Háskóli Íslands

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 15:13:02 (3943)

1999-02-19 15:13:02# 123. lþ. 70.5 fundur 509. mál: #A Háskóli Íslands# (heildarlög) frv., 510. mál: #A Háskólinn á Akureyri# (heildarlög) frv., 511. mál: #A Kennaraháskóli Íslands# (doktorsnafnbót, kærumál, gjöld o.fl.) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[15:13]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Hér eru til umræðu þrjú frv. um háskóla í framhaldi af rammalöggjöf um háskólastigið. Skemmst er frá því að segja að hér kemur fátt á óvart nema kannski helst hve tekist hefur að einfalda löggjöfina um Háskóla Íslands, sem ég fagna að vissu leyti. Hér er um mun meiri rammalöggjöf að ræða sem losar stofnunina dálítið frá löggjafanum og gerir hana sjálfstæðari á vissan hátt. Um leið fær reyndar menntmrh. fulltrúa tvo fulltrúa í háskólaráð og þannig verða pólitísku tökin öðruvísi en hingað til t.d. ef tekin er upp kennsla í nýjum greinum eða nýjar deildir verða til.

Þegar rammalöggjöfin um Háskóla Íslands var samþykkt var fyrirséð breyting á háskólaráði langumdeildust, þ.e. ljóst var að fækka ætti í háskólaráði og það olli töluverðum titringi í Háskóla Íslands. Þá þegar, fyrir tveimur árum, var sú lausn í augsýn sem hér er svo lagt til að verði lögfest. Ég geri ekki miklar athugasemdir við þá lausn. Ég tel þetta nokkuð farsæla leið til lausnar, þ.e. annars vegar að hafa háskólaráð sem framkvæmdaráð og hins vegar háskólafund, stefnumarkandi aðila sem nær til flestra deilda og stofnana skólans.

[15:15]

Einn kostur við þá skipan sem hér er lögð til er einmitt sá sem ég hef gert áður að umtalsefni, nefnilega sá að þar með er vikið frá þeirri innbyggðu kynjamismunun sem verið hefur í háskólaráði. Á meðan flestir í háskólaráði voru deildarforsetar var nokkuð ljóst að varla gat orðið jafnræði með kynjunum í háskólaráði þar sem eingöngu 7%, minnir mig, prófessora eru konur og það er eingöngu prófessorar sem eru kjörgengir til deildarforseta. Að því leyti til er kannski meiri von núna með þessari breyttu skipan að meira jafnræði verði með kynjunum í háskólaráði og því fagna ég.

Háskólafundurinn er lýðræðislegri stofnun, þ.e. nær til mun fleiri stofnana og deilda en kemur eingöngu saman einu sinni á missiri eða a.m.k. einu sinni á missiri. Mér sýnist að samspil háskólaráðs og háskólafundar verði kannski svipað í reynd og á milli deildarfunda og deildarráðs sem hefur reynst ágætlega. Ég tel að þetta fyrirkomulag sé vel þess virði að prófa það.

Eins og ég sagði áðan er hér um rammalöggjöf að ræða, mjög mikla einföldun frá núgildandi lögum. Þar með er það í raun og veru ekki fest í lög hvaða deildir eru í skólanum, hvaða greinar eru kenndar, hvaða fastanefndir eru starfandi o.s.frv. Þetta hlýtur að vera sveigjanlegra fyrir stofnunina sjálfa og veita henni meira sjálfstæði. En á móti kemur að áhrifin, hin pólitísku áhrif, koma í gegnum fulltrúa menntmrh. inn í háskólaráð. Ég tel, þó að það sé auðvitað mjög umdeilt að menntmrh. eigi þarna fulltrúa, að þetta sé þó í samræmi við þá þróun sem er að eiga sér stað víða að það er framkvæmdarvaldið frekar en löggjafarvaldið sem hefur puttana í ríkisstofnunum þó að það sé kannski umdeilanlegra þegar um akademíska stofnun er að ræða sem vill í lengstu lög varðveita sitt akademíska frelsi. Við skulum bara vona að vel takist til um skipan þessara fulltrúa og þetta verði til þess að auka víðsýni í stofnuninni fremur en að ráðið verði bara í pólitískum greipum.

