Háskóli Íslands

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 14:18:03 (3940)

1999-02-19 14:18:03# 123. lþ. 70.5 fundur 509. mál: #A Háskóli Íslands# (heildarlög) frv., 510. mál: #A Háskólinn á Akureyri# (heildarlög) frv., 511. mál: #A Kennaraháskóli Íslands# (doktorsnafnbót, kærumál, gjöld o.fl.) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[14:18]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kaus að gera ekki athugasemdir við þá tilhögun að ræða þessi þrjú frumvörp öll í einu þó að til sanns vegar megi færa að ekki hefði veitt af að ræða málefni hverrar stofnunar fyrir sig. Frumvörpin eru ekki nema að hluta til um sameiginleg efni. Frv. um Háskóla Íslands er langviðamest eðli málsins samkvæmt.

Ég ætla að byrja á því frv., herra forseti, og ræða fyrst og fremst um eitt ákvæði. Ég get gert margt af því sem hv. síðasti ræðumaður sagði að mínum orðum um það mál almennt. En það sem ég hafði sérstaklega hugsað mér að taka fyrir eru ákvæði 18. gr. og hvað á bak við það liggur að hæstv. ráðherra velur að fara ekki að óskum háskólaráðs í því efni.

Ég held að sú grein sé ákaflega viðkvæm og menn þurfi að umgangast þá hluti sem þar eru á ferðinni --- og þá á ég auðvitað sérstaklega við þann félagslega rekstur sem stúdentaráð Háskóla Íslands hefur byggt upp og haft með höndum í þágu stúdenta --- af mikilli varúð. Eða er einhver hér sem treystir sér til þess að halda því fram að auðvelt sé að sýna fram á að þeim hlutum væri betur fyrir komið og myndarlegar að þeim staðið með öðrum hætti en þeim sem þar hefur verið? Mér a.m.k. sem fyrrverandi nemanda og stjórnarmanni í stúdentaráði og þátttakanda í þessum rekstri á sínum tíma er ákaflega annt um hann. Og það skal enginn fara í grafgötur um það að það litar nokkuð afstöðu mína að hafa átt þar setu á sínum tíma. Ég hef fylgst með því af stolti hvernig þeim málum hefur miðað á umliðnum árum frá því að ég var við nám í háskólanum, t.d. hvernig gjörbylting hefur orðið á húsnæðisaðstöðu á háskólasvæðinu og fleira mætti þar til telja.

Ég held þess vegna að við eigum ekkert að vera að fara í kringum þetta eins og kettir í kringum heitan graut heldur ræða hlutina eins og þeir eru. Er ætlun menntmrh. með þessu orðalagi seinni mgr. 18. gr. að opna fyrir einkavæðingu á þessum rekstri eða ekki? Er hæstv. menntmrh. andvígur því að þetta verði í aðalatriðum áfram í höndum stúdenta á grundvelli samninga þá sem háskólaráð gerir við stúdentaráð? Telur hæstv. menntmrh. að eitthvert annað fyrirkomulag sé lýðræðislegra, sé betur til þess fallið að mæta þörfum stúdenta heldur en rekstur sem er í höndum þeirra sjálfra og á ábyrgð þeirra sjálfra og lýðræðislega kjörnir fulltrúar stúdenta sjálfra hafa yfir að segja? Ef hæstv. menntmrh. er þeirrar skoðunar þá þætti mér fróðlegt að heyra röksemdafærslu fyrir því sjónarmiði. Ég sé engan annan sérstakan tilgang með þessu orðalagi en einhvern slíkan. Ella hlyti að vera eðlilegast og einfaldast að fara að óskum háskólaráðs í samræmi við afstöðu fulltrúa stúdenta þar inni um að heimildin taki til samninga við stúdentaráð og punktur, enda var ekki um annað beðið. Ég held því að hæstv. ráðherra hljóti að þurfa að rökstyðja mál sitt betur og færa fyrir því einhver rök að þetta sé heppilegt orðalag.

