Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 12:09:33 (4015)

1999-02-25 12:09:33# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[12:09]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir yfirgripsmikla og greinargóða ræðu um utanríkismál. Þar er að finna umfjöllun um alla helstu þætti utanríkismálanna og ber að geta þess sérstaklega að lagt hefur verið fram sérstakt fylgiskjal með ræðu utanrrh. sem markar nokkra nýjung við umfjöllun um utanríkismál. Þetta fylgiskjal er í raun greinargerð starfshóps, sem hæstv. utanrrh. skipaði í sept. á síðasta ári, og hefur fjallað mjög almennt og yfirgripsmikið um utanríkismálin og þá ekki síst um varnar- og öryggismál. Plaggið er í heild framlag til umræðu um þessi mál og má með sanni segja að vinnu af því tagi sem þarna hefur farið fram hefur að nokkru leyti skort á undanförnum árum. Segja má að full ástæða sé til þess að gera úttektir af þessu tagi að reglubundnu starfi og styrkja það í framtíðinni.

Það sem mér finnst mestu máli skipta í sambandi við bæði þetta athyglisverða plagg en einnig ræðu hæstv. utanrrh. er að í báðum gögnum, bæði í ræðunni og í fylgiskjalinu með ræðu utanrrh., er sú stefna sem við rekum í öryggis- og varnarmálum staðfest mjög skýrt og afdráttarlaust. Í ræðunni kemur fram að aðild okkar að Norður-Atlantshafsbandalaginu og samningurinn um varnarmál Íslands við Bandaríkin eru héðan í frá sem hingað til sjálfur grundvöllurinn að stefnu þjóðarinnar í öryggis- og varnarmálum. Þetta er afar mikilvæg yfirlýsing vegna þess að utanríkis-, öryggis- og varnarmálin hafa verið á vinstri kanti stjórnmálanna á talsverðu floti og erfitt að henda reiður á því hver stefnan er sem er að skapast á þeim vængnum.

Atlantshafsbandalagið hefur sýnt á undanförnum árum að það hefur haft geysimikinn hæfileika til aðlögunar að nýjum aðstæðum og er það rakið í ræðu hæstv. utanrrh. mjög nákvæmlega. Aðlögun Atlantshafsbandalagsins hefur gert það að verkum að án þess að hafa á nokkurn hátt misst gildi sitt fyrir aðildarríkin, þ.e. öryggis- og varnarmálagildi sitt fyrir aðildarþjóðirnar, þá hefur bandalagið tekið sér fyrir hendur ný verkefni og er í raun og veru farið að flytja út öryggismál til annarra þjóða. Þessi aðlögun Atlantshafsbandalagsins að nýjum aðstæðum hefur orðið til þess að tiltrú þjóða í Evrópu á Atlantshafsbandalaginu hefur stóraukist og það gegnir nú víðtækara starfi í öryggismálum og mikilvægara starfi en það hefur gert nokkurn tíma í sögu sinni.

Við Íslendingar höfum orðið aðilar að þessari endurskoðun, tekið þátt í henni og við erum virkir aðilar í að endurskoða langtímaöryggisstefnu Atlantshafsbandalagsins. Skiptir þá miklu máli að við tökum skýra afstöðu til þess hvar við stöndum að því er varðar varnarliðið og varnarbúnaðinn sem hér er og að því er varðar einnig veru okkar í Atlantshafsbandalaginu. Ég legg áherslu á að yfirlýsingar ráðherrans í þeim efnum, svo og það sem um þær er fjallað í fylgiskjalinu eru mjög traustvekjandi.

Þar segir m.a. í ræðu hæstv. ráðherra sem ég leyfi mér að vitna í, með leyfi hæstv. forseta:

,,Íslendingar hafa tryggt varnir landsins um fimm áratuga skeið með aðild að Atlantshafsbandalaginu og tvíhliða varnarsamstarfi við Bandaríkin. Þessir hornsteinar varnarstefnu Íslands eru samofnir og þau varnarsvæði sem Ísland lætur bandalaginu í té hérlendis eru veigamesta framlag Íslands til Atlantshafsbandalagsins.``

Ég tek heils hugar undir þessa yfirlýsingu og tel að um farsælan grundvöll öryggis- og varnarmála sé að ræða sem ekki eigi að bregða út af. Hins vegar er jafnmikilvægt að Atlantshafsbandalagið lagi sig að nýjum aðstæðum í Evrópu og það hefur bandalagið svo sannarlega gert.

