Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 12:40:48 (4017)

1999-02-25 12:40:48# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[12:40]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er rangt hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að íslensk stjórnvöld hafi ekki áhyggjur af hnattrænum vandamálum. Ég tel að það sé mjög mikilvægt ef þjóð okkar vill taka þátt í hnattrænum vandamálum að við treystum böndin við alþjóðlega samvinnu og alþjóðlegar stofnanir, eins og Sameinuðu þjóðirnar, eins og Atlantshafsbandalagið, eins og Evrópusambandið, eins og Alþjóðaviðskiptastofnunina, eins og OECD og margar aðrar stofnanir, ég tala ekki um ýmsar undirstofnanir Sameinuðu þjóðanna í sambandi við hin hnattrænu vandamál í fjármálum, eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Alþjóðabankann sem ég hef því miður ekki haft tækifæri til að ræða mikið um. En ég vil sérstaklega mótmæla því að við viljum ekki taka þátt í umfjöllun um vandamál sem stafa af loftslagsbreytingum. Um 70% af þeirri orku sem Ísland notar er endurnýjanleg orka sem er hæsta hlutfall sem um getur. Við viljum halda áfram að nýta þessa orku til þess að draga úr þeim vandamálum sem eru uppi í heiminum, eða er betra að nota kol? Er betra að nota olíu? Er betra að nota gas? Er betra að nota kjarnorku? Eru menn að taka þátt í lausn þessara vandamála með því og er eitthvað óeðlilegt þótt við reynum að vinna því skilning? Við vitum að einn þriðji af þeirri losun sem á sér stað hér á Íslandi kemur úr samgöngunum. Einn þriðji kemur vegna fiskveiðanna. Vill hv. þm. hætta að nýta þessa orku eða vilja menn bíða þar til hægt verður að fara að framleiða vetni í stórum stíl? Skipta lífskjörin fram að þeim tíma engu máli í hug hv. þm.? Mér er ekki nokkur leið að koma þessum málflutningi saman en að ásaka okkur um að vilja ekki taka þátt í þessu er beinlínis rangt og villandi.