Ég vil einnig aðeins nefna skipunina í háskólaráð þó að það sé deila sem hafi verið tekin og útkljáð hér áður, þ.e. um hina pólitískt skipuðu fulltrúa ráðherrans inn í háskólaráðin sem lýsir einnig inn í ákveðna hugmyndafræði, ákveðna pólitík og er auðvitað til þess fallin í sjálfu sér að ganga gegn hugmyndum um fullkomið sjálfstæði og akademískt frelsi háskólastofnana, það liggur í hlutarins eðli, þ.e. að troða þar inn pólitískt skipuðum fulltrúum ráðherra. Ég vil alveg sérstaklega hrósa menntmrh. fyrir gamansemina og húmorinn að kalla þetta fulltrúa þjóðlífsins. Ef ég hef tekið rétt eftir þá var það nafngiftin sem hinir pólitísku erindrekar ráðherrans þarna inni bera í hans munni, fulltrúar þjóðlífsins. Það er litli maðurinn á götunni, fulltrúi þjóðarinnar, almennings sem á skjól sitt í hæstv. menntmrh. og fær í gegnum hann að hafa áhrif á starfsemina í Háskóla Íslands. Ég verð að segja það, herra forseti, með fullri virðingu fyrir hæstv. menntrh., að mér detta einhverjir aðrir fyrr í hug en hæstv. menntmrh. Björn Bjarnason þegar á að fara að koma að því að tilnefna fulltrúa þjóðlífsins, hvort sem það er í háskólaráð eða eitthvað annað. Þá held ég að nær væri að stærstu og fjölmennustu almannasamtök í landinu, t.d. Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja eða einhverjir aðrir slíkir aðilar væru þess frekar umkomnir að geta talist handhafar einhverrar þannig fjöldahugsunar í þjóðfélaginu, að þeir gætu séð um að tilnefna fulltrúa þjóðlífsins. (Gripið fram í.) Það gætu síðan verið hvaða einstaklingar sem vera skal, jafnvel hugsanlega hv. þm. Hjálmar Árnason, þó ég dragi það kannski í efa að mönnum dytti hann fyrst í hug sem fulltrúi þjóðlífsins þegar fara þyrfti að velja leikmenn til setu í háskólaráði. Ég efa ekki að hv. þm. gæti flutt mikið af mannviti og þekkingu á skólamálum þangað inn. --- Var þetta ekki bara nóg hrós um þingmanninn?

Herra forseti. Þetta tvennt ætlaði ég sérstaklega að gera að umtalsefni um málefni Háskóla Íslands. Ég held að það kosti miklar umræður og miklu vænni rökstuðning heldur en hingað til hefur komið fram að hafa þessari síðari mgr. 18. gr. svona úr garði gerða. Mér sýnist ekki örgrannt um að þetta frv. geti orðið úti hér í vorhretunum, í ljósi þess hversu skammt er til kosninga og þingslita, ef ekki næst fullkomin samstaða um fráganginn á þessu máli. Nóg er samt af deilum sem orðið hafa um málefni Háskóla Íslands eins og reyndar fleiri háskólastofnana á undanförnum árum.

Herra forseti. Þá vík ég að frv. um Háskólann á Akureyri. Ég fagna mörgum ákvæðum í því frv. Það á reyndar einnig við um frv. um Háskóla Íslands. Margt horfir til bóta í þessum frumvörpum. Ég held t.d. að sum ákvæðin sem varða innri stjórnsýslu í stofnunum séu tvímælalaust jákvæð. Ég held að það sé framfaraspor að fulltrúar kennara séu kosnir úr þeirra röðum en það sé ekki eins og áður var, a.m.k. í tilviki Háskólans á Akureyri. Ég þekki það ekki til að fullyrða. Var ekki eins með Háskóla Íslands að þar gengu sjálfkrafa inn tilteknir forustumenn deilda eða sviða? Það var a.m.k. þannig í háskólanum fyrir norðan en nú er horfið að því ráði hér að þetta verði lýðræðislegt, kosningar úr röðum kennara og það er breyting í rétta átt, finnst mér.

