Frestun undirritunar Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 10:57:11 (4001)

1999-02-25 10:57:11# 123. lþ. 72.91 fundur 287#B frestun undirritunar Kyoto-bókunarinnar# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[10:57]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. utanrrh. að undirritun þessarar bókunar bindur okkur ekki að þjóðarétti. En hæstv. utanrrh. hefur eigi að síður sagt sjálfur að í undirrituninni fælist stefnuyfirlýsing íslenska ríkisins í málinu.

Hér er um að ræða það mál sem hefur hvað mesta þyngd á hinu utanríkispólitíska sviði og samkvæmt þeim lögum sem gilda ber hæstv. utanrrh. að ræða það mál við utanrmn. Nú má hrósa hæstv. ráðherra fyrir það að hann hefur sýnt utanrmn. mikla virðingu og hann hefur jafnan komið til hennar með alls konar mál, hvers kyns mál sem eru miklu smærri en það mál sem við ræðum hér. En hæstv. utanrrh. hefur meðvitað sneitt hjá því að ræða þessa ákvörðun sína við utanrmn. þar til eftir að ákvörðunin var tekin hjá ríkisstjórninni. Þá blasir það við að hæstv. ráðherra hefur sniðgengið hið lögbundna hlutverk utanrmn. Hann hefur sem partur af framkvæmdarvaldinu, sem bersýnilega er að reyna að koma í veg fyrir að Alþingi fái að ræða tillögu okkur um þetta mál, sniðgengið Alþingi líka. Hann hefur líka tekið þetta mál af forræði umhvrh. yfir til sín. Þannig liggur málið. Verið er að reyna að taka þessa ákvörðun með því að sneiða hjá þeim lýðræðislegu farvegum sem við höfum fyrir hendi. Um það snýst málið.

Hæstv. forseti sagði áðan og beindi þeim tilmælum til okkar að við ræddum þetta efnislega á eftir og það er sjálfsagt að verða við þeim tilmælum. En við erum að ræða störf þingsins og ég kem hér upp aftur til að ítreka að fyrir liggur tillaga, sem ég á aðild að, sem varðar þetta mál. Eins og málið hefur þróast tel ég að við höfum siðferðilegan rétt til að fá það inn í þingið, til að fá umræðu um tillöguna í þinginu og fá fram vilja þingsins í málinu sem ég tel að sé stærsta utanríkispólitíska mál sem hefur komið fyrir þingið frá því að ég tók hér sæti.