Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 12:43:14 (4018)

1999-02-25 12:43:14# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[12:43]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt því ekki fram að afstaða ríkisstjórnarinnar eða í máli hæstv. utanrrh. fælist almennt andstaða við að taka þátt í lausnum hnattrænna vandamála að öðru leyti en því að ég benti á þá staðreynd að sú mótsögn sem var í raun og veru í þeirri viljayfirlýsingu á fyrstu blaðsíðu ræðunnar annars vegar og hins vegar því að komast að þeirri niðurstöðu að undirrita ekki Kyoto-bókunina. Ég gagnrýndi hins vegar þá þröngu nálgun sem gengur þarna aftur og er hefðbundin, klassísk nálgun vestrænna iðnaðar- og efnahagshagsmuna. Hæstv. ráðherra taldi upp stofnanirnar og hverjar voru þær? Þær voru auðvitað NATO og þær voru Bretton Wood stofnanirnar sem eru núna í hinni alþjóðlegu umræðu undir mjög harðri gagnrýni fyrir að hafa mistekist og fyrir að hafa ekki ráðið við það verkefni að breyta um afstöðu og nálgast hin gífurlegu aðsteðjandi vandamál á umhverfissviðinu. Ég held að fróðlegt væri fyrir hæstv. utanrrh. að opna einhvern tímann gluggann, fara til Washington eða New York, fara þar inn í bókabúð í staðinn fyrir að heimsækja NATO og Alþjóðabankann og fylgjast með þeirri umræðu sem m.a. er orðin þar, bæði austan hafs og vestan, þar sem einmitt þessar heilögu stofnanir sem hæstv. ráðherra og skoðanabræður hans nota mestallan tíma sinn í að mæra, NATO og Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, eru mjög harðlega gagnrýnd, m.a. af háborgaralega sinnuðum hagfræðingum, ósköp einfaldlega vegna þess að menn sjá að menn eru ekki að horfast í augu við þessi vandamál af neinu raunsæi.

Umhverfisvæn orka, vatnsorka og gufuorka, er að sjálfsögðu betri en kol, olía eða kjarnorka en um það snýst ekki deilan. Hæstv. ráðherra reynir alltaf að stilla þessu þannig upp að þetta sé bara annaðhvort eða. Annaðhvort núverandi blind stóriðjustefna þar sem menn ráðstafa orkunni í þágu mengandi málmbræðslu eða ekki neitt. Það er ekki svona. Þetta er nauðhyggja. Þetta er einmitt það að vilja ekki horfa á aðra möguleika og reyna að átta sig á hvaða kosti Ísland á í stöðunni. Þeir eru miklu fleiri en bara þeir að taka við öllum þeim álbræðslum sem hingað kann að reka. En það er því miður stefna ríkisstjórnarinnar, gagnrýnislaus, blind stóriðjustefna.