Jafnréttislög

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 12:45:01 (3928)

1999-02-19 12:45:01# 123. lþ. 70.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[12:45]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hinar afskaplega góðu viðtökur sem þetta frv. hefur fengið. Eftir að hafa hlustað á langar umræður sem vissulega hafa verið nokkuð ítarlegar leyfi ég mér, með tilliti til þess hve jákvæður tónn hefur verið í ræðumönnum, að vonast til að frv. nái fram að ganga.

Nokkur atriði skýrði ég kannski ekki nægilega út í stuttri framsögu og þarf að koma betur inn á auk þess sem fram hafa komið spurningar sem mér er ánægja að reyna að leysa úr.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, sem hefur látið jafnréttismál mjög til sín taka á undanförnum árum og er mikill áhugamaður um það málefni, kom með nokkrar spurningar. Hann spurði af hverju ekki væri sett upp jafnréttisstofnun. Þetta er kannski smekksatriði en á ýmsa, ekki bara þingmenn heldur víða í þjóðfélaginu, er stofnanahugtakið farið að virka neikvætt á vissan hátt. Mér fannst því betri lausn að láta nafnið Skrifstofa jafnréttismála halda sér fremur en setja upp eitthvað sem kallaðist jafnréttisstofnun.

Hv. þm. spurði hvort jafnréttisnefndir ættu ekki að eiga fulltrúa á jafnréttisþingi. Tekið er fram að sveitarstjórnir skuli eiga þarna fulltrúa og þar sem jafnréttisnefndir eru starfandi í sveitarstjórnum reikna ég með að þeir sem sæki jafnréttisþing verði úr þeim.

Ef menn lesa 9. gr. sem er um jafnréttisþingið sjá menn að þetta er mjög opið. Það er gert með vilja þannig að þangað eigi sem allra flestir aðgengi sem á annað borð vilja skipta sér af jafnréttismálum. Það eru ekki tilteknir ákveðnir aðilar sem hafa þar einir seturétt heldur er reynt að laða sem flesta að. Ég veit ekki hve vel jafnréttisþing verður sótt í framtíðinni en ég geri mér vonir um að það verði talsvert fjölsótt. Því er ætlað að setja sérreglur um starfshætti. Það á að vera vettvangur til að fjalla um jafnréttismál á breiðum grundvelli. Þingið á að setja sér þingsköp og Jafnréttisráð á að semja reglur fyrir hvert jafnréttisþing þar sem kveðið sé á um seturétt á þinginu, kjörgengi og kosningarrétt þingfulltrúa. Reglurnar skal auglýsa með fullnægjandi hætti o.s.frv.

Hugmyndin að jafnréttisþingi kviknaði kannski út frá þeirri reynslu sem hefur fengist af náttúruverndarþingi. Þarna er sótt í nokkuð svipaða slóð. Ég tel að reynsluna af náttúruverndarþingi það góða að slíkt þing sé eftirbreytnivert.

Varðandi sáttameðferðina sem kveðið er á um í kærunefndinni hygg ég að hún sé til bóta. Ég tel mjög eftirsóknarvert ef menn geta komið sér saman og leyst deilumálin án illinda, þ.e. án þess að koma þurfi til dómstólameðferðar. Eins og hér hefur verið vakin athygli á er sönnunarbyrðinni raunverulega snúið við fyrir kærunefndinni. Hinn ákærði verður að vissu leyti að sanna sakleysi sitt. Þegar ég sá þessa hugmynd hnykkti mér við. Mér fannst þetta a.m.k. vera á skjön við þá réttarfarshugsun sem við höfum búið við, þ.e. að viðkomandi sé saklaus uns sekt hans hefur verið sönnuð. Ég lét gera sérstaka athugun á þessu og leitaði lögfræðiálits hjá virtum lögfræðingum á því hvort þetta stæðist. Niðurstaðan varð sú að í lagi væri að hafa þetta svona. Þess vegna er það þannig í frv. en ekki með gamla laginu.

Hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur kom fram að fréttaviðmælendur væru ekki nema 18% af kvenkyni í tilteknum fjölmiðli. Ég held að ákaflega erfitt sé að setja það í lög að fjölmiðill skuli taka viðtöl við jafnmargar konur og karla. Ég held að ákaflega erfitt væri að festa það í lögum. Það má velta því fyrir sér hvort það sé ekki ástæða til þess að fréttamennirnir séu sem næst því að vera jafnmargir af hvoru kyni. En það er ekki tiltækilegt að skipa þeim, í frjálsum fjölmiðlum og mér finnst það ekki samræmast nútímafréttamennsku, að tala endilega við konur.

Í þessari stofnuninni eru 63 þingmenn. Þar af eru tæp 30% konur. Mér kemur það mjög á óvart ef ekki er í yfir 30% tilfellum rætt við konur í fréttum frá Alþingi .

