Frestun undirritunar Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 10:45:14 (3994)

1999-02-25 10:45:14# 123. lþ. 72.91 fundur 287#B frestun undirritunar Kyoto-bókunarinnar# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[10:45]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég fordæmi harðlega vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar. Hún tekur þessa ákvörðun án þess að gefa þinginu kost á að ræða málið. Þó er ljóst að fyrir þinginu liggur tillaga frá þingflokki Samfylkingarinnar sem fjallar um að Alþingi skori á ríkisstjórnina að undirrita Kyoto-bókunina. Það er nauðsynlegt að þingið fái að segja skoðun sína á máli eins og þessu áður en ríkisstjórnin tekur jafnafdrifaríka ákvörðun.

Það er alveg ljóst að þetta er einhver mikilvægasta ákvörðun sem tekin hefur verið á þessu kjörtímabili. Kyoto-bókunin er sá alþjóðlegi samningur sem mest er í umræðu og mestu varðar, ekki bara heiminn almennt heldur ekki hvað síst Íslendinga.

Það sem einnig er fordæmanlegt í þessu, herra forseti, er sú staðreynd að ríkisstjórnin tekur þessa ákvörðun að hæstv. umhvrh. fjarstöddum. Fyrir liggur að hæstv. umhvrh. hefur haft uppi aðra skoðun en aðrir hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar og þess vegna var málið í rauninni tekið úr hans höndum og tekið undir væng utanrrn. Ég hjó að vísu eftir því í morgun að hæstv. umhvrh. var látinn vitna í Morgunblaðinu, látinn segja að hann væri sammála þessu en það liggur samt fyrir að ákvörðunin var tekin að honum og helstu sérfræðingum umhvrn. fjarstöddum, og að allt það sem komið hefur frá hæstv. umhvrh. og sérfræðingum umhvrn. gengur þvert á þá ákvörðun sem ríkisstjórnin hefur tekið núna.

Þess vegna er það fordæmanlegt, herra forseti, að Alþingi skuli ekki hafa fengið að ræða þessa ákvörðun áður en hún var tekin af ríkisstjórninni.