Jafnréttislög

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 12:42:14 (3926)

1999-02-19 12:42:14# 123. lþ. 70.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[12:42]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég hafi verið sammála öllu sem hv. ræðumaður sagði þannig að það er svo sem ekki mikil þörf fyrir andsvör. Ég vil sérstaklega taka fram að ég er sammála því síðasta. Vonandi hefur enginn skilið orð mín öðruvísi.

Ég tel það ákaflega óskynsamlega stefnu hjá stjórnendum fyrirtækja í núinu að gera ekki báðum kynjum jafnhátt undir höfði og nýta sér ekki hæfileika og kosti starfsmanna án tillits til kynferðis. Það er óskaplega sorglegt ef svo er ekki. En þetta er því miður enn til staðar eins og við vitum og það á sérstaklega við þegar kemur upp í efri lög og efstu lög í stjórnun stórra fyrirtækja og stofnana, þá vill þetta enn þá gerast. Þá er eins og konurnar rekist á þak. Það er sjaldan sem efstu lögin eru skipuð konum og toppurinn sjálfur á píramídanum er náttúrlega mjög gjarnan skipaður einstaklingi af tilteknu kyni.