Á þeim stutta tíma sem sá, sem hér stendur hefur til yfirráða, mun ég aðeins víkja að því máli sem var mjög til umræðu nú rétt áðan hjá síðasta ræðumanni, þ.e. Kyoto-bókuninni.

[12:15]

Það sem mér finnst vekja athygli í umræðunni um Kyoto-bókunina og í málflutningi hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar er að hann virðist ekki vilja taka tillit til þess að þó að við nýtum ekkert af þeirri gífurlegu orku sem enn er ónýtt á Íslandi --- sú orka er að vísu ekki nein ákveðin stærð en hún getur leikið á bilinu til 40--50 teravattstundir og skiptist þannig að 30 teravattstundir eru þá vatnsorka og 15--20 jarðhiti --- þá liggja nú þegar fyrir áform um að stækka iðjuver. Það leiðir til þess að við getum ekki undirritað þennan samning án þess að fá viðurkenningu á þessu séríslenska ákvæði. Ef tekið er tillit til starfsleyfanna er ljóst að við erum enn fjær því að geta staðist þær kröfur sem settar eru fram í bókuninni.

Við þurfum að svara þessu og hv. þm. verður að svara því einnig, burt séð frá því hvernig við bregðumst við því mikla afli sem við eigum eftir óvirkjað. Þar af leiðandi þarf ekki að blanda umræðum um vetni inn í þetta. Hvernig á að bregðast við ástandinu í dag? Hvernig ætla menn að gera það án þess að fá viðurkenningu á þessu séríslenska ákvæði? Ég held að þetta sé kjarni málsins.

Ég fellst fyllilega á þau rök ráðherrans að við mundum veikja stöðu okkar í samningaferlinu með því að undirrita nú. Ég vil taka það sérstaklega fram að undirritun er ekki alhliða stefnuyfirlýsing, eins og fram kom í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. ESB-ríkin hafa t.d. hugsað sér að undirrita þessa bókun og samkomulagið en þegar nánar er skoðað hvernig þau ætla að vinna úr því máli þá blasir allt annað við.

Það er ljóst, ekki síst með tilliti til þess sem komið hefur fram af hálfu Finna innan Evrópusambandsins, að Evrópusambandið hefur hugsað sér að ýta undir fjárfestingu í olíuiðnaði og gasiðnaði í Rússlandi. Þetta er að hluta gert til að styrkja stöðu rússnesks efnahagslífs og er hluti af því sem nú er verið að skoða í þessari norðurvídd Evrópusambandsins. Það er alveg ljóst að áform um að nýta orkulindir Rússlands standa í nánu samhengi við að Evrópusambandið er afar háð jarðefnavinnslu, um 2/3 af orku Evrópusambandsins koma frá slíkri orkuvinnslu. Það er fyrirsjáanlegt að Evrópa verði mun háðari þeirri orkunýtingu í framtíðinni en hingað til. Hvernig ætlar hún sér að finna lausn á þessu? Jú, með því að ýta undir fjárfestingu í olíu- og gasiðnaði í Norður-Rússlandi og Síberíu, og veita þeirri orku yfir á eigið markaðssvæði.

Hvernig samrýmist þessi stefna umhverfisstefnu Evrópusambandsins? Ja, þetta samrýmist henni alls ekki. Þannig að yfirlýst markmið Evrópusambandsins í sambandi við Kyoto-bókunina ganga þvert á þær yfirlýsingar sem sambandið hefur gefið í umhverfismálum. Það er viðurkennt að miklar mótsagnir eru á milli orkustefnu og umhverfisstefnu Evrópusambandsins. Ekki hefur verið leyst hvernig Evrópusambandið ætlar að glíma við þetta. Ég held að við ættum því að fara varlega í yfirlýsingum um þessi mál. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að flestar þjóðir heimsins eiga í erfiðleikum með það hvernig Kyoto-bókuninni verði framfylgt. Kyoto-bókunin hefur t.d. enn ekki nokkur áhrif á markaðsverð á orku í heiminum. Olíuverðið er mjög lágt og sýnir að umhverfismál koma ekki til íhugunar enn þá, ekki nokkurn skapaðan hlut.

