Háskóli Íslands

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 14:34:12 (3941)

1999-02-19 14:34:12# 123. lþ. 70.5 fundur 509. mál: #A Háskóli Íslands# (heildarlög) frv., 510. mál: #A Háskólinn á Akureyri# (heildarlög) frv., 511. mál: #A Kennaraháskóli Íslands# (doktorsnafnbót, kærumál, gjöld o.fl.) frv., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[14:34]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér eru til umræðu þrjú frv., um Háskóla Íslands, um Háskólann á Akureyri og um Kennaraháskóla Íslands. Frumvörp þessi byggja á rammalöggjöf með lögum nr. 136/1997, sem tóku gildi þann 1. janúar sl. Ég hygg að allir séu sammála um að tímabært hafi verið að setja slíka rammalöggjöf um háskólastigið enda hefur háskólum fjölgað má segja nokkuð ört á Íslandi á undanförnum árum og því orðin full þörf og tímabært að setja slíka rammalöggjöf. Í rauninni má segja að það sé ánægjulegt að sú þörf hafi skapast. Hún sýnir að menntastig þjóðarinnar er smám saman að hækka og ættum við þá að eygja vonir um framfarir á sem flestum sviðum enda er fjárfesting í menntun lykill að öllum framförum.

Með þessum frv. er verið að aðlaga einstaka háskólastofnanir að þessari rammalöggjöf og er rökrétt framhald. Ég tel að með frv. náist þau markmið sem sett eru um háskóla að langsamlega flestu leyti, enda hafa þessi frv. fengið nokkuð góðan tíma til umfjöllunar, bæði á síðasta þingi í hv. menntmn. og ekki síður innan háskólasamfélagsins og verður ekki betur séð en að mjög miklu leyti hafi frv., sérstaklega um Háskóla Íslands, verið breytt í samræmi við hina ítarlega umfjöllun innan háskólasamfélagsins.

Það er mjög mikilvægt í þessu samhengi að minnast á gildi og nauðsyn þess að háskólasamfélagið hafi sjálfstæði til þess að gegna hinu mikilvæga hlutverki sínu. En vandi fylgir vegsemd hverri og sjálfstæði getur verið afskaplega erfitt í meðförum vegna þess að því fylgir mikil ábyrgð. Og til þess að axla þá ábyrgð og geta uppfyllt þær kröfur sem ábyrgð óneitanlega fylgir þurfa leikreglur að vera nokkuð skýrar. Það er því grundvallaratriði að stjórnunarhættir mikilvægrar, stórrar og um margt flókinnar stofnunar séu nokkuð skýrir og skilvirkir. Ég tel að þau markmið séu sett í þeim frv. sem hér liggja fyrir.

Þá er mjög mikilvægt að stórar stofnanir sem starfa sjálfstætt hafi innbyggða sjálfsgagnrýni, má segja, með innra eftirliti og séu reiðubúnar að taka við utanaðkomandi eftirliti til að halda vöku sinni og auka í rauninni framfarir innan stofnunarinnar og ég tel að þeim markmiðum sé náð með þessum frv.

Einnig er mjög mikilvægt að innan stofnananna gildi lýðræðislegar hefðir, lýðræðislegar siðvenjur og lýðræðisleg ákvarðanataka og það er gert m.a. með fulltrúalýðræði í yfirstjórn háskólanna. Ég tel með öðrum orðum að meginmarkmið um sjálfstæði stofnana séu tryggð með þeim frv. sem hér eru til umfjöllunar, um skilvirka stjórnun, um ábyrgð og eftirlit, og er það vel.

Þetta sjálfstæði er mjög mikilvægt, ekki síst í háskólasamfélagi, ekki einungis hér heldur er það einkenni á háskólasamfélagi eða akademíu um heim allan, ef akademían vill taka sig alvarlega og láta til sín taka og standa undir nafni. Það er mikilvægt, ekki endilega vegna kennsluþáttarins heldur vegna rannsóknarskyldunnar og rannsóknarþáttarins sem fylgir háskólasamfélaginu. Rannsóknir eru jú uppspretta nýjunga og uppspretta framfara.

