Jafnréttislög

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 12:39:28 (3925)

1999-02-19 12:39:28# 123. lþ. 70.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[12:39]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að þessa umræðu þyrftum við að taka. Þetta er umræða sem við ættum að gefa okkur oftar tíma til þess að staldra við. Það er kannski mjög gott að undir umræðum um frv. til jafnréttislaga sé hægt að taka svolítið hliðarspor.

Ég er líka mjög ánægð með það að þingmaðurinn deilir hugmyndum mínum um það hversu aðbúnaður fjölskyldunnar hefur mikið að segja. Við erum reyndar sammála um að launamismunur er kannski einn erfiðasti þátturinn í öllu sem snýr að jafnréttismálum.

Þingmaðurinn spurði: ,,Erum við að heyja baráttu á röngum forsendum? Erum við alltaf að telja hausa?`` Hann spurði líka: ,,Hvers vegna eru konur færri?`` Eigum við ekki að staldra við það og það höfum við verið að gera nokkuð í umræðu um jafnréttismál á liðnum árum. Þetta er stóra málið. Af hverju eru konur færri? Það er vegna þess að hingað til hafa þær þurft að vera ofurkonur oft og tíðum til þess að ná þeim árangri sem að er stefnt, til frama á vinnumarkaði eða tilteknum árangri í stjórnmálaheiminum, ef börn eru í dæminu. En konur eru ekkert ofurkonur frekar en karlar eru ofurkarlar og þetta hefur oftast nær dregið einhvern annan dilk á eftir sér en ætlað var.

Það er hins vegar viðurkennt ef um er að ræða einsleitan hóp, þ.e. nær eingöngu annað kynið, að umræðan breytist og grundvöllur ákvarðanatöku verður annar þegar hlutfall hins fámennari kyns í hópnum fer yfir 30%. Þetta eru fræði sem ég kann ekki að fara nánar út í. En það er alveg ljóst að það skiptir máli í allri samvinnu að jafnvægi sé sem mest og annað kynið þarf a.m.k. að vera 30% af heildinni til að hafa áhrif í starfseminni, í umfjölluninni og alls staðar þar sem verið er að taka á.

Og af því að hv. þingmenn voru að takast á um fyrirtæki þá ætla ég að leyfa mér að segja að öflugt fyrirtæki nær árangri ef það rekur heilbrigða starfsmannastefnu og lætur starfsmenn sína finna að þeir skipti máli og þeir eigi þátt í því hvort fyrirtækinu gengur vel eða illa. Slíkt fyrirtæki nær árangri, hitt ekki.