Ég vil einnig nefna alveg sérstaklega að hér er sett í lög heimild til handa Háskólanum á Akureyri, sem hann fær þá eins og Háskóli Íslands hefur lengi haft, til að hefja nám til masters- og doktorsprófs. Það er auðvitað tímabært, ekki síst í ljósi þess að þegar er í undirbúningi við Háskólann á Akureyri að hefja nám á framhaldsstigi, þ.e. framhaldsnám í lækningum, almennum lækningum eða heimilislækningum í dreifbýli. Því fagna ég einnig sérstaklega og mér finnst það fara vel að þannig verði riðið á vaðið fyrir norðan enda einn megintilgangur Háskólans á Akureyri og uppbyggingarinnar þar að mæta þörfum dreifbýlisins og landsbyggðarinnar fyrir háskólamenntun og byggja upp menntun sem er aðlöguð að þörfum og aðstæðum á landsbyggðinni.

Ég leyfi mér, herra forseti, í leiðinni að spyrja hæstv. ráðherra hvað líði byggingaráformum á háskólasvæðinu nyrðra. Háskólinn fékk til afnota glæsilegt svæði, Sólborgarsvæðið, og ég hef sagt það áður og get endurtekið að þar held ég að séu allar aðstæður til að byggja einhvern skemmtilegasta háskólakamp norðan Alpafjalla og jafnvel sunnan líka. En það þarf þá að byggja á staðnum og nýta svæðið til þess að það nái tilgangi sínum og þeir möguleikar sem þar felast nýtist. Það finnst mér hafa gengið fullhægt, herra forseti, í ljósi þess hversu mikla áherslu menn hafa þó þrátt fyrir allt lagt á uppbyggingu Háskólans á Akureyri til að þar færi ákveðið flaggskip í jákvæðri hugsun og nýrri hugsun í byggðamálum og menntamálum.

Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. menntmrh. beint og vona að það teljist ekki frávik frá dagskrá að tengja það inn í þessa umræðu: Hvað líður því að ganga frá samningum um fyrsta áfanga byggingar kennsluhúsnæðis fyrir Háskólann á Akureyri? Það hefur nokkuð dregist en ég vona að það sé í góðum farvegi. Getur hæstv. ráðherra upplýst okkur um það hvenær líkur eru á að þeir samningar verði í höfn, og samningar þá sem tryggja fjármögnun þessa áfanga, þannig að unnt verði að hefjast handa af fullum krafti? Hver vika sem líður er bagaleg í ljósi áforma um að hefja framkvæmdir á þessu ári. Og í öðru lagi spyr ég: Hvað líður viðræðum sem einnig hafa verið í gangi á hliðarspori um byggingu rannsóknarhúss á grundvelli tilboðs heimamanna um að fjármagna þá byggingu þangað til fjárveitingar yrðu tryggðar á fjárlögum? Þetta tvennt þarf alls ekki að skarast eða rekast á enda ljóst frá byrjun að hugsunin var sú að flýta byggingu rannsóknarhússins um allmörg ár frá því sem ella yrði á grundvelli tilboðs um sjálfstæða fjármögnun þannig að þær framkvæmdir hefðu engin áhrif á uppbyggingarhraðann í takt við það sem veitt er á fjárlögum hverju sinni til kennsluhúsnæðis og annarra hluta samkvæmt þeirri áætlun sem fyrir liggur.

Herra forseti. Ég segi svo bara í viðbót um málefni Háskólans á Akureyri að ég held að það hafi sannast trekk í trekk á undaförnum missirum hversu mikið framfara- og heillaspor var að ráðast í þá uppbyggingu. Það hefur orðið öllum aðilum til góðs, líka Háskóla Íslands, alveg hiklaust, vegna þess að þar hafa menn fengið á vissan hátt samkeppni, samanburð og á grundvelli verkaskiptingar getur þar þróast mjög heilbrigt fyrirkomulag, sérhæfing sem m.a. lýsir sér í því að að svo miklu leyti sem nám er sameiginlegt í Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands, þá kemur til sögunnar viss sérhæfing í því formi að námið nyrðra er þá meira aðlagað að þörfum landsbyggðarinnar og þjónar þeim tilgangi að nemendur sem útskrifast þaðan eru líklegri til þess að manna stöður á landsbyggðinni, eins og dæmin sanna. Ég held að það sé jákvætt nánast í öllu tilliti og hvernig sem á það er litið. Það eina sem var kannski ekki jákvætt í byrjun var að menn brugðust ekki alveg rétt við og það bar á því um tíma að menn væru í metingi og kapphlaupi um verkefnin. En ég held sem betur fer að það sé verða liðin tíð og andrúmsloftið í þessum samskiptum sé að komast á miklu heilbrigðari og uppbyggilegri grunn.

