Jafnréttislög

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 11:46:28 (3918)

1999-02-19 11:46:28# 123. lþ. 70.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[11:46]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil segja það í upphafi máls míns að ég er ánægður með frv. sem hér er lagt fram. Mér sýnist að í því sé reynt með ýmsu móti að tryggja jafnrétti kynjanna og má kannski segja á þeim forsendum að reynt sé með opinberum aðgerðum að hafa eftirlit og með löggjöf reynt að skylda menn til þess að tryggja jafnrétti kynja og jafnrétti innan fyrirtækja í einka- og opinberum rekstri eins og kostur er. Það er samt staðreynd og kom reyndar fram í andsvörum núna rétt áðan að ungar konur kvarta mjög í atvinnurekstrinum og í einkageiranum yfir því að á þeim sé brotið og að gerðar séu til þeirra óeðlilegar kröfur umfram karlmenn. Ég þekki þess dæmi, herra forseti, að ungar konur hafi beinilínis ekki verið ráðnar nema þær hafi gefið yfirlýsingu um að þær myndu ekki eiga börn næstu tvö eða þrjú ár. Þá er að sjálfsögðu í flestum tilfellum um störf að ræða sem eru yfirmannastörf þar sem mannaforráð eru skilyrði, en eigi að síður ef um væri að ræða karlmann sem tæki að sér sambærilega stöðu, þá væri hann ekki spurður slíkra spurninga eða sett sem skilyrði að hann eignaðist ekki börn næstu tvö til þrjú árin til að hann hlyti starfið.

Það er að sjálfsögðu mikið vandamál hvernig á að koma í veg fyrir að svona skilyrði séu sett konum en ekki körlum, eða svona skilyrði yfirleitt. Eigi að síður held ég þetta sé nú vandinn í hnotskurn og stöðvi konur á framabraut þannig að þær beinlínis hætti við að reyna að öðlast frama eða komast til æðstu metorða vegna slíkra skilyrða og sjónarmiða atvinnurekenda yfirleitt. Ekki hef ég beinlínis svör við því hvernig eigi að leiðrétta þetta en ég held nú samt að það væri hægt í löggjöfinni með einhverju móti að bæta eða greiða einhvers konar fæðingarorlof til fyrirtækja þannig að þau óttist ekki fjárhagslegan skaða af því að ráða fólk á þessum aldri til starfa, því þetta er allt spurning um fjármagn eins og hv. þm. Pétur Blöndal sagði hér áðan. Oftast nær má kannski segja að menn líti svo á að margir verðmætir einstaklingar séu gjaldgengir í sama starfið þó svo að einn sé ráðinn eftir vissa athugun. Ég hefði gjarnan viljað að hv. félmn. kannaði sérstaklega skilyrði sem ungar konur þurfa að sæta til að fá stöðu hjá fyrirtækjum, þ.e. þau skilyrði að þær eigi ekki börn á næstum tveimur til þremur árum eða tilteknum árafjölda. Þetta er náttúrlega bannað en þetta er samt sem áður gert. Ég held að þetta sé mesti vandi jafnréttisbaráttunnar í dag, þ.e. þessi afstaða fyrirtækja gagnvart barneignum, að sjálfsögðu fyrst og fremst kvenna. Karlar eru alls ekki spurðir svona þótt þeir eigi börn jafnt og kvenfólk, þótt þeir ali þau ekki af sér.

Maður veltir náttúrlega öðru fyrir sér í þessu sambandi og það er hverjir eiga fyrirtæki í dag og hafa yfirleitt átt fyrirtæki. Í einkageiranum eiga oftast nær karlmenn fyrirtæki, stjórna þeim og auðvitað þarf að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að auka hlut kvenna í fyrirtækjarekstri, þ.e. að þær eignist og stofni sín eigin fyrirtæki og stjórni þeim sjálfar á sínum eigin forsendum. Það vill oft vera þannig að karlmenn sem stofna fyrirtæki ráða vini sína eða aðra karlmenn til að starfa næst sér og oft liggur nú í þessari mismunandi afstöðu kynjanna hvors til annars að karlmönnum finnst stundum þægilegra að hafa karlmenn í kringum sig og konum konur í kringum sig. Það er þá spurning hvort hægt sé með einhverjum aðgerðum að aðstoða ungar konur eða konur almennt til að eignast sín eigin fyrirtæki og þannig ná því jafnrétti sem við erum öll sammála um að þurfi að ríkja í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Ég tel mig hafa í störfum mínum í félmn., þó ég eigi þar ekki sæti núna, lagt ýmislegt af mörkum til að auka hlut kvenna í stjórnmálum með því að samþykkja fjármagn til nefndar sem var sett á laggirnar til að auka hlut kvenna í stjórnmálum. Ég hygg að það starf hafi skilað verulegum árangri og eftir því sem mér sýnist á prófkjörum sem hafa verið haldin undanfarið þá hafa konur komið vel út úr þeim, ekki síst, held ég, vegna þess að auglýsingar og starf nefndarinnar sem sett var á laggirnar í framhaldi af þessari samþykkt félmn., hefur skilað árangri og þá með því að konum hefur gengið vel í prófkjörum og mun betur en þær sjálfar hafa almennt gert ráð fyrir. Það hefur nefnilega verið dálítil mýta hjá kvenfólki fram að þessu að halda að þær eigi ekki jafnmikla möguleika og karlar í prófkjörum en í mínum huga hefur það verið misskilningur og mér fannst það sannast rækilega í þeim prófkjörum sem hafa verið haldin að undanförnu.