Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 11:38:24 (4006)

1999-02-25 11:38:24# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[11:38]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er ástæða til að þakka hæstv. fyrir ræðuna því hún var sannast sagna prýðileg og lagði vel fram þá stefnu sem hæstv. ríkisstjórn fylgir í utanríkismálum. Það gætti margra nýmæla í ræðu hæstv. utanrrh. Ég nefni sérstaklega þau viðhorf sem hann lagði þar fram um Evrópusambandið. Ég tel að með þeim sé hann í rauninni að slíta sig frá því helsi sem hefur tjóðrað hann við hæstv. forsrh., en sá hæstv. ráðherra hefur sem kunnugt er nánast bannað að Evrópumálin væru á dagskrá. Nú sýnist mér með ræðu hæstv. utanrrh. að þau séu tryggilega komin á dagskrá aftur og það er vel að mínu viti. Sömuleiðis vek ég athygli á því, herra forseti, að sem fylgiskjali við ræðu hæstv. utanrrh. var í gær dreift afar merki gagni sem samið hefur verið af starfsmönnum utanrrn. og varðar öryggis- og varnarmál íslensku þjóðarinnar. Ég tel að þar gæti nýrra viðhorfa sem rífi umræðuna um varnarmálin á vissan hátt upp úr því kaldastríðsfari sem hefur einkennt hana oft og tíðum í íslensku þjóðfélagi, ekki síst á hinu háa Alþingi.

Tíðindin í ræðu hæstv. utanrrh. varða þó hvorki varnarmál, öryggismál né Evrópumál, heldur umhverfismál. Það er í takt við þá þróun sem hefur orðið á síðustu áratugum að umhverfismál eru tekin að yfirskyggja önnur svið í samskiptum ríkja. Ég get þessa hér, herra forseti, vegna þess að hæstv. utanrrh. er metnaðarfullur fyrir hönd sinnar þjóðar og sjálf sín og hefur lagt fram metnaðarfulla stefnu varðandi framtíð Íslands á vettvangi alþjóðastjórnmála. Hann hefur lagt fram þá stefnu að Ísland ætti að sækja um aðild að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Það er metnaðarfull stefna. En ég tel hins vegar að það sé algjörlega borin von að hæstv. ráðherra verði nokkurn tímann að ósk sinni á meðan það blasir við að Ísland situr utan Alþjóðahvalveiðiráðsins og að Ísland er ekki aðili að Kyoto-bókuninni. Ég tel að þetta tvennt geri það að verkum að þau háleitu markmið sem ber að þakka hjá hæstv. utanrrh. muni aldrei ná fram að ganga. Og það sem mér finnst skorta í þá sýn sem hæstv. utanrrh. og hans ríkisstjórn hefur á utanríkismálin er umhverfisvinkilinn. Satt að segja finnst mér, þó hæstv. utanrrh. hafi að mörgu leyti tekist vel upp með marga hluti, að þar sé hann sleginn einhvers konar blindu. Ég fæ ekki betur séð en að sú ákvörðun sem hann hefur haft forgöngu um innan ríkisstjórnarinnar, þ.e. að Íslendingar undirriti ekki Kyoto-bókunina fyrir tilskilinn frest, 15. mars, slái í rauninni Ísland út af borðinu sem alvöruspilara á leiksviði alþjóðastjórnmálanna. Ég tel að svo mikill fingurbrjótur sé í þessu fólginn og þetta sé svo mikið úr takti við það sem hæstv. ráðherra, hans flokkur og undanfarnar ríkisstjórnir hafa verið að reyna að gera varðandi ásýnd Íslands á alþjóðavettvangi, að þarna sé um að ræða stór mistök. Ég get heldur ekki annað en tekið þeirri áskorun sem fram kom hjá hæstv. ráðherra og raunar hæstv. forseta í umræðunni sem varð hér áðan, áður en við hófum umræðuna um þetta dagskrármál, þar sem þeir beindu því til mín og annarra að ræða þetta mál, þ.s. ákvörðun ríkisstjórnarinnar varðandi Kyoto, efnislega í þessari umræðu.