Eðli rannsókna, ekki síst grunnrannsókna, er þannig að þær kunna ekki alltaf að virðast hagkvæmar eða hafa augljósan tilgang og þess vegna er einmitt, vegna hugsanlegrar óþreyju samtímans og kröfu um árangur, mjög mikilvægt að rannsóknaraðilar hafi sjálfstæði til að helga sig störfum sínum og rannsóknarskyldu. Það er eðli þeirra. Þess vegna er sjálfstæði í háskólasamfélaginu jafnmikilvægt og raun ber vitni. Vegna þess að háskólasamfélagið, rannsóknaraðilarnir, er og á að vera á undan samtíma sínum ef þannig má að orði kveða.

Ég leyfi mér að fullyrða að háskólar á Íslandi hafa staðið mjög ágætlega undir þeim kröfum og hafa sinnt rannsóknarskyldum sínum afskaplega vel að langsamlega flestu leyti, hvort heldur er um grunnrannsóknir eða hagnýtar rannsóknir að ræða. Ég leyfi mér að gefnu tilefni og í ákveðnum fögnuði yfir nýjum dæmum um vetnisvæðingu íslenska samfélagsins að vísa þar sérstaklega til Háskóla Íslands, manna eins og prófessors Braga Árnasonar, sem hefur unnið ötullega að rannsóknum á því sviði undanfarin 25 ár, án þess að samtíminn sæi endilega tilgang í því á sínum tíma. Ég leyfi mér að fullyrða að sá samningur sem Ísland gerði við erlenda aðila í fyrradag hefði aldrei orðið ef ekki hefði notið við þeirra rannsókna sem Háskóli Íslands undir forustu prófessors Braga Árnasonar hefur lagt fram.

Þá leyfi ég mér einnig að vísa til ýmissa lokaverkefna nemenda í háskólasamfélaginu sem hafa mörg hver mjög hagnýtt gildi þar sem lokaverkefnin tengjast gjarnan starfsemi einstakra fyrirtækja eða viðfangsefna í samfélaginu. Að því leyti til má segja að háskólasamfélagið hafi mjög góða tengingu við umhverfi sitt, en er jafnframt fjarlægt umhverfi sínu með öðrum hætti, einkum í grunnrannsóknum.

Ég vil líka aðeins víkja að hlutverki einstakra stofnana háskólans sem hafa æ meira látið til sín taka á síðustu missirum. Og þjóðfélagið, hvort heldur er atvinnulíf, Alþingi eða aðrar stofnanir, leita til stofnana háskólans í vaxandi mæli vegna þess að þetta eru einmitt stofnanir háskóla og hafa þar af leiðandi tengsl við háskólann og starfa í nafni háskólans. Ég nefni þetta, herra forseti, að gefnu tilefni vegna þess að í þessum ræðustól fóru ekki alls fyrir löngu fram umræður um það hvort stofnanir háskólans stæðu undir því að vera háskólastofnanir. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir því að slíkar stofnanir geti og eigi í rauninni að starfa áfram undir stjórn, yfirstjórn og eftirliti háskólaráðs. Þar af leiðandi er eðlilegt að draga þá ályktun að stofnanir háskólans séu hluti af akademíunni og þær eigi því að hafa þann stimpil að þangað geti einstaklingar, fólk og fyrirtæki leitað til þess að fá hlutlægt álit og mat á málefnum og einstökum atburðum.

Það sem ég hef dregið fram hér er um gildi sjálfstæðis fyrir háskólasamfélagið og ég tel að að flestu leyti þjóni frumvörpin þeim markmiðum og séu unnin að langsamlega flestu leyti í sátt við háskólasamfélagið enda hafa þau fengið góðan tíma.

