Málefni aldraðra

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 20:00:45 (3985)

1999-02-19 20:00:45# 123. lþ. 70.10 fundur 527. mál: #A málefni aldraðra# (heildarlög) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[20:00]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það sé ekki sjálfgefið að ríkið eigi fulltrúa í stjórnum allra stofnana aldraðra. Einu rökin fyrir þessari breytingu eru þau að einhver misbrestur hafi verið á rekstri þeirra. Mér er ekki kunnugt um það. Ég er þeirrar skoðunar að heppilegast að ríkið hafi sem minnst af fulltrúum í stjórnum stofnana og komi sem minnst að daglegum rekstri, eins og seta í stjórnum eiginlega er.

Ef hæstv. ráðherra ætlar að taka aftur til máls þá langar mig til þess að spyrja hana: Er ástæðan fyrir þessari breytingu sú að það hafi gefist illa og fjármagnið, sem runnið hafi frá ríkinu til viðkomandi stofnana, nýst illa sökum þess að fulltrúi hins opinbera hafi ekki verið í stjórn einhverrar þeirrar stofnunar sem hér um fjallar?