Herra forseti. Ég ætlaði að láta ræðu mína snúast um allt aðra hluti, um þau nýju viðhorf sem hæstv. ráðherra hefur sett fram varðandi Evrópusambandið og reyndar ætlaði ég líka að ræða þá skýrslu sem utanrmn. var kynnt í gær. Það má vera að ég haldi ræðu síðar í dag. En ég ætla að nota þennan tíma sem ég hef nú til að ræða Kyoto-bókunina og þá afdrifaríku ákvörðun sem ríkisstjórnin hefur tekið fyrir hönd okkar og ég tel vera mikil mistök.

Herra forseti. Fyrst verð ég að geta þess, eins og ég hef gert þegar á þessum morgni, að hæstv. utanrrh. hefur sýnt utanrmn. þingsins mikinn sóma. Hann hefur farið mjög rækilega eftir bókstaf 24. gr. þingskapa þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Utanríkismálanefnd skal vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt á þingtíma sem í þinghléum.``

Herra forseti. Ekkert mál sem hefur komið til kasta hæstv. utanrrh. hefur jafnmikla þyngd og einmitt Kyoto-bókunin. Enginn samningur er jafnlifandi, á jafnmikilli hreyfingu og jafnmikið umræddur á vettvangi alþjóðastjórnmála í dag og einmitt sá samningur. Og ef hæstv. utanrrh. hefði borið skylda samkvæmt orðan laganna að koma með eitthvert mál til utanrmn., þá er það þetta mál. En hæstv. utanrrh. kaus að gera það ekki. Málið var rætt við nefndina í gær eftir að ríkisstjórnin hafði tekið sína ákvörðun.

Herra forseti. Það kom fram að í þinginu liggur fyrir tillaga frá þingflokki Samfylkingarinnar þar sem lagt er til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að undirrita Kyoto-bókunina. Það er með ólíkindum að sú tillaga hefur ekki fengist rædd í þinginu. Það er alveg ljóst að það er siðferðilega ekki verjandi, tel ég, að ríkisstjórnin taki ákvörðun sem er jafnafdrifarík ekki aðeins fyrir samtíðina heldur ekki síst fyrir framtíðina án þess að bera hana undir þingið. En það er ekki gert.

Herra forseti. Síðan blasir það líka við að þessi ákvörðun er tekin innan ríkisstjórnarinnar að hæstv. umhvrh. fjarstöddum. Ég veit að ófyrirsjáanlegir atburðir gerðu það að verkum að hann gat ekki komið til landsins til að taka þátt í afgreiðslu málsins með ríkisstjórninni. En ríkisstjórninni bar að bíða með málið, enda nægur tími, þangað til fagráðherrann var komin til landsins. En staðreyndin er auðvitað sú að hæstv. utanrrh. hefur tekið völdin af hæstv. umhvrh. í þessu máli. Hann hefur sett upp sérstaka skrifstofu í utanrrn. Ég man ekki betur en að hún hafi verið fyrst verið sett upp eftir að í ljós kom að hæstv. umhvrh. hafði uppi tilburði til að hafa sjálfstæðar skoðanir í málinu.

[11:45]

Það blasir því við að hæstv. utanrrh. hefur ekki sinnt þeirri lagaskyldu sem honum ber skv. 24. gr. þingskapa Alþingis. Hann hefur ekki komið með málið til utanrmn. Ríkisstjórnin og flokkarnir sem að henni standa hafa ekki leyft Alþingi að taka afstöðu til þessa máls eins og föng eru þó á út af þeirri tillögu sem liggur fyrir þinginu og einnig er ljóst að hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnin hafa í rauninni svínbeygt hæstv. umhvrh. í þessu máli.