Íslendingar hafa ekki sýnt tvöfeldni af þessu tagi eins og Evrópusambandið. Þeir hafa gengið fram af hreinskilni og bent á sérstöðu sína og eðlilega viljað verja hana. Ég taldi nauðsynlegt að þetta kæmi hér fram vegna þess að í þessari umræðu er Evrópusambandið og reyndar önnur stórríki flokkuð sem sérstök fyrirmynd í þessum efnum. Hins vegar hafa stórþjóðirnar gætt mjög vandlega að sínum hagsmunum í öllu þessu ferli. Þær hafa komið þessu máli í þann farveg sem þeim er hagstæður en okkur ærið óhagstæður.

Ég vil víkja aðeins að umfjöllun hæstv. utanrrh. um Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið. Ég er sammála því sem þar kemur fram og mati hans á þýðingu Evrópska efnahagssvæðisins. Það er rangt sem kom fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að ráðherrann hefði lýst því yfir að aðild að Evrópusambandinu væri komin á dagskrá. Hann tók hins vegar skýrt fram að meining ríkisstjórnarinnar sé að fylgjast náið með þróun mála innan Evrópusambandsins. Ég held að það sé afar brýnt.

Margt af því sem gerst hefur á Íslandi í kjölfar samningsins um Evrópska efnahagssvæðið hefur verið þjóðinni til mikilla bóta. Við höfum haft ýmsa kosti af þessu samstarfi. Við þurfum samt að horfast í augu við þá erfiðleika sem komið hafa í ljós í sambandi við Evrópska efnahagssvæðið. Ég ætla að nefna hér nokkur atriði.

Ég vil geta þess að viðskipti Evrópusambandsríkjanna eða innflutningur til Íslands hefur aukist hraðar en útflutningur okkar til Evrópusambandsins. Það er áhyggjuefni sem okkur ber að leita skýringa á.

Annað dæmi vil ég taka. Umfjöllun um stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja í Evrópusambandinu er nú mjög mikil. Þar kemur fram, m.a. hjá ferðamálaráði Evrópu, að Evrópusambandið og markaður þess hafi reynst mjög illa fyrir lítil fyrirtæki í Evrópu og samkeppnisstaða þeirra hafi versnað stórlega í kjölfar fjórfrelsisins. Kvartað er undan því að þessi fyrirtæki þjáist vegna mikils reglugerðafargans og ósamræmis í sköttum. Niðurstaðan er hrein og klár: Samkeppnisstaða fyrirtækjanna á heimsmarkaði hefur stórlega versnað innan Evrópusambandsins í kjölfar þess að komið var á einum markaði þar sem fjórfrelsið ríkir.

Þetta er okkur til umhugsunar, við þurfum að fylgjast mjög náið með þróun mála innan Evrópusambandsins og reyna að meta hvað er jákvætt og hvað hefur mistekist.

Hér var komið inn á sjávarútvegsmálin. Sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins er vissulega ekki óbreytanlegt fyrirbæri. Það er mikið talað um að breyta þeirri stefnu. Hitt er svo annað mál að þegar á reynir eru þeir kraftar sem vinna gegn breytingu á sjávarútvegsstefnunni afar sterkir og miklir. Svo vill til að flest Evrópusambandsríkin, sem hafa einhverra hagsmuna að gæta í sjávarútvegi, eru svo flækt inn í þetta kerfi að þau eiga mjög erfitt með að losa sig út úr því. Það að ná samkomulagi um að breyta stefnunni verður afar erfitt viðfangsefni fyrir Evrópusambandið. Það er því margt sem bendir til þess að breytingarnar verði hægar í þessum málum.

Ég sé að tími minn er á þrotum. Ég mun geyma nokkuð af þeim atriðum sem ég vildi koma inn á þar til síðar í umræðunni.