Ég geri mér grein fyrir því, eins og þegar er fram komið, að þetta er ekki óumdeild túlkun. Þetta er hins vegar sú niðurstaða sem við komumst að að þrautskoðuðu máli, að við værum komin út á mjög hálar brautir ef við veittum í svörum til Alþingis upplýsingar um viðskipti einstakra fyrirtækja við hið opinbera. Það er ekki um það að ræða eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir gaf í skyn, að þetta væri óþægilegt mál, hvorki fyrir mig né aðra ráðherra. Hér er ekkert slíkt á ferðinni. Ástæðan er sú sem ég hef rakið hér.