Það var fróðlegt að fylgjast með því þegar umræðan um þetta mál hófst hér á þingi vegna þess að í ljós kom að eftir því sem henni vatt fram breyttust viðhorf hæstv. umhvrh. Hann var í fyrstunni á mjög svipaðri línu og hæstv. iðn.- og utanrrh. en eftir því sem hann kynnti sér málið betur kom glögglega í ljós að hann skildi málið. Hann hefur talað þannig á þingi og í fjölmiðlum að ekki er hægt að skilja mál hans öðruvísi en svo en að hann hafi verið þeirrar skoðunar að undirrita ætti Kyoto-bókunina, og það er ljóst að það sem hefur gengið út frá sérfræðingum hans, ekki sérfræðingum utanrrn. heldur sérfræðingum umhvrn., hefur hnigið að sömu niðurstöðu. Þess vegna er það afskaplega miður að völdin skuli hafa verið tekin af ráðherranum með þessu móti, eina ráðherranum sem hefur talað skýrt í þessu máli og gaf út skýrslu um Ísland og loftslagsbreytingar af mannavöldum sem er það gagn, sem komið hefur út af hálfu íslenskra stjórnvalda, þar sem dýpst er tekið í árinni.

Það blasir við að Íslendingar hafa miklum skyldum að gegna í þessu máli. Hvers vegna? Vegna þess að málið varðar einmitt þá framtíð óborinna kynslóða sem hæstv. utanrrh. ræddi um í lok ræðu sinnar áðan. Ef verstu spár rætast blasir við að ekki aðeins munu fiskimið ónýtast við Ísland heldur mun Ísland verða óbyggilegt. Það eitt ætti að nægja til þess að við ættum að sjálfsögðu að leggjast á þessar árar.

Þar fyrir utan eru það önnur mórölsk rök sem við hljótum að taka tillit til líka. Við blasir að jafnvel þótt ekki einu sinni verstu spár rætist þá er hætta á að heil ríki, eyríki enn fjölmennari en við með menningu sem er ekki síðri okkar, munu í bókstaflegri merkingu sökkva undir yfirborð jarðar. Það er þetta sem við þurfum að horfast í augu við og út frá þeim siðrænu forsendum þurfum við að taka ákvarðanir. Á þessum grundvelli hefði hið háa Alþingi átt að fá tækifæri til að ræða þetta mál en fékk ekki fyrr en núna þegar ákvörðunin liggur fyrir.

Ég tel, herra forseti, að sú ákvörðun sé röng og mér finnst röksemdafærslan vera furðuleg. Í svo að segja sama andartakinu og hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni áðan að bókunin, sem kennd er við Kyoto, yrði ekki undirrituð sagði hann eigi að síður að stefnt yrði að því að íslensk stjórnvöld gerðust aðilar að henni í framtíðinni. Herra forseti. Það þarf að skýra þetta frekar. Hæstv. ráðherra þarf að svara í umræðunni á eftir hvort það sé óhjákvæmileg forsenda fyrir því að við verðum aðilar í framtíðinni að tekið verði tillit til þessa séríslenska ákvæðis.

Mér finnst tvennt standa upp úr í röksemdafærslu ráðherrans fyrir þessari slæmu ákvörðun. Í fyrsta lagi talar hæstv. ráðherra eins og það skipti nánast engu máli fyrir álit Íslands og stöðu þess út á við að undirritunin fari ekki fram núna fyrir 15. mars þegar tilskilinn frestur rennur út. Í öðru lagi heldur hann því fram að þetta sé beinlínis gert til að treysta stöðu Íslands og auka líkurnar á því að tekið verði tillit til sérkrafna Íslands. Mér finnst að í báðum þessum málsatriðum skjöplist hæstv. ráðherra.

Öll ríki OECD nema Ísland hafa lýst yfir að þau muni undirrita bókunina. Við erum eina ríkið í hópi þeirra þjóða sem við berum okkur oftast saman við sem stendur eitt utan við Kyoto og hafnar því að undirrita. Ef menn halda að það skipti ekki máli fyrir álit Íslands út á við, þá verð ég að segja, herra forseti, að mér finnst þeir vera skyni skroppnir.