En það eru nokkur atriði, herra forseti, sem ég vil nefna sérstaklega. Ég vísa enn til þess sem ég nefndi um lýðræðislega ákvarðanatöku og leyfi mér að byggja að nokkru leyti á samþykktum háskólaráðs á vinnsluferli frv. um Háskóla Íslands. Þar er með umsögn sem byggir á samþykkt frá háskólaráði þann 19. nóv. sl. bent á ýmis atriði sem háskólaráð telur að betur mættu fara í frv. Það eru með öðrum orðum ýmis álitamál sem ég tel eðlilegt að skoðuð verði frekar í hv. menntmn. En ég vil þó gera hér sérstaklega að umræðuefni ákvæði sem um var fjallað í þingflokki framsóknarmanna með vísan til samþykktar háskólaráðs frá 19. nóv. sl., en í þeirri samþykkt segir, með leyfi herra forseta:

,,Lagt er til að aftan við síðasta málslið 3. mgr. 13. gr. bætist tveir málsliðir svohljóðandi: Háskólaráði er ennfremur heimilt að semja við stúdentaráð um að sjá um afmörkuð rekstrarverkefni og verja í því skyni hluta skrásetningargjaldsins. Um efni, gerð og réttaráhrif samningsins fer samkvæmt 30. gr. laga um fjárreiðu ríkisins.``

Síðan segir í skýringargreininni --- þar er í rauninni verið að færa rök fyrir því hvaða hlutverk stúdentaráð skipar í háskólasamfélaginu. --- Í skýringum við þessa samþykkt háskólaráðs segir jafnframt, með leyfi herra forseta:

,,Með breytingunni er þannig leitast við að tryggja með ótvíræðum hætti að háskólaráði verði heimilt að ganga til samninga við stúdentaráð Háskóla Íslands um rækslu tiltekinnar þjónustu gegn greiðslu og verja til þess hluta skráningargjaldsins.``

[14:45]

Í rauninni er verið að fjalla um það sem stúdentaráð Háskóla Íslands lagði til, að heimilt væri að semja við stúdentaráð Háskóla Íslands án undangengis útboðs. En í frv. er gert ráð fyrir slíkri heimild og þar er talað um stúdentaráð Háskóla Íslands eins og önnur félög, einstaklingar eða stofnanir.

Ég tel, herra forseti, rétt að minna á að stúdentaráð Háskóla Íslands starfar samkvæmt hefð sem nær allt aftur til ársins 1920. Það er líka rétt, herra forseti, að minna á að stúdentaráð er stór hluti af háskólasamfélaginu. Háskóli snýst ekki eingöngu um rannsóknir eða kennslu, hann snýst líka um ýmsa félagslega þætti. Það eru þeir þættir sem stúdentaráð, sem hinn eini sameinaði og lýðræðislega kjörni vettvangur stúdenta er og hefur verið allt frá 1920. Þess vegna hefur verið leitað til stúdentaráðs um að veita tiltekna þjónustu, m.a. til að gæta hagsmuna stúdenta innan þessarar miklu og mikilvægu stofnunar og til þess að veita stúdentum ýmsa þá þjónustu sem nauðsynleg er. Eðlilegt er að stúdentar sjálfir reki slíka þjónustu enda vita þeir betur en aðrir hvar þjónustu er helst þörf.

Við í þingflokki framsóknarmanna teljum ástæðu til þess að eyða öllum vafa um, eins og textinn er núna í frv., að háskólaráði sé skylt að auglýsa útboð um hverja eina þjónustu í stað þess að geta gengið beint til samninga við stúdentaráð. Rétt er að vekja athygli á því að þó að ekki sé boðið út hefur háskólaráð full tök á slíku máli því að hér er um heimildarákvæði að ræða og í því felst heimild til þess að semja. Í því felast samningar. Samningar fela í sér að aðilar þurfa að koma sér saman um verð fyrir slíka þjónustu.

