Háskóli Íslands

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 13:43:53 (3938)

1999-02-19 13:43:53# 123. lþ. 70.5 fundur 509. mál: #A Háskóli Íslands# (heildarlög) frv., 510. mál: #A Háskólinn á Akureyri# (heildarlög) frv., 511. mál: #A Kennaraháskóli Íslands# (doktorsnafnbót, kærumál, gjöld o.fl.) frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[13:43]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þremur frumvörpum, þ.e. frv. til laga um Háskóla Íslands, frv. til laga um Háskólann á Akureyri og frv. til laga um breyting á lögum um Kennaraháskóla Íslands.

Þegar litið er á frv. til laga um Háskóla Íslands er rétt að rifja það upp að í ár eru 90 ár frá því að háskólanum voru fyrst sett lög, þ.e. á árinu 1909, en háskólinn tók til starfa árið 1911. Háskóli Íslands á sér því nokkuð langa stjórnunarhefð sem markar honum ákveðna sérstöðu. Stjórnskipulag háskólans hefur mótast í tímans rás, en grundvallaratriði þess hafa frá upphafi tekið mið af þeirri aldalöngu hefð að háskóli er samfélag þar sem þekkingarleit og þekkingarmiðlun eru höfuðmarkmiðin. Kjarninn í starfsemi stofnunarinnar er kennsla og rannsóknir.

Gildandi lög um Háskóla Íslands eru að meginstofni frá árinu 1957. Á þeim lögum hafa verið gerðar ýmsar breytingar, þær mestu árið 1990. Voru lögin þá gefin út aftur í heild sem lög nr. 131/1990. Með breytingunum 1990 var skipulagi hinnar almennu stjórnsýslu háskólans breytt nokkuð og sjálfstæði deilda aukið.

Frumvarp það sem hér liggur fyrir um Háskóla Íslands er samið í samvinnu minni og háskólarektors. Af hálfu menntmrn. hafa þau Gunnar Jóhann Birgisson hæstaréttarlögmaður og Þórunn J. Hafstein, skrifstofustjóri í menntamálaráðuneytinu tekið þátt í að semja frv. og af hálfu háskólarektors Davíð Þór Björgvinsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Þórður Kristinsson, framkvæmdastjóri kennslusviðs Háskóla Íslands. Komst hópur þessi að sameiginlegri niðurstöðu um drög að frumvarpi til laga um Háskóla Íslands. Voru drögin send háskólaráði til umsagnar 2. okt. 1998 og var veittur þriggja vikna umsagnarfrestur. Rektor Háskóla Íslands óskaði eftir lengri fresti og honum lauk 19. nóv. sl. Umsögn háskólaráðs barst til mín með bréfi rektors, dags. 20. nóv. 1998. Í umsögn háskólaráðs voru lagðar til nokkrar breytingar á drögunum. Var frumvarpið yfirfarið í menntamálaráðuneytinu og því breytt í einstökum atriðum með hliðsjón af umsögn háskólaráðs. Efnisleg afstaða ráðuneytisins var síðan kynnt háskólarektor á fundi hans og mín 26. nóv. 1998.

[13:45]

Með frumvarpi þessu er stefnt að því að samræma lög um Háskóla Íslands lögum um háskóla, nr. 136/1997, sem tóku gildi 1. jan. 1998, en samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í þeim lögum skulu háskólar, sem nú starfa, innan tveggja ára frá gildistöku þeirra laga aðlaga starfsemi sína þessum nýju lögum. Segir enn fremur að á þeim tíma skuli einnig lokið endurskoðun á löggjöf um starfsemi þessara háskóla.

Lög nr. 136/1997, um háskóla, setja háskólastofnunum almennan ramma um stjórnsýslu og fjárveitingar ríkisins, auk þess sem sett eru fram meginskilyrði sem skólastofnun þarf að uppfylla til þess að geta talist háskóli. Í þessu frumvarpi um Háskóla Íslands er tekið mið af þessum ramma, en að auki er leitast við að koma til móts við þau sérstöku sjónarmið sem fram hafa komið innan Háskóla Íslands varðandi stjórn stofnunarinnar, en meginnýmæli frumvarpsins felast einmitt í tillögum um nýja skipan þeirra mála. Sjónarmið Háskóla Íslands í þessu efni koma einkum fram í samþykkt háskólaráðs frá 9. október 1997. Í samþykktinni er lögð áhersla á háskólafund þar sem fulltrúar helstu faggreina og hópa háskólasamfélagsins eiga sæti. Í samþykktinni var lagt til að háskólafundur yrði æðsta stjórn háskólans. Hér er komið til móts við þetta sjónarmið þannig að greint er á milli framkvæmdastjórnar og stefnumótunar innan skólans. Framkvæmdastjórn og æðsta ákvörðunarvald eru falin háskólaráði en stefnumótun háskólafundi.

