Háskóli Íslands

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 14:00:59 (3939)

1999-02-19 14:00:59# 123. lþ. 70.5 fundur 509. mál: #A Háskóli Íslands# (heildarlög) frv., 510. mál: #A Háskólinn á Akureyri# (heildarlög) frv., 511. mál: #A Kennaraháskóli Íslands# (doktorsnafnbót, kærumál, gjöld o.fl.) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[14:00]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er vonum seinna að þessi frumvörp birtast hér á Alþingi. Ljóst var eftir að samþykkt voru lög um háskóla á síðasta þingi að í framhaldinu kæmu frumvörp um einstaka háskóla og raunar samþykktum við þá lög um Kennaraháskólann. En nú erum við að fást við annars vegar frv. til laga um Háskóla Íslands og hins vegar frv. til laga um Háskólann á Akureyri.

Ég ætla að fjalla um þessi frumvörp í sömu röð og hæstv. ráðherra gerði og byrja þá á frv. um Háskóla Íslands. Ég er með þrjú atriði sem ég vil gjarnan ræða. Í fyrsta lagi orðalag er varðar skrásetningargjald, í öðru lagi ákvæði um fulltrúa ráðherra í háskólaráði og í þriðja lagi heimild háskólaráðs til að semja við stúdentaráð um afmörkuð rekstrarverkefni án útboðs.

Í máli ráðherra kom fram að drög að þessu frv. voru samin í samráði við Háskóla Íslands. Það var samt svo að í háskólaráði voru lagðar fram brtt. af hálfu stúdenta sem voru samþykktar. Menntmrn. og menntmrh. taka tillit til þeirra ábendinga og þeirra samþykkta sem þar eru gerðar nema tveggja. Það er í fyrsta lagi að þetta frv. er, í samræmi við lögin um háskóla, þeirrar gerðar að gert er ráð fyrir pólitískum fulltrúum ráðherra í háskólaráði.

Eins og kom fram í máli ráðherra áðan var slík stefnumörkun samþykkt á Alþingi í lögunum um háskóla þannig að ekki þarf að koma á óvart þó að ekki hafi verið tekið tillit til þeirrar ábendingar, en mér finnst samt sérkennilegt að heyra ráðherra réttlæta þá ákvörðun og vísa til þess að með því verði stjórnkerfið sýnilegra og skilvirkara. Ég er ekki viss um að svo sé en menn verða auðvitað að skýra gerðir sínar og ákvarðanir á einhvern hátt.

Í öðru lagi er það merkilegt og umhugsunarefni af hverju orðalagið um skrásetningargjaldið, 25 þúsund krónurnar, er öðruvísi í þessu frv. en í lögunum um Kennaraháskóla og væri gott að fá skýringu á því. Ég er að tala um 13. gr., en þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Við skrásetningu til náms greiðir stúdent skrásetningargjald, 25.000 kr.`` Punktur.

Í lögunum um Kennaraháskóla er textinn hins vegar þannig:

,,Skrásetningargjald skal ekki vera hærra en sem nemur 25.000 kr.``

Ég þykist muna það rétt, herra forseti, að þetta orðalag hafi verið haft svona vegna þess að það var samdóma niðurstaða menntmn. að skrásetningargjald ætti að vera gjald sem kæmi fyrir skilgreinda þjónustu, ekki skólagjald og þess vegna ekki föst upphæð heldur upphæð sem gæti numið allt að þetta hárri upphæð, enda kæmi skilgreind þjónusta fyrir. Og ég spyr þess vegna: Af hverju er orðalaginu breytt? Af hverju er annað orðalag og þar með í rauninni annar skilningur bæði í frv. um Háskóla Íslands og frv. um Háskólann á Akureyri? Ef hér er um mistök að ræða verður það auðvitað leiðrétt í nefndinni vegna þess að ég endurtek það, herra forseti, að ákveðin hugsun var á bak við orðalagið sem er í lögunum um Kennaraháskólann og sú hugsun kemur ekki fram í frumvörpunum.

Í þriðja lagi, herra forseti, ætla ég að ræða um það atriði sem stúdentaráð Háskóla Íslands hefur gert mestar athugasemdir við. En það er heimild háskólaráðs til að semja við stúdentaráð um afmörkuð rekstrarverkefni án útboðs.

