Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 19:40:19 (3978)

1999-02-19 19:40:19# 123. lþ. 70.9 fundur 521. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (úrskurðarnefnd o.fl.) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[19:40]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Mér finnst nú sem hæstv. heilbrrh. sé orðin fullfrek til fjörsins þegar hún leggur fram hvert frv. á fætur. Hún kallar þau öll tímamótafrumvörp og ætlast til þess að þau séu samþykkt með hraði á allra síðustu dögum þingsins. Ef frv. sem hæstv. heilbrrh. leggur hér fram er jafnmikið tímamótafrumvarp og hæstv. ráðherra telur þá spyr maður náttúrlega í fyrsta lagi: Af hverju var það ekki lagt fram fyrir löngu? Og í öðru lagi: Þarfnast það ekki mikillar rannsóknar við til að ljóst sé að það nái markmiði hæstv. ráðherra? Hitt er svo annað mál að ef hæstv. ráðherra fer vel að formanni heilbr.- og trn. og þeim öðrum þingmönnum sem í nefndinni sitja þá er aldrei að vita nema hægt sé að afgreiða málið.

En áður en ég vík að frv., sem ég ætla nú ekki að setja langa ræðu á um, þá finnst mér nauðsynlegt að ræða aðeins, hæstv. ráðherra og við þingmenn sem sitjum hérna og erum öll úr heilbr.- og trn., hvaða forgangsröð hæstv. ráðherra hefur í þessum málum. Fyrir nefndinni liggur nú viðamikið mál sem miklar deilur ríkja um innan nefndarinnar og varðar lífsýnabanka og lífsýni. Hins vegar eru hér tvö frekar þægileg og elskuleg frv. sem mikill sómi væri af að samþykkja, ásamt frv. sem hér liggur fyrir og ráðherra á eftir að mæla fyrir. Það varðar málefni aldraðra og mér hefur við fljóta yfirferð einnig sýnst það hið besta mál.

Ég spyr hæstv. ráðherra, vegna þess að hún á eftir að taka hér til máls: Það liggur alveg ljóst fyrir að miðað við þann takmarkaða tíma sem heilbr.- og trn. hefur þá mun hún ekki koma því í verk að sinna bæði lífsýnafrv., miðað við þær efnislegu deilur sem þar standa yfir um málið, og hins vegar að afgreiða líka þessi þrjú frumvörp. Hvaða viðhorf hefur hæstv. ráðherra til þess hvað eigi að gera? Það þýðir ekki fyrir hæstv. ráðherra að koma hingað og halda því fram að helst vildi hún sjá þau öll samþykkt. Ég veit að hún vildi helst sjá þau öll samþykkt en hver er forgangsröðin?

Að öðru leyti, herra forseti, þá var lykilatriðið í máli hæstv. ráðherra um frv. að hér væri ekki um neinar efnislegar breytingar að ræða heldur væri fyrst og fremst verið að hnika reglum og lögum um þetta atriði til samræmis við þær stjórnkerfisbreytingar sem hafa átt sér stað almennt og má rekja til stjórnsýslulaganna sem voru samþykkt 1993. Þar voru lögfestar reglur um það hvernig stjórnvöld eigi að standa að ákvörðunum og úrskurðunum um réttindi og skyldur borgaranna. Þar var það gert alveg skýrt að borgararnir áttu jafnan að hafa einhvers konar vettvang til að vísa sínum málum til ef þeir væru ósammála úrskurði stjórnvalda um rétt þeirra og skyldur.

Ég held að í sjálfu sér sé þetta hið besta mál og tek undir það með hæstv. ráðherra. Ekki vil ég lasta starfsfólk heilbrrn. en segi þó að nafn Páls Hreinssonar, í tengslum við samningu þessa frv., er í sjálfu sér nægilegt til að menn geti treyst því að frv. sé hið besta mál. Það er reynsla okkar þingmanna af starfi þessa ágæta manns.

Í framhaldi af stjórnsýslulögunum, sem samþykkt voru 1993, hafa víða í stjórnkerfinu verið settar upp sérstakar úrskurðarnefndir, t.d. úrskurðarnefnd um félagsþjónustu sveitarfélaga, úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem vel er þekkt, úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála og sennilega fleiri. Fjöldi þeirra mála sem tryggingaráð fær til afgreiðslu á hverju ári er hátt á fjórða hundrað þannig að það er eðlilegt að sérstök nefnd fái svipað hlutverk á sviði almannatrygginga. Og þetta frv. felur þá tillögu í sér að sett verði upp sjálfstæð og óháð úrskurðarnefnd sem hafi það eina hlutverk að skera úr um ágreining um grundvöll, upphæð og skilyrði bóta í kerfinu. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að það felur í sér réttarbót og þess vegna hefði verið óskaplega gott ef þetta frv. hefði komið fram fyrr á þessum vetri. Þá hefði mátt afgreiða það með miklum sóma. En nú er, sökum þess starfsálags sem á nefndinni hvílir, alls ekki víst að það takist.