Vörugjald

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 13:18:27 (3937)

1999-02-19 13:18:27# 123. lþ. 70.16 fundur 537. mál: #A vörugjald# (kranar) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[13:18]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir litlu þingmáli sem lýtur að því að fella niður vörugjöld á tilteknum vörutegundum. Hér er um að ræða krana og annan vélbúnað sem ætlaður er til lyftinga í þeim tollskrárflokkum sem um getur í 1. gr. frv.

Hér er um að ræða samræmingu sem lögð er til og þykir óhjákvæmileg vegna þess hvernig gjaldtaka á önnur tæki hefur lækkað á undanförnum árum en þessi tæki setið eftir. Þess vegna er þetta eðlileg breyting, þó að hún muni kosta ríkisstjóð á bilinu 30--35 millj. kr. á ári, og er samræmingarmál gagnvart þeim aðilum sem þessi tæki nýta. Það hefur verið 15% vörugjald á þessum búnaði en með frv. er lagt til að þessi gjöld lækki niður í núll til samræmis við það sem tíðkast á annars konar vinnuvélum, vegheflum, skurðgröfum, jarðýtum o.s.frv.

Þetta mál, herra forseti, er þess eðlis að hér er um að ræða breytingar á verði þessara vara. Þetta hefur þess vegna áhrif á innkaup, pantanir, tilboð og viðskipti á þessum markaði. Þess vegna er mjög óheppilegt að svona mál dragist í meðförum þingsins. Ég leyfi mér því að beina þeim tilmælum til hv. efh.- og viðskn. að hún flýti meðferð málsins til þess að það raski ekki viðskiptum á þessum markaði og hef ég rætt það við tvo af forustumönnum nefndarinnar að þeir hagi málum þannig.

Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn. um leið og ég þakka fyrir að hafa fengið að skjóta því inn í dagskrána með þeim hætti sem orðið er.