Þingflokkur framsóknarmanna hefur gert það að skilyrði fyrir því að samþykkja frv. að þessum vafa verði eytt þannig að í frv. komi texti sem eyði þeim vafa þannig að háskólaráð hafi heimild til að semja beint við stúdentaráð Háskóla Íslands um tiltekna þjónustu. Fyrir þessu gerði þingflokkur framsóknarmanna bréflega grein til samstarfsflokksins og við lítum þar af leiðandi svo á að með framlagningu frv. séu stjórnarflokkarnir sammála um það. Ég ítreka að þetta er skýr fyrirvari af hálfu þingflokks framsóknarmanna. Ég trúi og vona að samkomulag geti náðst um það í hv. menntmn.

Ég vil enn fremur, herra forseti, aðeins víkja að því sem hefur verið nefnt um skipan fulltrúa í stjórn háskólaráðs þar sem kveðið er á um að ráðherra skipi tvo þjóðlífsfulltrúa. Hér hefur verið bent á að heppilegra sé að Alþingi skipi slíka fulltrúa og stutt þeim rökum að ráðherra, hver sem hann er hverju sinni, skipi pólitíska fulltrúa. Það er afskaplega vandmeðfarið mál og ég hygg að enginn ágreiningur sé um mikilvægi þess að svonefndir þjóðlífsfulltrúar komi að stjórnun háskólans. En það er vandi að finna þá einstaklinga sem eru ekki pólitískt skipaðir og sannarlega yrði skipun slíkra fulltrúa af hv. Alþingi pólitísk skipan. Sama má segja um Alþýðusamband Íslands, sem var nefnt fyrr í umræðunni, þar starfa auðvitað líka pólitískir fulltrúar. Ég sæi fyrir mér í sjálfu sér og gerði ekki athugasemd við það að Alþingi skipaði slíka fulltrúa en um þetta er ekki ágreiningur. Það atriði sem ég nefndi á undan um heimild til háskólaráðs að bjóða stúdentaráði að taka að sér ákveðna þjónustu án útboðs er í rauninni eini formlegi fyrirvarinn sem þingflokkur framsóknarmanna hefur á málinu.

Þá vil ég nefna rétt að lokum, herra forseti, það ákvæði sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir vék að um innritunargjaldið og breytingu á orðalagi frá því sem er í lögum um Kennaraháskóla Íslands. Ekkert annað hefur komið fram, hvorki af hálfu hæstv. menntmrh. né annarra þingmanna stjórnarliða, en að sá skilningur sé enn til staðar að ekki sé verið að leggja á skólagjöld. Til þess að eyða þeim vafa teldi ég ekki óeðlilegt að orðalaginu væri breytt til samræmis við það sem áður hefur verið lýst yfir og er í fyrri lögum um háskóla, um allt að 25 þúsund kr. gjald. Ég tel rétt að nefna það til þess að fyrirbyggja allan misskilning. Því var vandlega lýst yfir af hæstv. menntmrh. og tekið undir af hv. formanni og varaformanni menntmn., þegar rammalöggjöf um háskóla var sett, að ekki væri verið að innleiða skólagjöld og ef til þess kæmi yrði þess getið sérstaklega. Ég trúi að það sé sameiginlegur skilningur stjórnarflokkanna að sú stefna sé óbreytt.

Herra forseti. Ég læt þessi orð nægja. Ég vonast til þess að þetta mál fái farsæla afgreiðslu í hv. menntmn. Þó tíminn sé skammur hygg ég að málið hafi tekið það miklum breytingum og það eru ekki mörg atriði sem ágreiningur er um. Vona ég og veit svo sem til þess að háskólasamfélagið vill eyða óvissu með því að fá lög sem fyrst. Ég vonast til þess að Alþingi beri gæfu til að ljúka þessu verki og setja lög um þessa háskóla áður en þingi verður slitið nú í vor.