Það grundvallaratriði í stjórnskipulagi Háskóla Íslands er að deildarforsetar skipa háskólaráð og þetta grundvallaratriði hefur ekki breyst frá því að háskólinn var stofnaður. Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að þessu verði breytt að talsverðu leyti. Er gert ráð fyrir því annars vegar að fulltrúar deilda í háskólaráði verði aðeins fjórir í stað þess að deildarforsetar allra deilda eigi þar sjálfkrafa sæti og hins vegar að seta í háskólaráði verði ekki lengur bundin við deildarforseta. Styðjast þessar breytingar m.a. við lög um háskóla frá 1997 og hugmyndir sem settar voru fram í skýrslu þróunarnefndar Háskóla Íslands frá árinu 1994 og í úttekt Hagsýslu ríkisins á stjórnsýslu háskólans frá árinu 1996.

Grunneiningar háskólans, vettvangur kennslu og rannsókna, eru deildirnar. Sjálfstæði Háskóla Íslands í innri málum hefur ávallt verið talið mikilvægt og það hefur jafnframt mótað stjórnkerfið sem einkennist af fulltrúalýðræði. Mikilvægustu ákvarðanir eru teknar af fjölskipuðu stjórnvaldi, þ.e. deildarfundum og háskólaráði, sem menn tilheyra stöðu sinnar vegna eða í umboði hópa innan háskólasamfélagsins. Þetta stjórnskipulag hefur í meginatriðum ríkt frá stofnun háskólans. Í núverandi mynd er háskólaráð í senn vettvangur umræðu og ákvarðana allra deilda háskólans. Þar eru öll mál rædd sem nauðsyn ber til, ákvarðanir teknar í sameiginlegum málum og úrskurðað í ágreiningsmálum. Í þessu frumvarpi er byggt á þessum sjónarmiðum, en þau nánar útfærð með það í huga að skjóta frekari stoðum undir lýðræði innan stofnunarinnar um leið og leitast er við að auka hagkvæmni og skilvirkni í allri stjórnsýslu. Þetta er m.a. gert með því að skilja á milli stefnumótunar, sem verður falin háskólafundi, og framkvæmdastjórnar og ákvarðanatöku sem verður falin háskólaráði, rektor, deildum, deildarforsetum og sameiginlegri stjórnsýslu.

Eitt af meginmarkmiðum frumvarps þessa er að auka sjálfstæði Háskóla Íslands. Kemur það m.a. fram í því að lagt er til að háskólinn fái aukið vald til að setja sjálfur reglur um ýmis framkvæmda- og útfærsluatriði, án atbeina menntamálaráðherra. Í samræmi við þetta er gert ráð fyrir að nokkrir málaflokkar, sem nú heyra undir menntamálaráðuneyti, færist til Háskóla Íslands. Má þar sem dæmi nefna ráðningar í störf, en í frumvarpinu er lagt til að háskólarektor ráði alla kennara háskólans og flesta aðra starfsmenn. Með því fyrirkomulagi hverfur ráðningarvaldið frá menntamálaráðherra til háskólans. Þetta er í samræmi við markmið laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Þá er og gert ráð fyrir því í frumvarpinu að háskólaráð setji ýmsar sameiginlegar reglur sem varða starfsemi skólans og reglur um starfsemi deilda innan háskólans að fenginni umsögn háskólafundar, en samkvæmt gildandi lögum setur menntamálaráðherra í reglugerð ýmsar af þessum reglum. Eykur þetta fyrirkomulag að sama skapi sjálfstæði háskólans gagnvart öðrum stjórnvöldum og ætti að vera til þess fallið að stuðla að skilvirkni í starfi hans. Bent er á að í ákvæðum frumvarpsins um skipan háskólafundar og háskólaráðs er gert ráð fyrir að fulltrúar þjóðlífs fái beina aðild að stjórnun háskólans. Þessi hugmynd tengist m.a. tillögum um aukinn flutning verkefna frá menntamálaráðuneytinu til háskólans. Þykir eðlilegt samfara slíkum verkefnaflutningi og þar með auknu sjálfstæði háskólans að stjórnkerfi hans verði gert sýnilegra og opnara. Þá má geta þess að þetta fyrirkomulag hefur víða verið tekið upp erlendis og þótt gefa góða raun. Í er frumvarpinu lagt til að menntamálaráðherra skipi þessa fulltrúa. Hliðstætt ákvæði um þjóðlífsfulltrúa er jafnframt að finna í 13. gr. laga um háskóla, nr. 136/1997, þannig að sú skipan sem hér er lögð til hefur áður verið samþykkt af Alþingi.