Ég vil nefna sem dæmi um gildi þess og það jákvæða sem þarna hefur verið að gerast það sem Háskólinn á Akureyri hefur verið að gera í fjarkennslu, alveg sérstaklega t.d. hjúkrunarfræðinámið á Ísafirði. Mér finnst það til fyrirmyndar að þannig skuli menn sýna í verki vilja sinn til þess að mæta þörfum landsbyggðarinnar fyrir sérhæft starfsfólk og um leið nýta nýjustu tækni þannig að allir geti verið stoltir af og meira að segja hið fræga dæmi frá háskólanum í Masatlan sennilega bara fölnar í samanburði við það sem Háskólinn á Akureyri er að gera.

[14:30]

Sama mætti segja um samstarf Háskólans á Akureyri við Austfirðingafjórðung og almennt það samstarf sem er að takast um uppbyggingu náms á háskólastigi víða á landinu, ekki í því formi að alls staðar verði reistir háskólar heldur hitt að menn nýta sér möguleika tækninnar og samvinnu til þess að allir landshlutar vonandi fyrr en síðar geti átt vissa aðild að háskólanámi því það hlýtur auðvitað að vera markmiðið.

Herra forseti. Hvað varðar frv. um Kennaraháskóla Íslands þá skal ég gera þá játningu að ég hef ekki mikið farið yfir það hvað þar er á ferðinni. Þar eru reyndar sömu ákvæðin á ferðinni og eru í 18. gr. frv. um Háskóla Íslands og frv. um Háskólann á Akureyri, en ég hef skilið það svo að þau ákvæði séu í raun ekki virk af því að þar eru á ferðinni miklu minni stofnanir og ekki muni reyna á það með sama hætti og gerir gagnvart Háskóla Íslands að þau geti komið til framkvæmda.

Það er eitt atriði enn að lokum um það mál svo ég hverfi aftur til þess, herra forseti, sem ég hafði aðeins ætlað að nefna og það er vísan í 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins. Í 3. mgr. þeirrar greinar er fjallað um ríkisstofnanir í A-hluta, en ég minni á að sú grein er í raun þannig upp byggð að hún felur fyrst og fremst í sér heimildir ráðherra í tengslum við afgreiðslu fjárlaga til að gera samninga um þjónustuverkefni. Auðvitað getur maður hugsað sér að menntmrh. fyrir hönd Háskóla Íslands komi athugasemdum inn í fjárlög um að háskólaráð hyggist jafnvel leita til einkaaðila um einhverja tiltekna þjónustu en það er orðið nokkuð krókótt leið. Og ég er ekki viss um þar af leiðandi að vísunin í 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins sé jafnrökrétt eða skynsamleg og að í henni sé í rauninni einhver vörn í þeim skilningi sem menn hafa kannski hugsað. Sú grein snýr fyrst og fremst að þeim rekstri sem er á ábyrgð viðkomandi ráðherra beint. Í síðustu málsgrein greinarinnar er sleginn sá varnagli sem ekki er að ástæðulausu og er stórpólitískt atriði, að Alþingi komi að málinu í gegnum afgreiðslu fjárlaga hverju sinni vegna þess að heimildin verður ekki virk nema að getið sé um slíkt áform í greinargerð með fjárlagafrv. í hönd farandi árs. Þar með finnst mér, herra forseti, leiðin vera orðin nokkuð krókótt frá háskólaráði gegnum menntmrn. væntanlega og síðan yfir í fjmrn. og úr fjmrn. inn í fjárlagafrv. og hingað á Alþingi og til baka, að nýta slíka heimild. Þetta er ekki endilega eins gáfulegt og við fyrstu sýn mætti ætla. Ég held að hitt sé miklu vænlegra að hafa heimildina í lögunum um háskólann eða háskólastofnanirnar skýra og afdráttarlausa og skýrt afmarkaða þannig að ekki þurfi að koma til pólitískra deilumála um það hvernig eða hvort hún skuli vera notuð.