Menn hafa talað um að eftirfylgni við þessi lög vanti. Ég tel að þau verði að lesa með hliðsjón af framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Þar er kveðið á um eftirfylgni í mörgum tilfellum og það samræmist þessari lagasetningu. Að vissu leyti voru lögin endurskoðuð með tilliti til framkvæmdaáætluninnar. Þ.e. í framkvæmdaáætluninni voru lagðar ákveðnar kvaðir á stjórnvöld um gera eitt og annað sem síðan er lögbundið í þessu frv. ef að lögum verður.

Deilt hefur verið á að ekki væri um nógan kostnaðarauka að ræða fyrir ríkissjóð, að nægilegt fjármagn skorti. Við skulum aðeins fara yfir það. Árið 1995, fyrsta árið sem ég var í félmrn., voru á fjárlögum til jafnréttismála ætlaðar 23,4 millj. Það voru fjárlög sem hv. 5. þm. Reykn. bar ábyrgð á. Í fyrra var þessi upphæð 27,2 millj. og á þessu ári 36,1 í fjárlögunum. Þess ber hins vegar að geta að nú er meira varið til jafnréttismála óbeint á vegum ráðuneytisins en þessar 36,1 millj. Ég nefni að við höfum haft starfsmann í ráðuneytinu sem hefur sinnt kynhlutlausu starfsmati og unnið að því í tvö og hálft ár. Reyndar hefur mikið jafnréttisstarf verið unnið í ráðuneytinu þó að það sé ekki sérstaklega flokkað og greitt af jafnréttisliðnum. Það er bara skrifstofukostnaður og ráðuneytisins. Ég nefni Vinnueftirlitið. Þar er unnið að úrbótum á vinnuumhverfi kvenna og rannsóknum á því sem kostar verulegt fé. Mér kæmi því ekki á óvart þó að til jafnréttismála færu fast að 50 millj. með einum eða öðrum hætti.

Varðandi hinn kynbundna launamun sem er nú kannski alvarlegasti hluturinn í jafnréttismálum, þá er tekið á því í 15. gr. og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Með jöfnum launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla. Skulu þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun.``

Í þessari grein er kynbundinn launamunur bannaður og greint frá þeim forsendum sem vera þrufa til staðar til þess að ákveða launin. Það hefur verið gagnrýnt að stjórnarandstaðan hafi ekki átt fulltrúa í nefndinni sem undirbjó lögin. Ég tek þá gagnrýni ekki alvarlega vegna þess að þáverandi stjórnarandstöðuflokkunum var formlega boðið að koma að gerð frv. Þetta frv. er flutt á ábyrgð ríkisstjórnarinnar, ég sem. félmrh. flyt þetta frv. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna.

Hægt er að hafa ýmsan hátt á við undirbúning frumvarpa. Við erum að fást við tvö frumvörp þar sem leitað hefur verið eftir pólitísku samkomulagi, málamiðlun milli allra flokka. Þar á ég við kjördæmamálið, stjórnarskrárbreytinguna og þingsköpin. Frv. til þingskapa var lagt á borð okkar í morgun, stórgallað frv. Til meðferðar er einnig stjórnarskrárfrv. sem er líka stórgallað og getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þjóðfélagið, þ.e. með tilliti til byggðarinnar í landinu. Það er því engin trygging fyrir því að lagasetning verði góð þó að það sé um hana fullkomin pólitísk sátt. Það verður reyndar aldrei póltísk sátt heldur aðeins blanda sjónarmiða stjórnmálaflokka.

Hv. þm. Kristján Pálsson talaði um barneignabann, þ.e. sumir vinnuveitendur legðu blátt bann við því að starfsmenn yrðu óléttir. Ég þekki ekki dæmi þess. Mér finnst það mjög ótrúleg og náttúrlega einstaklega ósanngjörn afstaða en ef þetta væri algengt þá væri fróðlegt að vita hvort barneignir eru tíðari í fyrirtækjum sem konur stjórna.

Hv. þm. Pétur Blöndal sagði að ekkert hefði miðað í jafnréttisbaráttunni sl. 20 ár. Ég tel að það mikið hafi áunnist a.m.k. sl. fjögur ár. Ef þetta frv. verður að lögum höfum við miklu betri löggjöf. Við höfum metnaðarfulla framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Við höfum látið vinna kynhlutlaust starfsmat sem getur orðið grundvöllur að því að eyða misrétti í launum. Við höfum samþykkt opinbera fjölskylduáætlun. Við erum að ganga frá fullgildingu á ILO-samþykkt 156, um fjölskylduábyrgð. Við höfum gert samþykktir um foreldraorlof. Við höfum ráðið í starf jafnréttisfulltrúa og síðast en ekki síst tel ég að umræðan um jafnréttismál í þjóðfélaginu hafi tekið miklum framförum. Það hefur verið ánægjulegt að fást þennan málaflokk í ráðuneytinu og ég tel mig ekki hafa átt í neinum vandræðum með að fá fólk til að hlusta á mig tala um jafnréttismál.