Umdeildasta atriði frv. er að mínu mati í 18. gr. Margir hafa gert hana að umtalsefni hér. Ég ætla ekki að ítreka hana, þ.e. hvers vegna nú virðist eiga að ógna tilvist stúdentaráðs með því að bjóða fleirum en stúdentaráði að taka að sér ákveðna þjónustu. Mig langar að spyrja beint eins og fleiri hafa gert hér, hvort hugmyndin sé sú að kippa stoðunum undan starfsemi stúdentaráðs, hvað vaki fyrir hæstv. ráðherra með þessu ákvæði, hvers vegna ekki er farið að beiðni háskólaráðs um að það eigi að gera slíka samninga við stúdentaráð og enga aðra. Það kom fram hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni að stjórnarflokkarnir eru greinilega klofnir með tilliti til þessa atriðis þannig að ég bind miklar vonir við að þessu verði breytt í hv. menntmn. og mun gera mitt til að svo verði.

Herra forseti. Ég var að nefna jafnrétti kynjanna og skipan háskólaráðs, og við vorum að ræða jafnréttismál í morgun. Þá var m.a. rætt um að það þyrfti að vera fræðsla um jafnréttismál á öllum skólastigum og einnig var rætt um að það þyrfti að vera sérstaklega tekið á kynferðislegri áreitni í skólum landsins. Ég velti því fyrir mér að í þessari rammalöggjöf er greinilega ekki rúm fyrir ákvæði af þessu tagi og vissulega gilda þá ákvæði jafnréttislaga um háskólann eins og um aðrar stofnanir. Fyrir þessu er reyndar engin trygging og er þess vegna ókostur rammalöggjafar. Ég vildi gjarnan sjá ákvæði af þessu tagi í háskólalöggjöfinni en vil benda á að núna er starfandi fastanefnd í háskólanum um jafnréttismál vegna þess að núverandi rektor hefur lagt áherslu á jafnréttismálin innan skólans. En ef til kæmi annar rektor sem ekki hefði þessi sömu áhugamál þá væri honum í lófa lagið að leggja t.d. jafnréttisnefndina niður og allt það góða starf sem hún hefur unnið og er að vinna að.

Ég nefni þetta hér til þess að benda á ókostina við það að hafa lögin svona losaraleg. Það er mjög erfitt að tryggja festu í málum sem eru nú komin á góðan rekspöl en gætu hreinlega stöðvast með tilkomu nýs rektors.

Að öðru leyti fagna ég þessu frv. um Háskóla Íslands. Ég tel að það sé almennt nokkuð gott fyrir utan þau atriði sem ég hef nú nefnt.

Um frv. um Háskólann á Akureyri er það að segja að ég vil taka undir þau góðu orð sem hér hafa fallið um þann skóla. Ég held að það sé alveg ljóst að sú stofnun hefur reynst mjög farsæl fyrir byggðaþróun í landinu. Þó svo að nám þar sé enn töluvert dýrara að meðaltali á hvern nemanda þá er vonandi að sá kostnaður náist niður. Það er eðlilegt að svo sé meðan uppbygging á sér stað. Frv. sem nú liggur fyrir var lagt fram á síðasta þingi en varð þá eigi útrætt. Það sem hefur breyst finnst mér athyglisvert, þ.e. annars vegar heimild til Háskólans á Akureyri til að veita doktorsnafnbót og hins vegar hefur markmiðsgreinin breyst, það er rætt um nám á tilteknum sviðum en ekki bundið við ákveðnar deildir eins og áður var. Upptalningin er ekki tæmandi og það finnst mér eðlilegt til þess að skólinn geti þróast í takt við þjóðfélagið og í takt við þær þarfir sem upp koma á næstu árum.

Hæstv. forseti. Um 7. gr. vil ég gjarnan spyrja hæstv. menntmrh. hvort það sé rétt skilið að háskólaráð Háskólans á Akureyri geti ákveðið t.d. hvort rektor verði kosinn, hvort sá háttur yrði tekinn upp. Ég skil það þannig að það gæti verið ákvörðun háskólaráðs.