Við höfum markaðssett okkur á sérstakan hátt. Við höfum með góðum árangri byggt upp sérstöðu út á við þar sem við höfum fyrst og fremst byggt á náttúru Íslands og ómengaðri ásýnd landsins þar sem umhverfis- og náttúruverndar er í hvívetna ríkulega gætt. Út á þetta höfum við ekki bara byggt mikilvæga atvinnugrein, ferðaþjónustuna þar sem sérhver ferðamaður er ígildi tonns af þorski í gjaldeyri, heldur hafa undanfarnar ríkisstjórnir, að þessari meðtalinni, líka markaðssett landið og helstu atvinnugrein þess, sjávarútveginn, undir þessum formerkjum. Ef menn halda að engu máli skipti að við ætlum að sitja hjá þegar Kyoto-bókunin er annars vegar, þá skulu menn skoða dæmið af hvalveiðunum.

Hvað gerist á Íslandi þegar uppi eru hugmyndir um að hefja veiðar á nokkrum hrefnum? Það kallar á skarpt viðbragð frá öllum helstu stórfyrirtækjum á sviði útflutnings á Íslandi. Hvað halda menn þá að gerist þegar umheimurinn verður þess áskynja að Ísland ætlar eitt landa OECD að standa fyrir utan? Auðvitað mun þetta hafa mikil áhrif á markaðsstöðu okkar út á við og sennilega mun áhrifanna gæta miklu fyrr en hæstv. ríkisstjórn virðist gera sér grein fyrir.

Ég á líka erfitt með að skilja það frá sjónarhóli hæstv. ríkisstjórnar þegar hún heldur því fram að þessi afstaða hennar byggist á því að verið sé að auðvelda möguleika okkar til að fá skilning á hinu séríslenska ákvæði. Út á hvað gengur þetta séríslenska ákvæði? Það gengur út á það að smá hagkerfi fái sérstaka tilslökun vegna stórra verkefna á sviði iðnaðar. Þó að smá hagkerfi séu hérna í fleirtölu, þá er þetta bara Ísland. Það er ekkert annað land sem ég veit til sem hefur talið að það geti nýtt sér þetta. Hérna er því fyrst og fremst verið að tala um hagsmuni Íslands. Hverjir styðja okkur í þessu máli? Við höfum einhvern varastuðning frá örfáum þjóðum. En það sem við gætum gert er að sýna okkar góða vilja í verki með því að undirrita bókunina, ávinna okkur velvild og skilning annarra þjóða og í krafti þess reyna að verða okkur úti um nægan stuðning til að ná þessari sérstöðu okkar. Það er ekki gert.

Ég held því fram, og ég er ekki sammála markmiði hæstv. utanrrh. í þessu efni, að sú aðferð sem hæstv. ráðherra beitir sé ekki til þess fallin að ná markmiðinu fram. Þar að auki held ég líka, herra forseti, að það sé rangt þegar hæstv. ráðherra segir að það sé yfirlýst stefna Íslands að gerast aðili að bókuninni, enda verði tryggt að Íslendingar geti áfram nýtt endurnýjanlegar orkulindir til að tryggja framfarir og velmegun hér á landi. Ég held því fram að þótt við undirrituðum bókunina í dag, þá kæmi ekkert í veg fyrir að við gætum ekki nýtt þær orkulindir okkar. Í fyrsta lagi getum við gert það til að gera Ísland að því einstaka vetnissamfélagi sem hæstv. ráðherra hefur verið að gorta af á síðustu dögum. Við þurfum orku til þess og í öðru lagi er alveg ljóst að umræðan er að þróast í þá átt að kvótar verða framseljanlegir, það verður hægt að kaupa kvóta og þá verður hægt að fara í stóriðju á Íslandi af hálfu fyrirtækja sem kaupa kvóta og það á að vera forsendan fyrir því að við förum í stóriðju á Íslandi í framtíðinni.