Jafnréttislög

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 11:42:10 (3916)

1999-02-19 11:42:10# 123. lþ. 70.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[11:42]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að veikleikinn í röksemdafærslu hv. þm. liggi að nokkru leyti í því að hv. þm. gefur sér að fyrirtækin séu almennt framsýn, víðsýn og horfi til lengri framtíðar þegar þau eru að gæta hagsmuna sinna. Er ekki hv. þm. að horfa fram hjá þeirri staðreynd að því miður eru skammtímagróðasjónarmið allt of oft ráðandi í þessu tilviki? Og þá lítur dæmið iðulega þannig út hjá fyrirtæki sem horfir bara til næstu missira, að það er dýrt að ráða starfsmenn, þjálfa þá upp, ef verulegar líkur eru á því að þeir detti síðan út úr vinnu vegna barneigna í stórum stíl og að ráða þurfi aðra í staðinn o.s.frv. Þarna í liggur einn veikleikinn.

Nú get ég að vísu verið sammála hv. þm. um að það á kannski ekki að vera frumskylda fyrirtækjanna umfram aðra í þjóðfélaginu að tryggja jafnrétti. Ég held að þetta sé verkefni af því tagi þar sem við náum ekki árangri nema til komi víðtækt samstarf allra, þar með talið auðvitað atvinnulífsins og fyrirtækjanna. Þetta er ekki bara spurning um markaðshyggju og gróða. Þetta er spurning um félagsleg viðhorf og andrúmsloft í samfélaginu. Þetta er spurning um kynslóðir, uppeldi og margt í senn. Löggjöfin þarf að sjálfsögðu að vera þarna til staðar og í raun þátttaka allra aðila samfélagsins í því verkefni að eyða þessum mun og láta þetta kynbundna misrétti hverfa, þannig að t.d. á vinnumarkaði hætti algjörlega að skipta máli af hvoru kyni starfsmaður er gagnvart hagsmunum fyrirtækjanna þegar í hlut eiga barneignir, veikindi barna eða annað slíkt. Þetta er ekki í lagi fyrr en fyrirtækin geta hætt að hugsa um þá hluti og horft eingöngu á hæfni starfsmannanna, óháð kyni.