Varðandi gjaldtökugreinina, þessar 25 þús. kr., þá er greinilegt að sama orðalagið er viðhaft í frv. og í frv. um Háskóla Íslands þó að það sé annað en í gildandi lögum um Kennaraháskólann eins og hér var bent á áðan. En mér fannst ákaflega athyglisvert að heyra frá hv. þm. Hjálmari Árnasyni að hann mundi styðja það að breyta orðalaginu í þessum greinum háskólafrv., bæði Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri, til samræmis við það sem er í lögunum um Kennaraháskólann vegna þess að þá væri tryggt að þetta væri ekki skólagjald heldur skráningargjald, ef orðalagið væri ,,allt að 25 þús. kr.`` í staðinn fyrir ,,25 þús. kr.`` Þetta er kannski dæmi um hvaða orðhengilsháttur er notaður hér til þess að reyna að fara í kringum hlutina. Það má ekki segja hlutina beint eins og hér er verið að gera heldur á aðeins að breyta orðalaginu og þá er búið að bjarga málunum frá því að vera skólagjöld. Ég mun því vera tilbúin í þessa umræðu en ég held að það sé kominn tími til að slíkur orðhengilsháttur verði ekki ráðandi í löggjöf hér á landi, að við segjum bara hlutina, hvað meint er, alveg beint út.

Um breyting á lögum um Kennaraháskóla Íslands er mjög lítið að segja. Þarna er fyrst og fremst verið að samræma við þessi tvö síðarnefndu frv. Það er þó athyglisvert að lögin eru ekki nema tveggja ára gömul og þegar eru komnar töluverðar brtt. Þarna er fyrst og fremst verið að samræma atriði varðandi gjaldtöku, meðferð kærumála og einnig er nú heimilað að taka upp doktorsnafnbót til samræmis við hina háskólana. Það er mjög athyglisvert finnst mér, herra forseti, að um leið og heimila á að taka upp doktorsnafnbót þá segir í kostnaðaráætlun að ekki sé gert ráð fyrir að þarna verði verulegur kostnaðarauki. Mig langar að spyrja hæstv. menntmrh.: Á það ekki að kosta neitt að veita doktorsgráður? Er það vegna þess að þarna á bara að verða um heiðursdoktor að ræða? Verða þeir svona fáir eða hvernig má það vera að það að taka upp kennslu til nýrrar gráðu eigi ekki að kosta neitt?

Herra forseti. Þegar rammalöggjöfin var sett fyrir tveimur árum gagnrýndi ég m.a. að það væri ekki nógu vel skilgreint hvað væri háskóli. Það varð eiginlega niðurstaðan að allar skólar sem byggja á stúdentsprófi sem inngöngu verði viðurkenndir sem háskólar. Þeir háskólar sem hér um ræðir, þ.e. Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Kennaraháskóli Íslands, hafa allir verið skilgreindir sem vísindastofnanir og rannsóknastofnanir og allir eiga þeir að fá heimild til þess að veita doktorsnafnbót og eru eiginlega skilgreindir svipað. Það verður t.d. fróðlegt að fylgjast með hvort það verður þróunin um alla aðra háskóla sem væntanlega verða stofnaðir og þá er ég að skírskota til löggjafar um fleiri skóla. T.d. býst ég við því að brátt komi löggjöf um Verslunarháskólann eða Tækniskólann. Og ég velti því fyrir mér hvort þeir eigi einnig að vera skilgreindir eins og þessir þrír. Mér finnst líka athyglisvert í 16. gr. háskólafrv. orðalagið um doktorsnafnbótina. Þarna er talað um heiðursdoktorsnafnbót. Í 16. gr. stendur, með leyfi forseta:

,,Slíka nafnbót má veita í heiðursskyni, að undangengnu sérstöku doktorsnámi eða með vörn sérstakrar doktorsritgerðar.``

Það er yfirleitt talað annars vegar um heiðursdoktora eða um doktorspróf eða gráður sem unnið er til. Mér finnst þetta orðalag dálítið óskýrt. Ég tala nú ekki um þegar gefið er til kynna að þetta eigi ekki að kosta neitt. Þess vegna vil ég biðja um skýringar á þessu. Hvers konar doktorsnám er verið að tala um og á það að kosta eitthvað eða ekki?

Þetta eru kannski frekar smáatriði. Í heild tel ég að hérna sé um nokkuð vel heppnuð frv. að ræða og mun leggja því lið að þau komist í gegn. En aðalgagnrýnisatriðið er í 8. gr. háskólafrv. sem reyndar er orðað svipað í hinum frv. líka, en í reynd skiptir það mestu máli fyrir Háskóla Íslands.