Hollustuhættir og mengunarvarnir

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 16:57:10 (3955)

1999-02-19 16:57:10# 123. lþ. 70.14 fundur 526. mál: #A hollustuhættir og mengunarvarnir# (gjaldskrá sveitarfélaga) frv., umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[16:57]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.

Núgildandi lög um hollustuhætti og mengunarvarnir voru samþykkt á Alþingi í mars 1998 og eru því ekki nema rétt tæplega ársgömul. Frá því í vor hefur verið unnið að því í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga að koma lögunum til framkvæmda. Fljótlega komu fram óskir frá Sambandi ísl. sveitarfélaga um að ráðherra gæfi ekki út hámarksgjaldskrá vegna heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlits, eins og kveðið er á um í 12. gr. laganna, heldur yrðu þessi mál í höndum sveitarfélaganna vegna sjálfsforræðis þeirra við framkvæmd þeirra verkefna sem þau önnuðust lögum samkvæmt eins og hér á við.

Þær breytingar sem lagðar eru til í frv. þessu taka mið af því að sveitarfélögin geti án afskipta ráðuneytisins sett sér gjaldskrár fyrir eftirlitsskylda starfsemi en þar er um að ræða heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit og vegna leyfa, leigu eða veittrar þjónustu og að ráðuneytið gefi út leiðbeinandi reglur um uppbyggingu gjaldskráa sveitarfélaga í stað þess að setja hámarksgjaldskrá. Samkvæmt frv. skal ráðherra skal ekki lengur setja hámarksgjaldskrá vegna eftirlitsskyldar starfsemi, sbr. 12. gr. laganna, heldur leiðbeinandi reglur um uppbyggingu gjaldskráa. Viðurkennt er að kostnaður sveitarfélaga við eftirlit er mismunandi eftir svæðum, því sé ekki rétt að ráðherra setji svokallaða hámarksgjaldskrá. Með því að fela ráðherra að setja leiðbeinandi reglur er komið til móts við kröfur atvinnulífsins um samræmda uppbyggingu á gjaldskrám einstakra sveitarfélaga en ráðherra er ekki lengur falið að setja reglur um sjálfa gjaldtökuna, þ.e. upphæð gjalda. Gjaldtaka sveitarfélaga skal vera rökstudd þannig að um sé að ræða raunkostnað vegna veittrar þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Er þetta í samræmi við viðurkenndar reglur um innheimtu þjónustugjalda. Frv. snertir framkvæmd laganna með tvennum hætti, annars vegar með gjaldtöku fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit og hins vegar með ýmiss konar gjaldtöku í framhaldi af samþykktum sveitarfélaga, svo sem um hundahald, kattahald og meðferð úrgangs og skolps o.s.frv.

Með framangreindum hætti yrði það hlutverk sveitarfélaganna að standa ábyrg fyrir gjaldtökumálum á öllum stigum og það yrði hvorki hlutverk ráðuneytisins að staðfesta slíkar gjaldskrár né birta, heldur sveitarfélaga sjálfra eða hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar fyrir þeirra hönd varðandi gjaldskrá fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlitið.

Frv. það sem hér um ræðir er unnið að höfðu samráði við Samband ísl. sveitarfélaga og Vinnuveitendasamband Íslands og er samstaða um það eins og það er hér sett fram. Þá var leitað umsagnar hollustuháttaráðs, sem starfar skv. 17. gr. áðurnefndra laga.

Hæstv. forseti. Ég hef farið yfir helstu breytingarnar sem lagðar eru til í frv., þ.e. að sett sé nokkurs konar viðmiðunargjaldskrá í staðinn fyrir hámarksgjaldskrána og að hér sé verið að fylgja eftir ósk sveitarfélaganna og haft hafi verið samráð við vinnuveitendur í því efni.

Ég legg áherslu á að frv. þetta nái fram að ganga á þessu þingi svo unnt verði að setja leiðbeinandi reglur um gerð gjaldskráa sem einstök sveitarfélög geta byggt á við gerð gjaldskráa fyrir eftirlitsskylda starfsemi en þau mál hafa að undanförnu verið í nokkurri óvissu, m.a. vegna þessarar hugsanlegu breytingar sem mælt er fyrir og hér er lögð til.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. umhvn.