Skógrækt og skógvernd

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 16:52:29 (3953)

1999-02-19 16:52:29# 123. lþ. 70.12 fundur 483. mál: #A skógrækt og skógvernd# frv., 484. mál: #A landshlutabundin skógræktarverkefni# frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[16:52]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er kannski ekki miklu við að bæta en ég get þó vissulega tekið undir að vel kann að vera að mitt viðhorf sé annað til þessara mála eftir að hafa setið í báðum ráðuneytunum, eins og hv. þm. benti á en miklu sennilegra er að svo verði ekki áfram, þó ekki væri nema bara með tilliti til þess hversu viðamiklir þessir málaflokkar eru hvor um sig. Reyndar á það nú held ég við um flest ráðuneyti, að ekki fer mjög vel á því að sömu ráðherrar gegni mörgum ráðherraembættum. Þessu hef ég lýst yfir áður, hæstv. forseti, úr þessum ræðustóli og get vel ímyndað mér að breytingar verði þar á hvað þetta varðar. En það er síðari tíma mál og annarra að taka ákvarðanir um það.

Ég held samt að það eigi ekki að þurfa að ráða úrslitum í þessu efni frekar en gerist bara með ýmsa aðra málaflokka sem skarast og átök kunna að vera um og á milli. Og stofnanir sem heyra undir ráðuneytin, t.d. umhvrn., Náttúruvernd ríkisins og Náttúrufræðistofnun eru auðvitað stofnanir sem fylgjast með þessum málum, hafa ákveðin skilgreind hlutverk og verkefni og eiga auðvitað að gæta þess að hvaða starfsemi önnur sem er, t.d. í landbúnaði, hvort sem það er skógrækt eða aðrir þættir sem varða þann málaflokk, sé rekin og stjórnað þannig að ekki brjóti í bága við þau lög sem þessar stofnanir eiga að sjá um og fylgja eftir. Ég er því annarrar skoðunar en hv. þm. hvað það varðar að skipta þessum málaflokkum upp eða skipta þeim milli ráðuneytanna. Þó verð ég að segja að lokum --- ég sé að tími minn er alveg að renna út --- að mér fyndist að það kæmi frekar til álita í sambandi við landgræðslu og ýmis landbótaverkefni en með skógræktarverkefnin. Ég held að það væri fremur þar sem það gæti verið álitamál. Umræðuna um eina stofnun yfir allan þennan málaflokk þekkjum við og höfum tekið áður en ekki er tími til að ræða það sérstaklega.