Háskólaráð óskaði eftir því að fá í lögin skýra heimild til að geta samið við stúdentaráð á þessum grundvelli. Í máli ráðherra áðan kom fram að það yrði í valdi háskólaráðs. En ég spyr: Ef það er í valdi háskólaráðs hvernig það semur og við hverja, af hverju eru menn þá að hafa áhyggjur af þessum hlut? Getur hæstv. ráðherra útskýrt það? Og ef það er í valdi háskólaráðs að mati ráðherra er þá ekki eðlilegt að taka tillit til þess sem samþykkt var í háskólaráði, en það var eftirfarandi, herra forseti:

,,Lagt er til að aftan við síðasta málslið 3. mgr. 13. gr. bætist tveir málsliðir svohljóðandi: Háskólaráði er enn fremur heimilt að semja við stúdentaráð um að sjá um afmörkuð rekstrarverkefni og verja í því skyni hluta skrásetningargjaldsins. Um efni, gerð og réttaráhrif samningsins fer samkvæmt 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins.``

Tilgangur þessa ákvæðis er sá að háskólaráð fái áframhaldandi heimild til að semja við stúdentaráð um að sjá um ákveðin verkefni.

Ég spyr um þetta, herra forseti, vegna þess að þarna er í rauninni verið að ganga gegn langri hefð og venju við Háskóla Íslands, þar sem það hefur verið svo að stúdentaráð, sem er lýðræðislega kjörin fulltrúasamkoma allra stúdenta, hefur séð um tiltekin verkefni. Og nú er verið að leggja til, þvert á vilja háskólasamfélagsins en ekki að beiðni þeirra, að þessu verði breytt. Ég hlýt að spyrja af hverju gengið er þvert á þetta, einungis til samræmingar að því er virðist.

Ég tók eftir því að í máli hæstv. ráðherra kom fram að lögin um Háskólann á Akureyri væru sniðin eftir aðstæðum þess skóla. Það er vel ef það er hægt vegna þess að það er betra ef háskólar okkar fá að þróast hver með sínum hætti, enda þótt gerðar séu sambærilegar gæðakröfur til þess náms eða þeirrar kennslu sem þar fer fram. En þess vegna velti ég vöngum yfir því og mér finnst það merkilegt hversu mikil ákefð er í því að samræma tiltekna hluti sem ekki snerta minni skólana en koma illa við Háskóla Íslands og raska áratuga hefðum sem þar hafa verið. Þetta á annars vegar við hvað varðar skipan háskólaráðs og nú þann hátt sem ráðherra vill hafa á varðandi stúdentaráð.

Stúdentar hafa vísað í það að tekist hafi verið á um stöðu ráðsins fyrir réttum þremur árum síðan og þá var það leyst farsællega að þeirra mati. Og miðað við þau orð sem þá voru látin falla úr þessum ræðustóli hljóta menn að vera undrandi á þeirri stefnubreytingu sem orðin er vegna þess að á þeim tíma kom fram í ræðu menntmrh. --- og ég vitna hér, með leyfi forseta:

,,Ráðuneytið telur eðlilegt að samið sé við stúdentaráð Háskóla Íslands um að það sinni sérstökum verkefnum fyrir Háskóla Íslands og til þess sé varið hluta skrásetningargjalda til skólans.``

Ég hlýt að nefna þetta, herra forseti, vegna þess að við höfðum auðvitað vænst þess að þegar kæmi að því að setja sérlög um skólana, eftir að tekist hafði verið á um hina almennu rammalöggjöf um háskóla, yrði hægt að ná víðtækri sátt um þau ákvæði sem sneru að hverjum skóla fyrir sig. Það yrði hægt, eins og ég gat um og fram kom í ræðu hæstv. ráðherra, að taka tillit til hinna mismunandi skóla, hinna mismunandi hefða og hinna mismunandi aðstæðna sem skólarnir búa við.

Ég vænti þess að skýringar og svör komi fram á eftir við þessum atriðum. Við hljótum að gera kröfu til þess að þær skýringar séu nokkuð góðar vegna þess að æskilegt hefði verið að sérlögin væru í samræmi við þann vilja sem birtist, eins og í þessu tilfelli, í háskólaráði Háskóla Íslands.

Hvað varðar frv. um Háskólann á Akureyri þá er um endurflutning að ræða eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra. Þetta mál hefur a.m.k. verið lesið og skoðað áður og hefur verið aðlagað og mér er ekki kunnugt um að það séu í sjálfu sér athugasemdir við það, nema ég geri þessa athugasemd um orðalagið hvað varðar skrásetningargjaldið, sem er í 4. gr. þessa frv. Það er sama athugasemd og um frv. um Háskóla Íslands, við þurfum að skoða þetta orðalag því að það er í rauninni annar skilningur, það er annað sem liggur að baki, en ég fer ekki yfir það frekar hér aftur. Við munum ræða það væntanlega í nefndinni.