Í frv. er við það miðað að í lögum sé mælt fyrir um grundvallarskipulag Háskóla Íslands, en eðlilegt er, þegar haft er í huga hversu stór stofnun hann er í íslensku samfélagi, að þær reglur hvíli á traustri lagastoð. Þá er gert ráð fyrir að settar séu í lög ýmsar af þeim reglum sem varða inntökuskilyrði, hvers konar gjaldtöku, próf og kærumál stúdenta, svo og agaviðurlög. Mikilvægt er að meginreglur sem þetta varða séu að einhverju marki bundnar í lögum þar sem þær varða mikilvæg grundvallaratriði í starfsemi háskólans og sum atriði sem ákvæði frumvarpsins taka til, t.d. framkvæmd prófa og einkunnagjöf, valda oft ágreiningi.

Ég hef nú gefið út reglur um áfrýjunarnefnd fyrir námsmenn í öllum háskólum landsins sem hafa verið settar og þegar er unnið eftir. Að öðru leyti setur háskólinn sjálfur þær reglur sem starfa skal eftir. Frumvarp þetta felur þannig í sér tillögur um flutning verkefna í ríkum mæli frá ráðherra til háskólans sjálfs. Með vísan til þessara almennu sjónarmiða er til dæmis fallið frá því að lögbinda að ákveðið hlutfall af skrásetningargjaldi geti runnið til stúdentaráðs Háskóla Íslands. Lögbinding reglu af því tagi bryti í bága við þá viðleitni að veita Háskóla Íslands umboð til að taka ákvarðanir um slíka ráðstöfun á fjármunum án afskipta löggjafans. Öðru máli gegnir um hlut Félagsstofnunar stúdenta í skrásetningargjaldinu, ákvæðið um það er í samræmi við forsendur fyrir starfi stofnunarinnar sem er að finna í lögum um þá stofnun.

Í 18. gr. frumvarpsins eru ný ákvæði um gjöld fyrir þjónustu, þ.e. heimild Háskóla Íslands til að taka gjald fyrir þjónustu utan lögbundinnar skyldu og jafnframt um heimild fyrir háskólaráð til að semja við félög, fyrirtæki og stofnanir um að greiða þeim fyrir sérgreinda þjónustu. Í þeirri grein frv. er tekið mið af þeirri ósk háskólaráðs frá 19. nóv. 1998 að um samninga þess við stúdentaráð og aðra aðila giltu ákvæði 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins. Er það á valdi háskólaráðs í samræmi við þá lagagrein að taka ákvarðanir um hvernig það hagar samningsgerð af þessu tagi.

Um fjöldamörg atriði, sem menntamálaráðherra skipar nú í reglugerð, er háskólaráði ætlað að setja nánari reglur án atbeina ráðherra. Það er í samræmi við það markmið frumvarps þessa, að auka sjálfstæði Háskóla Íslands, að hann setji sjálfur reglur af þessu tagi innan þeirra marka sem lög heimila. Margar af þeim reglum sem háskólaráði er ætlað að setja eru til nú þegar, ýmist í reglugerðum menntamálaráðuneytis eða reglum sem háskólaráð hefur samþykkt. Má reikna með að á þeim verði að verulegu leyti byggt í framtíðinni með þeim breytingum sem ný lög um Háskóla Íslands kunna að gera ráð fyrir. Lagt er til að háskólaráð geti ekki sett eða breytt reglum er varða grundvallaruppbyggingu háskólans án þess að leita fyrst eftir umsögn háskólafundar. Er þannig ætlast til að umræða um slíkar reglur fari fram á háskólafundi þar sem flestir hagsmunaðilar og fagaðilar innan háskólans eiga fulltrúa.

Í frumvarpi þessu eru lagðar til nokkuð róttækar breytingar á æðstu stjórn háskólans. Gert er ráð fyrir að hún verði falin háskólaráði og rektor eins og fyrr segir. Stjórn deilda verði aftur á móti í svipuðu horfi og nú. Einnig er lagt til að í tengslum við stjórn skólans starfi háskólafundur sem hefur með höndum stefnumótun í málefnum háskólans.

