Frestun undirritunar Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 10:55:27 (4000)

1999-02-25 10:55:27# 123. lþ. 72.91 fundur 287#B frestun undirritunar Kyoto-bókunarinnar# (aths. um störf þingsins), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[10:55]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon þarf ekkert að minna mig á hvort þingræðisstjórn situr á Íslandi eða ekki. Það má vel vera að hann geri það á einhverjum öðrum stöðum en ég held að hann þurfi ekki að hafa yfir slíka fyrirlestra á hv. Alþingi.

Það liggur hins vegar alveg ljóst fyrir að ef undirritun þessarar bókunar hefði verið framkvæmd fæli hún ekki í sér neinar skuldbindingar að þjóðarétti. Það var fyrst og fremst spurningin um samningsstöðu Íslands í framhaldinu hvort þessi undirritun ætti að eiga sér stað eða ekki. Það var mat ríkisstjórnarinnar að samningsstaða og staða Íslands væri betri í framhaldinu með því að undirrita ekki þessa bókun.

Það liggur hins vegar ljóst fyrir að þegar fram líða stundir og eftir nokkur ár verður meiri hluti Alþingis að taka um það ákvörðun hvort við eigum að gerast aðilar að þessum samningi eður ei. Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að hún vilji gera það. Því eru næg tækifæri til að ræða það og auðvitað verður það gert. En menn verða að líta til eðlis þessarar bókunar þegar þeir fjalla um málið og ég bið menn um að ræða þetta í framhaldinu í þeirri umræðu sem hér er stofnað til um utanríkismál. Ég vænti þess hv. þm. sýni umræðunni þann áhuga að geta tekið þátt í henni, því að við höfum miklu betra tækifæri til að ræða þetta þar.