Breyting á skipan þingflokka

Mánudaginn 22. febrúar 1999, kl. 14:01:46 (3988)

1999-02-22 14:01:46# 123. lþ. 71.91 fundur 282#B breyting á skipan þingflokka# (aths. um störf þingsins), KH
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 123. lþ.

[14:01]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Eins og kunnugt er og tilkynnt var héðan úr þessum ræðustóli sl. föstudag hafa orðið miklar breytingar á skipan þingflokka á hv. Alþingi. Þrír þingflokkar hafa verið lagðir niður, leystir upp og einn nýr stofnaður í þeirra stað. Af þeim sökum hefur sú sem hér stendur verið án heimilisfangs undanfarna þrjá daga en breytingar verða þar á þar sem ég ákvað að sækja um aðild að þingflokki óháðra og hef fengið þar góðar móttökur og jákvæð viðbrögð.

Þessi skipan kemur eflaust fáum á óvart þar sem sá þingflokkur er að stærstum hluta skipaður mönnum sem ásamt mér hafa staðið að myndun nýs stjórnmálaafls, Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs.

Það tilkynnist því hér með, herra forseti, að héðan í frá er heimilisfang mitt hjá þingflokki óháðra.