Háskólafundi er ætlað tvenns konar hlutverk, annars vegar stefnumótun í sameiginlegum málefnum háskólans og hins vegar að veita umsögn þegar meginreglur er varða stjórnskipulag háskólans eru settar. Framkvæmd stefnunnar sem háskólafundur mótar og dagleg framkvæmdastjórn háskólans verði í höndum háskólaráðs, rektors og sameiginlegrar stjórnsýslu. Háskólaráð verði fámennara en nú er. Háskólafundur verður eins konar þing háskólamanna þar sem saman koma fulltrúar einstakra deilda og stofnana háskólans, auk fulltrúa starfsmanna stjórnsýslunnar, stúdenta og þjóðlífs. Gert er ráð fyrir að háskólafundur komi saman í það minnsta einu sinni á hverju kennslumissiri og er miðað við að settar verði reglur um undirbúning hans, hvernig mál skuli fyrir hann lögð, rædd þar og afgreidd. Reglum þessum er ætlað að stuðla að vandaðri málsmeðferð og virku starfi háskólafundar. Á þessu þingi oddvita háskólasamfélagsins mætast á einum stað sjónarmið allra faggreina og hópa háskólasamfélagsins. Með þessu er m.a. komið til móts við óskir sem uppi hafa verið innan háskólans um að fjölga þurfi í háskólaráði frá því sem nú er til þess að oddvitar allra kennslugreina og hópa geti átt þar fulltrúa og tekið þátt í að móta stefnu og eiga aðild að ákvörðunum þess. Reglur 8. gr. frumvarpsins um skipan háskólafundar eru í samræmi við þetta.

Hlutverk háskólafundar er nánar rakið í 7. gr. Af því ákvæði er ljóst að honum er fyrst og fremst ætlað að vinna að þróun Háskóla Íslands og stefnumótun í innri málefnum hans. Háskólafundi er aftur á móti ekki ætlað að fara með stjórnsýslulegt úrskurðarvald. Gert er ráð fyrir að með samþykktum sínum um stefnumörkun móti háskólafundur stefnu þá sem háskólaráði og rektor er ætlað að taka mið af.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að háskólaráð verði æðsta framkvæmdastjórn háskólans, ásamt rektor. Háskólaráð fer með æðstu stjórn í rekstri háskólans, sbr. nánar ákvæði 3. gr. frumvarpsins.

Þetta eru, herra forseti, helstu atriði þessa frv. en háskólaráðið á samkvæmt frv. að vera skipað tíu fulltrúum og í 4. gr. frv. er mælt fyrir um það hvernig kosið verði til þessa ráðs.

Ef litið er á frv. til laga um Háskólann á Akureyri ber þess fyrst að geta að hér er um endurflutt mál að ræða frá síðasta þingi sem þá var lagt fram en ekki útrætt. Frumvarpið hefur verið endursamið að nokkru leyti með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem komu fram við gerð frv. um Háskóla Íslands. Þau ákvæði sem ráðuneytið, sérfræðingar þess og háskólarnir sjálfir telja að eigi að vera sameiginleg fyrir alla háskóla í landinu eru hin sömu í þessu frv. og í frv. um Háskóla Íslands. En þar sem Háskólinn á Akureyri er mun minni stofnun er t.d. ekki gert ráð fyrir háskólafundi í þessu frv., enda hafa engar óskir komið fram um slíkt frá Háskólanum á Akureyri. Frv. tekur að sjálfsögðu mið af starfi innan Háskólans á Akureyri, þar sem hér er verið að semja og leggja fram frv. til sérlaga um þá stofnun.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa mörg orð um þetta frv. Það skýrir sig sjálft. Það var lagt fram á síðasta þingi og hefur ekki tekið öðrum breytingum en ég gat um og rakti að nokkru leyti í ræðu minni um frv. til laga um Háskóla Íslands.

Frv. til laga um breyting á lögum um Kennaraháskóla Íslands, sem einnig hefur verið lagt fram og er hér til umræðu, tekur mið af þeim ákvæðum í frv. um Háskóla Íslands sem snerta það sama og ég gat um varðandi Háskólann á Akureyri, þ.e. að þau atriði eru samræmd á milli háskólanna sem talið er eðlilegt að samræma, svo sem hér segir:

,,Að fenginni tillögu viðkomandi deildarfundar hefur háskólaráð rétt til þess að veita doktorsnafnbót. Slíka nafnbót má veita í heiðursskyni, að undangengnu doktorsnámi eða með vörn doktorsritgerðar.`` Síðan mætti áfram telja.

Það eru ákvæði af þessu tagi sem við erum að taka inn ásamt þeirri almennu heimild sem kemur fram í 18. gr. frv. um Háskóla Íslands og varðar rétt háskóla til þess að greiða gjöld fyrir þjónustu og taka gjöld fyrir þjónustu. Þetta ákvæði er nú samræmt á milli þessara þriggja háskóla og þannig tekið á málum að þar sitji allir við sama borð.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra. Ég legg til að þessum frumvörpum verði eftir þessa umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.