En hvað varðar Háskólann á Akureyri þá er full ástæða til að ræða aðeins um hversu stórt skref það var í skólamálum, í byggðamálum, að Háskólinn á Akureyri skyldi verða til og að hann skuli hafa náð að dafna eins og raun ber vitni, vegna þess að það er öllum ljóst að menntamálin hafa gríðarlega mikla þýðingu fyrir þróun byggðarinnar í landinu. Fram hefur komið að um 30% þeirra landsbyggðarmanna sem hyggja á flutning gera það af menntunartengdum ástæðum af einu eða öðru tagi. Og þegar svo er er full ástæða til að horfa vel til þeirra þátta.

Það hefur líka komið í ljós að mikill meiri hluti, eða yfir 80% þeirra stúdenta sem útskrifast frá Háskólanum á Akureyri, haslar sér völl úti á landi. Það er auðvitað mjög sterk vísbending um það hvaða leiðir eru færar ef mönnum er alvara með því að reyna að styrkja byggðina úti um landið. Það er alveg ljóst, eins og þær breytingar sem við vitum að eru að verða á atvinnulífinu munu ganga fram, að virkasta svarið við þeim breytingum til að menn geti skapað sér ný sóknarfæri, er að færa menntunina nær fólkinu.

Nær öll háskólamenntun fer fram í Reykjavík eða yfir 90% og þess vegna er mikið verk að vinna í rauninni við að efla þá háskólamenntun sem fer fram annars staðar. Það er mjög farsælt að samstarf skuli hafa tekist á milli þessara þriggja skóla sem við erum í rauninni með undir í þessari umræðu núna, samstarf sem m.a. lýtur að fjarkennslu, sem er þegar og getur áreiðanlega orðið mjög mikilvægur þáttur í háskólanámi eða háskólamenntun um allt land, líka hér í þéttbýlinu vegna þess að það sýnir sig þegar skoðað er hverjir vilja nýta sér fjarkennslu að það er ekki síður fólk í þéttbýli sem vill nýta sér hana, fólk sem af einhverjum ástæðum getur ekki nýtt sér hefðbundið nám.

[14:15]

Herra forseti. Málefni Háskólans á Akureyri eru afskaplega brýn í byggðatilliti og í rauninni kannski það stærsta sem menn hafa ráðist í til þess að reyna að spyrna við fótum. Það er afar mikilvægt að menn haldi áfram að byggja upp kraftmikið skólastarf, haldi áfram að efla háskólamenntun á landsbyggðinni hraustlega. Eitt af því sem þarf að efla við Háskólann á Akureyri er húsakostur. Það þarf að bæta húsakost. Það þarf að setja peninga til þeirra hluta. Það þarf að efla rannsóknar- og vísindastarfsemi úti um landið og það þarf að styrkja rannsóknarverkefni sem stjórnað er af landsbyggðinni. Þetta verðum við að gera ef við ætlum einhvern veginn að ná árangri við að hamla gegn þeim miklu fólksflutningum sem eru í gangi og munu reynast okkur afskaplega dýrkeyptir og í rauninni miklu dýrkeyptari en því fjármagni nemur sem við gætum sett til menntamála úti um landið til þess að fólk geti fengið þá þekkingu og þá viðspyrnu sem þarf til þess að efla byggðirnar.

Hvað varðar frv. sem liggur hér fyrir um Kennaraháskólann þá er ekki margt um það að segja. Hér er breyting á lögum um Kennaraháskólann sem er kannski fyrst og fremst til samræmis og var viðbúið að mundi koma. Tekið hefur verið tillit til þess sem verið er að gera á öðrum vígstöðvum líkt og í Háskólanum á Akureyri. Ég hef í sjálfu sér engar athugasemdir og hef ekki heyrt neinar athugasemdir um þetta frv. sem lýtur að breytingu á lögunum um Kennaraháskólann.

Ég endurtek, herra forseti, að það eru þrjú atriði sem í rauninni skipta máli. Það er þetta orðalag sem lýtur að skrásetningargjaldinu og spurningin um það hvort hér sé á ferðinni ný hugsun eða hvort einungis sé um að ræða misheppnað orðalag sem verður lagfært í nefnd. Það er spurningin: Ef háskólaráð á að hafa frjálsar hendur um það að semja, af hverju er lagatextinn þá ekki þannig? Og síðan er ákvæðið sem var afgreitt með lögunum um háskóla og lýtur að fulltrúum ráðherra, hinum pólitísku fulltrúum í háskólaráði. Það eru þessi þrjú atriði, herra forseti. Síðan vænti ég þess að tóm gefist til að skoða þessi mál betur í nefnd.