Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 19:33:42 (3977)

1999-02-19 19:33:42# 123. lþ. 70.9 fundur 521. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (úrskurðarnefnd o.fl.) frv., heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[19:33]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð.

Með frv. þessu er lagt til að stofnuð verði sérstök úrskurðarnefnd almannatrygginga sem taki við því hlutverki tryggingaráðs að úrskurða um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta samkvæmt almannatryggingalögum og lögum um félagslega aðstoð. Undirbúningur frv. hófst í heilbr.- og trmrn. en á sama tíma fékk núverandi tryggingaráð Pál Hreinsson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, til að gera tillögur um breytingar á tryggingaráði og semja greinargerð. Frv. var síðan unnið í ráðuneytinu og er að mestu byggt á tillögum Páls, sem tryggingaráð var einhuga um.

Samkvæmt núgildandi lögum hefur tryggingaráð aðallega tvenns konar hlutverk. Annars vegar hefur ráðið ákveðna stjórn og eftirlit með starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins. Hins vegar er ráðið úrskurðaraðili í deilum sem upp koma varðandi ákvarðanir stofnunarinnar um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta. Frv. gerir ráð fyrir því að það hlutverk tryggingaráðs að úrskurða í deilumálum verði flutt til sérstakrar úrskurðarnefndar almannatrygginga. Samkvæmt því mun tryggingaráð eingöngu hafa á hendi stjórn og eftirlit með stofnuninni. Með því að skilja á milli málskotsaðilans og þess sem tekur ákvarðanir um bætur eykst réttaröryggi þeirra viðskiptavina Tryggingastofnunar ríkisins sem kæra vilja ákvarðanir í málum sínum. Einnig skapast svigrúm fyrir tryggingaráð til að geta sinnt stjórnunar- og eftirlitshlutverki sínu betur og þar með verður fjárhagsleg yfirstjórn stofnunarinnar virkari en nú er.

Tryggingaráð úrskurðar árlega í hátt á fjórða hundrað mála og þykir full ástæða til að sérstök óháð nefnd fari með þetta mikilvæga hlutverk á sviði almannatrygginga. Almannatryggingalöggjöf þarf á hverjum tíma að taka breytingum í samræmi við þjóðfélagslegar breytingar og jafnframt þarf að tryggja að hún sé hverju sinni í fullu samræmi við aðra löggjöf um meðferð mála innan stjórnsýslunnar.

Með stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, voru lögfestar reglur um hvernig stjórnvöld eigi að standa að ákvörðunum og úrskurðum um réttindi og skyldur hins almenna borgara. Með frv. þessu eru lagðar til breytingar sem færa stjórnkerfi Tryggingastofnunar ríkisins nær nútímaviðhorfum stjórnsýsluréttar. Breytingarnar eru í raun eingöngu stjórnkerfisbreytingar og breyta því ekki efnislegum rétti fólks.

Í úrskurðarnefnd almannatrygginga skal skipa þrjá menn og jafnmarga til vara til sex ára í senn. Formaður og varamaður hans skulu uppfylla skilyrði sem sett eru um embættisgengi héraðsdómara. Varaformaður og varamaður hans skulu vera læknar. Í ákvæði til bráðabirgða er mælt svo fyrir að þegar úrskurðarnefndin verður skipuð í fyrsta skipti skuli formaður skipaður til sex ára, varaformaður til fjögurra ára og þriðji nefndarmaður til tveggja ára. Eftir það er ætlunin að nefndarmenn verði skipaðir til sex ára.

Með því að tryggja hægfara breytingar á skipan nefndarinnar er ætlunin að þekking og reynsla hverfi ekki úr nefndinni, eins og hætta er á að geti gerst þegar nefnd er í heild skipuð á sex ára fresti.

Í frv. er gert ráð fyrir nokkuð ítarlegri ákvæðum um málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar en eru í núgildandi ákvæðum um tryggingaráð. Ein meginbreytingin er að kæra til úrskurðarnefndar skuli vera skrifleg. Einnig skulu eyðublöð liggja á skrifstofu Tryggingastofnunar ríkisins og umboðsmanna hennar og skulu starfsmenn stofnunarinnar veita alla nauðsynlega aðstoð við útfyllingu þeirra.

Í núgildandi almannatryggingalögum eru ákvæði á víð og dreif sem kveða á um að tryggingaráð veiti undanþágur eða skeri úr um greiðslur bóta. Í frv. er þeim ákvæðum breytt þannig að tryggingaráð skuli setja reglur samkvæmt ákvæðunum. Orðinu lögheimili er á ýmsum stöðum í lögunum breytt í orðið búsetu, en það er gert í samræmi við lög nr. 59/1998 sem breyttu almannatryggingalögum og taka gildi 1. júlí næstkomandi.

Að lokum er gert ráð fyrir gildistöku 1. júlí 1999 og er reiknað með því að sá tími nægi til undirbúnings fyrir hið nýja fyrirkomulag.

Virðulegi forseti. Ég tel að breytingin sem felst í þessu frv. sé löngu tímabær og hafi í för með sér aukið réttaröryggi fyrir þá sem skipta við Tryggingastofnun ríkisins. Allir hlutaðeigandi aðilar hafa verið sammála um að setja þurfi á stofn sjálfstæða og óháða nefnd til að úrskurða í ágreiningsmálum um bætur hjá Tryggingastofnun ríkisins. Ýmsar ábendingar, munnlegar og skriflegar, um úrbætur á þessu sviði hafa borist til heilbr.- og trmrn. Þær hafa t.d. komið frá núverandi tryggingaráði, forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins og umboðsmanni Alþingis.

Ég legg áherslu á að breytingarnar eru, eins og ég hef þegar sagt, eingöngu stjórnkerfisbreytingar. Þær eru mikil réttarbót fyrir viðskiptavini Tryggingastofnunar ríkisins með tilliti til málskots en hreyfa í engu við bótarétti þeirra samkvæmt núgildandi lögum. Frv. er samið í samvinnu við núverandi tryggingaráð og Tryggingastofnun ríkisins og ríkir um það sátt. Af þeim sökum treysti ég því að frv. hljóti afgreiðslu á þessu þingi.

Ég leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til hv. heilbr.- og trn. og til 2. umr.