Frestun undirritunar Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 10:47:17 (3995)

1999-02-25 10:47:17# 123. lþ. 72.91 fundur 287#B frestun undirritunar Kyoto-bókunarinnar# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[10:47]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég hef ekki mörgu við það að bæta sem hér hefur komið fram öðru en því að ég furða mig á að ekki skuli hafa komið fram eitt einasta orð t.d. frá formanni umhvn. í þessari umræðu um það hvernig hann hyggst halda á þessu máli. Hyggst formaður umhvn. beita sér fyrir því að tillagan sem hann og nefnd hans hefur verið að fjalla um í allan vetur geti komið hingað til afgreiðslu? Ég trúi því varla að það sé andstætt vilja ríkisstjórnarinnar að Alþingi fái að tjá sig um þetta mikilsverða mál þannig að í ljós komi hversu margir alþingismenn séu reiðubúnir til að styðja þá ákvörðun sem ríkisstjórnin hefur tekið og hversu margir eru andvígir.

Ég beini þeirri fyrirspurn til formanns umhvn., sem situr í salnum og hefur ekki tekið þátt í umræðunum, hvort hann muni beita sér fyrir því að þessi margumrædda tillaga geti komið til þinglegrar meðferðar að lokinni umfjöllun í umhvn.

(Forseti (ÓE): Forseti væntir þess að hægt verði að ræða efnislega þetta atriði í umræðum um utanríkismál á eftir.)